Umsókn um íslenskt vegabréf

Hægt er að sækja um almenn vegabréf hjá sendiráði Íslands í Brussel.

Afgreiðsla vegabréfa

Afgreiðslutími fyrir vegabréf er eftirfarandi:

Alla virka daga frá klukkan 10-14.

Panta ber tíma í síma 02 238 50 00 eða senda beiðni á tölvupóstfangið emb.brussels@mfa.is

Umsækjendur þurfa að hafa í huga að frágangur umsóknar og myndataka getur tekið nokkra stund. 

Ferlið

Umsækjandi kemur sjálfur í sendiráðið til að sækja um nýtt vegabréf.  Bóka þarf tíma áður.  Eftirfarandi þarf að hafa með sér:

- Eldra vegabréf

- Reiðufé fyrir greiðslu vegabréfsins

Gjaldskrá fyrir vegabréf (gjaldskrá 2018)

100 € fyrir 18-66 ára en 45 € fyrir aðra.

Hraðafgreiðsla vegabréfa kostar 200 € fyrir 18-66 ára en 90 € fyrir aðra.

Athugið að umsækjendur verða að greiða með reiðufé, ekki er tekið við kreditkortum í sendiráðinu.

Vegabréfin eru útbúin á Íslandi og send með almennum pósti til Belgíu 14 virkum dögum eftir umsókn.

Vegabréf fyrir börn yngri en 18 ára

Við vegabréfaumsókn barns er þess krafist að báðir foreldrar eða forráðamenn komi í sendiráðið með barnið og veiti samþykki sitt fyrir umsókninni.  Foreldrar eða forráðamenn þurfa að framvísa persónuskilríkjum.

Ef annar forráðamaður barnsins getur ekki mætt skal hann/hún rita samþykki sitt á þar til gert eyðublað sem þá þarf vottun tveggja einstaklinga eldri en 18 ára.  Í þeim tilvikum þurfa afrit af skilríkjum allra aðila að fylgja með umsókninni. 

Börn fædd erlendis verða að vera komin með kennitölu þegar sótt er um vegabréf fyrir þau, sjá skráningu barns hjá Þjóðskrá Íslands. Hafi barn ekki fengið útgefið íslenskt vegabréf áður verður að framvísa fæðingarvottorði barnsins (acte de naissance) og staðfestingu á kennitölu frá Þjóðskrá Íslands.

Glötuð eða stolin vegabréf

Hafi eldra vegabréf glatast þarf að skila inn tilkynningu um glatað vegabréf og hafi vegabréfi verið stolið þarf að skila lögregluskýrslu þar að lútandi.  Öll vegabréf sem hafa verið tilkynnt glötuð hjá Þjóðskrá Íslands eða hjá sendiráðinu þegar sótt er um nýtt vegabréf eru ógild og ekki hægt að nota þau aftur.

Nafnabreytingar

Ef umsækjandi hefur tekið upp nýtt eftirnafn eða breytt á einhvern hátt eftirnafni sínu þarf að vera búið að ganga frá tilkynningu um slíkt til þjóðskrár á Íslandi. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa þó makar taki upp nafn hvors annars við hjónavígslu erlendis.

Neyðarvegabréf

Í sérstökum neyðartilfellum geta sendiráðið og ræðismenn gefið út neyðarvegabréf. Taka skal fram að neyðarvegabréf eru ekki ákjósanleg ferðaskilríki en duga vel til að fara til Íslands. 

Umsækjandi kemur í sendiráðið eða til ræðismanns í eigin persónu með 2 passamyndir og eldra vegabréf.  Ef um er að ræða umsókn fyrir börn yngri en 18 ára verða báðir foreldrar að koma á staðinn með persónuskilríki og fylla út þartilgerða umsókn.

Neyðarvegabréfið kostar 50 evrur fyrir 18-66 ára og 25 evrur fyrir aðra (skv. gjaldskrá 2018).

Þjónusta ræðismanna

Vakin er athygli á því að ræðismenn geta ekki tekið við umsóknum um almenn vegabréf.  Ræðismenn geta eftir sem áður haft milligöngu um útgáfu neyðarvegabréfa í sérstökum neyðartilfellum.

Video Gallery

View more videos