Íslensk sveitarfélög þátttakendur í viðburði Evrópusambandsins

Helsti viðburður Evrópusambandsins á vettvangi sveitarstjórnarmála, Open Days, verður haldinn í Brussel dagna 6. – 9.október nk. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra eru meðal þeirra sem verða með framlag á Open Days, sem nú eru haldnir í sjötta sinn.  Skipuleggjendur Open Days gera ráð fyrir að allt að fimm þúsund sveitarstjórnarmenn, allsstaðar að úr Evrópu, muni sækja viðburðinn sem samanstendur af málstofum, ráðstefnum, kynningarsvæði o.m.fl.  Að þessu sinni verður sjónum einkum beint að nýsköpun, umhverfismálum og að deila reynslu í byggðamálum.

Framlag íslensku landshlutasamtakanna verður með tvennum hætti.  Annarsvegar taka þau þátt í að skipuleggja tvær málstofur, í samvinnu við norðurhéruð Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Skotlands og Grænland, þar sem fjallað verður um mikilvægi norðurslóða út frá ýmsum sjónarhornum.  Meðal frummælenda verður Vífill Karlsson, atvinnuráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og dósent við Háskólann á Bifröst, en hann mun fjalla um nýtingu náttúruauðlinda á norðurslóðum við uppbyggingu á ferðaþjónustu.  Þá munu landshlutasamtökin vera með kynningarbás á sk. Investors Café þar sem þau kynna sig fyrir hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum.

Brusselskrifstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga er tengiliður landshlutasamtakanna við skipuleggjendur Open days.  Starfsemi hennar er einnig forsenda þess að þau geti verið með framlag þar sem Evrópusambandið setur það sem skilyrði að þátttakendur hafi tengilið í Brussel.  Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk sveitarfélög eru formlega sýnileg á vettvangi Evrópusambandsins og er vakin athygli á því í kynningarefni Open Days.  Þá hefur kommissar byggðamála, Danuta Hübner, einnig vakið athygli á því í ræðum sínum.

Auk fulltrúa landshlutasamtakanna mun hópur íslenskra sveitarstjórnarmanna sækja Open Days í ár líkt og á síðasta ári.Video Gallery

View more videos