Kynning á möguleikum til nýtingu jarðvarma

Möguleikar til nýtingar á jarðhita voru í fyrsta sinn teknir til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins á ráðstefnu sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra efndi til í Brussel síðastliðinn föstudag í boði Andris Piebalgs, orkumálastjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Við þetta tækifæri bauð iðnaðarráðherra Evrópusambandinu til samstarfs um frekari greiningu á möguleikum til jarðhitanýtingar í Evrópu og kom fram með tillögu um að Ísland og Evrópusambandið myndu vinna saman að því að auka nýtingu jarðhita m.a. í Austur Afríku og Suður Ameríku.

Ráðstefnan var liður í kynningarviku Evrópusambandsins í tilefni nýrra markmiða sambandsins í loftslagsmálum og notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Össur Skarphéðinsson átti síðar um daginn fund með Andris Piebalgs til að ræða nánar um samstarf Íslands og Evrópusambandsins á sviði orkumála.

Í upphafi kynningarinnar fluttu Andris Piebalgs og Össur Skarphéðinsson ávörp. Í ávarpi sínu fjallaði iðnaðarráðherra um þá miklu möguleika á nýtingu jarðhita sem er að finna í Evrópu og víðar í heiminum. Orkumálastjórinn gerði grein fyrir tillögum sem framkvæmdastjórn ESB lagði nýlega fram til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að losun CO2 minnki um 20% fyrir 2020, hlutur endurnýjalegrar orku verði 20% og orkunýtni aukist um 20%. Hann sagði að bregðast þyrfti við loftlagsbreytingum strax og að bið í eitt ár væri of langur tími. Þá sagði hann þetta vera í fyrsta skipti sem möguleikar til nýtingar á jarðhita væru teknir til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins.

Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, kynnti jarðhitaverkefni á Íslandi, Guðmundur Ómar Friðleifsson, yfirjarðfræðingur hjá Hitaveitu Suðurnesja, greindi frá Íslenska djúpborunarverkefninu, Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur fjallaði um kolefnisförgun í orkuframleiðslu úr jarðhita, Lárus Elíasson, forstjóri ENEX, fór yfir möguleika til nýtingar jarðvarma í Evrópu og Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysir Green Energy, fjallaði um stefnu Evrópulanda í jarðhitamálum, hvað þar hafi áunnist og hvers sé að vænta í framtíðinni. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel, stýrði fundinum og skýrði frá viðamikilli kynningu á Íslandi sem efnt verður til í Brussel á næstunni.Video Gallery

View more videos