Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fundar með fulltrúum EFTA, ESA og sendiráðs Íslands í Brussel

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sat fundi með starfsmönnum EFTA, ESA og sendiráðs Íslands í Brussel, dagana 12. og 13. febrúar 2007, þar sem fjallað var um ýmis viðfangsefni Evrópusambandsins á svið heilbrigðis- og almannatryggingamála sem eru á leið í EES samninginn eða kunna að varða hann í framtíðinni. Með ráðherra á fundunum voru þeir Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri og Hermann Sæmundsson fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við sendiráð Íslands í Brussel.

Ráðherra ræddi meðal annars störf lyfjavettvangs ESB sem nýlega hóf starfsemi sína. Tilgangur þess er að leiða saman stjórnvöld Evrópusambandsríkja, fulltrúa lyfjaiðnaðarins og hagsmunasamtaka sjúklinga til að ræða leiðir til að styrkja innri lyfjamarkað ESB í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem hann býr við, um leið og tryggðir eru hagsmunir sjúklinga hvað framboð og verð lyfja varðar. Fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eiga áheyrnaraðild í vinnuhópum lyfjavettvangsins ásamt fulltrúum annarra EFTA EES ríkja.

Ráðherra átti einnig fund með Stefáni Hauki Jóhannessyni, sendiherra, þar sem farið var yfir þau mál sem efst eru á baugi í EES samstarfinu. Á fundinum var meðal annars rætt um stöðuna í viðræðum við Evrópusambandið um stækkun EES samningsins hvað Rúmeníu og Búlgaríu varðar. Ennfremur átti ráðherra fund með Kristjáni Andra Stefánssyni, stjórnarmanni ESA.Video Gallery

View more videos