Þjónusta við Íslendinga

Ýmsar upplýsingar um dvöl í Austurríki

Sendiráð Íslands í Vínarborg leggur lið þeim Íslendingum sem búsettir eru í Austurríki og umdæmislöndunum, þ.m.t. námsmönnum og ferðamönnum. Aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna útgáfu vegabréfa, neyðarvegabréfa, ökuskírteina o.þ.h.

Það skal tekið fram að sendiráðið veitir ekki fjárhagsaðstoð.

Sendiráðið mælir með opinberum upplýsingavef stjórnvalda í Austurríki, þar sem hægt er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar varðandi búsetu í Austurríki, svo sem dvalarleyfi, atvinnurekstur, bifreiðaskráningar o.fl., sjá http://www.help.gv.at/ (á þýsku og ensku).

1. Dvalarleyfi

Sem borgarar evrópska efnahagssvæðisins (EES) þurfa íslenskir ríkisborgarar ekki dvalarleyfi í Austurríki ef þeir hyggjast dvelja skemur en þrjá mánuði í landinu. Hins vegar ríkir skráningarskylda og ber þeim sem taka upp búsetu í Austurríki að skrá sig innan þriggja daga með svokölluðum „Meldezettel“ hjá skráningarskrifstofu Vínarborgar („Magistrat“) eða hjá bæjarskrifstofu utan Vínarborgar „Gemeinde“. Einnig ríkir skráningarskylda þegar heimilisfang er flutt. Íslenskum ríkisborgurum er heimilt að dvelja lengur en þrjá mánuði í Austurríki ef að

a) þeir hafa atvinnu í Austurríki, eða starfa sjálfstætt;

b) þeir geta sýnt fram á framfærslugetu* og sjúkratryggingu fyrir sig og fjölskyldumeðlimi sína;

c) meginástæða dvalar er að stunda nám við viðurkennda menntastofnun, auk þess að geta sýnt fram á framfærslugetu og sjúkratryggingu fyrir sig og fjölskyldumeðlimi sína.

* Sú upphæð sem telst til framfærslugetu er mismunandi eftir búsetu og lífsskilyrðum viðkomandi, en yfirvöld á hverjum stað veita upplýsingar um hver sú upphæð er.

Fjölskyldumeðlimum íslenskra ríkisborgara sem uppfylla ofangreind skilyrði, sem einnig eru ríkisborgarar EES-ríkis eða svissneskir ríkisborgarar, en uppfylla ekki skilyrðin hér að ofan er heimilt að dvelja lengur en þrjá mánuði í Austurríki ef að

a) þeir eru makar viðkomandi eða í skráðri sambúð með þeim;

b) þeir eru börn (barnabörn, barnabarnabörn) viðkomandi íslensks ríkisborgara, eða maka hans svo framarlega sem makinn er ríkisborgari EES-ríkis eða svissneskur ríkisborgar, undir 21. árs, eða eldri ef barnið er á framfærslu foreldra sinna;

c) þeir eru foreldrar (afar/ömmur, langafar/langömmur) viðkomandi íslensks ríkisborgara, eða maka hans svo framarlega sem makinn er ríkisborgari EES-ríkis eða svissneskur ríkisborgar, ef að þau eru á framfærslu áðurgreindra einstaklinga;

d) þeir eru par sem getur sýnt fram á fast samband;

e) þeir eru aðrir ættingjar viðkomandi einstaklings sem voru á framfærslu hans í heimalandi sínu, eða bjuggu undir sama þaki og hann í heimalandinu, eða sem af heilsufarsástæðum þarfnast persónulegrar aðhlynningar viðkomandi.

Íslenskum ríkisborgurum sem hyggjast dvelja lengur en í þrjá mánuði í Austurríki ber skylda til að sækja um staðfestingu á skráningu („Anmeldebescheinigung für EWR-Staatsbürger“) hjá næstu yfirvöldum í eigin persónu innan fjögurra mánaða frá komu sinni til Austurríkis. Smellið hér til að finna næstu yfirvöld þar sem hægt er að sækja um staðfestingu á skráningu. Vakin er athygli á því að þeir sem ekki sækja um staðfestingu á skráningu tímanlega geta átt yfir höfði sér sektir.

Við staðfestingu á skráningu er nauðsynlegt að framvísa í frum- og afriti:

a) Gildu vegabréfi og:

- staðfestingu vinnuveitanda eða sönnur fyrir sjálfstæðum starfsrekstri; eða

- staðfestingu á framfærslugetu og sjúkratryggingu; eða

- skráningu í menntastofnun auk staðfestingar á framfærslugetu og sjúkratryggingu.

b) Fyrir maka eða sambýlismann, þar að auki

- staðfestingu á hjónabandi eða sambúð.

c) Fyrir par, þar að auki

- staðfestingu á föstu sambandi (t.d. skráning á sama heimilisfang).

d) Fyrir börn og barnabörn, þar að auki 

- fæðingarvottorði;

- staðfestingu á að barnið/barnabarnið sé á framfærslu viðkomandi.

e) Fyrir foreldra, tengdaforeldra, afa og ömmur, þar að auki

- staðfestingu á að foreldrið, tengdaforeldrið, afinn eða amman sé á framfærslu viðkomandi.

f) Fyrir aðra ættingja, þar að auki

- staðfestingu á að ættinginn var á framfærslu viðkomandi í heimalandi; eða

- staðfestingu á sameiginlegri heimilisfesti í heimalandi og

- staðfestingu á heilsuástandi sem krefst persónulegrar aðhlynningar viðkomandi.

Það er ráðlegt að sækja tímanlega um staðfestingu á skráningu þar sem að skráningarferlið getur tekið lengri tíma.

2. Stofnun bankareiknings

Til að stofna bankareikning í Austurríki þarf viðkomandi að vera með fast heimilsfang í Austurríki. Við stofnun bankareiknings er nauðsynlegt að framvísa:

a) vegabréfi;

b) staðfestingu á heimilisfangi/Meldezettel.

3. Húsnæði

Húsnæðismarkaðurinn í Austurríki er mismunandi eftir því hvar í landinu leitað er að húsnæði. Í Vínarborg er markaðurinn töluvert hraður og algengt að íbúðir séu boðnar með mjög skömmum fyrirvara. Heppilegt getur verið að vera á staðnum þegar leitað er að húsnæði en mælt er með því að kynna sér markaðinn fyrirfram, t.d. á netinu. Félag Íslendinga í Austurríki er með facebook-síðu þar sem félagar geta spurst fyrir um húsnæði og skipst á upplýsingum.

Algengt er að beðið sé um eftirfarandi skjöl við undirritun leigusamnings:

a) staðfesting á föstum tekjum;

b) staðfesting á bankareikningi;

Almennt er farið fram á tveggja til þriggja mánaða leigu sem innbústryggingu og ef að notast er við húsaleigumiðlara er algengt að leigukaupi þurfi að greiða honum ákveðið gjald.

Meðfylgjandi eru nokkrar vefslóðir þar sem hægt er að leita að íbúðum:

http://www.derstandard.at/ (>> Immobilien)

http://www.diepresse.at/ (>> Immobilien)

http://www.kurier.at/ (>> Immobilien)

http://www.immobilien.net/

http://www.wohnenboerse.at/ (húsnæðisþjónusta fyrir háskólanema)

http://www.jobwohnen.at/ (atvinnu- og húsnæðisþjónusta fyrir háskólanema)

http://www.willhaben.at/

Félag Íslendinga í Austurríki á facebook.

4. Vegabréf

Sendiráð Íslands í Vín og ræðismenn í umdæmislöndum sendiráðsins geta framlengt gildistíma almennra íslenskra vegabréfa um eitt ár.  Í brýnustu neyð getur sendiráðið og ræðismenn gefið út neyðarvegabréf.  Taka skal fram að neyðarvegabréf eru ekki ákjósanleg ferðaskilríki.

Hægt er að sækja um almennt íslenskt vegabréf á Íslandi og í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló, Lundúnum, Berlín, Washington D.C. og í Peking.

Skilríki sem Íslendingur skal hafa meðferðis á ferðum innan Evrópu

5. Ökuskírteini

Hægt er að sækja um nýtt ökuskírteini hjá sendiráði Íslands í Vínarborg. Viðkomandi kemur í sendiráðið í eigin persónu, fyllir út umsóknareyðublað og kemur með eina passamynd. Sendiráðið sendir umsóknina til Ríkislögreglustjóra sem sendir svo skírteinið beint til viðkomandi. Ökuskírteini kostar 37 Evrur (september 2013). Íslenskir ríkisborgarar sem eru handhafar íslensks ökuskírteinis eru ekki skyldugir til að sækja um austurrískt ökuskírteini.

Er íslenskt ökuskírteini gilt allsstaðar erlendis?

6. Atvinnuleit og atvinnuleysisbætur

Vínarborg er miðstöð alþjóðlegs samstarfs og er mikill fjöldi alþjóðlegra stofnana með sæti í Vín, en upplýsingar um þær má finna á vef Vínarborgar. Þessar stofnanir auglýsa reglulega eftir mjög hæfu starfsfólki og má finna upplýsingar um lausar stöður á heimasíðum stofnananna.

Íslendingar á atvinnuleysisbótum á Íslandi sem flytja til Austurríkis eiga rétt á atvinnuleysisbótum í Austurríki. Arbeitsmartkservice (AMS) er jafngildi vinnumálastofnunar í Austurríki, sjá http://www.ams.at/english/23378.html.

AMS aðstoðar atvinnulausa við leit að nýrri atvinnu auk þess sem atvinnuauglýsingar eru birtar í dagblöðum:

http://www.derstandard.at/ (>> Karriere)

http://www.diepresse.at/ (>> Karriere)

http://www.kurier.at/ (>> Karrieren)

http://www.jobwohnen.at/ (atvinnu- og húsnæðisþjónusta fyrir háskólanema)

7. Íslendingafélagið

Félag Íslendinga í Austurríki (FÍA) er opinn félagsskapur Íslendinga sem búsettir eru í Austurríki. Félagsmenn hittast reglulega til að geta verið í sambandi við Íslendinga, skiptast á bókum og aðstoða hvern annan í sambandi við lífið í Austurríki. Netfang félagsins er islendingafelagid [hjá] gmail.com og finna má félagið á facebook.

8. Skráning íslenskra barna sem fædd eru í Austurríki

Börn íslenskra foreldra sem fædd eru í Austurríki, eða börn foreldra með mismunandi ríkisfang, þarf að skrá á borgarskrifstofu („Standesamt“) þess hverfis sem barnið fæddist í innan viku frá fæðingu. Nánari upplýsingar á þýsku og ensku um hvaða gögnum þarf að framvísa við útgáfu fæðingarvottorðs má finna á upplýsingavef austurrískra stjórnvalda (http://www.help.gv.at/ >> Familie und Partnerschaft >> Geburt; eða >> Family and Partnership >> Birth).

Athygli skal vakin á því að sækja þarf um ríkisborgararétt fyrir barn íslensks föður og erlendrar móður sem ekki eru í hjónabandi, á þar til gerðu eyðublaði hjá Útlendingastofnun.

9. Gifting Íslendinga í Austurríki

Borgarskrifstofur („Standesamt“) veita upplýsingar um hvaða gögnum erlendir ríkisborgarar sem vilja giftast í Austurríki þurfa að framvísa. Almennar upplýsingar um giftingar í Austurríki er að finna á þýsku og ensku á upplýsingavef austurrískra stjórnvalda (http://www.help.gv.at/ >> Familie und Partnerschaft >> Heirat; eða >> Family and Partnership >> Marriage).

10. EES

EES-samningurinn kveður á um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu þ.m.t. margvísleg vinnuréttindi einstaklinga. Samningurinn kveður einnig á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnrétttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl. Sjá nánar: http://www.ees.is/

11. Flutningur til Íslands

Þegar fjölskylda eða einstaklingur flytur aftur til Íslands eftir að hafa búið erlendis þarf að huga að ýmsu. Nánari upplýsingar má finna á vefsetrinu island.is.

Einnig þarf að afskrá sig í Austurríki hjá skráningarskrifstofu Vínarborgar („Magistrat“) eða hjá bæjarskrifstofu utan Vínarborgar „Gemeinde“.

12. Borgaraþjónustan

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins gætir hagsmuna íslenskra ríkisborgara erlendis og er starfsemi sendiráðs Íslands í Vínarborg liður í þessari þjónustu. Opnunartími sendiráðsins er alla virka daga frá 9:00-16:00. Ef að neyðartilfelli ber að höndum utan opnunartíma sendiráðsins er hægt að ná sambandi við utanríkisráðuneytið í Reykjavík í síma 00354 545 9900 og upplýsir ráðuneytið starfsmenn sendiráðsins um neyðartilfellið. Nánari upplýsingar um borgaraþjónustuna má finna á vef utanríkisráðuneytisins, sjá http://www.utanrikisraduneyti.is/borgarathjonusta/verkefni/

Athygli er vakin á því að ferðamenn sem dvelja í styttri tíma erlendis án þess að taka þar upp búsetu eða hefja störf halda almennt tryggingavernd sinni á Íslandi.

Video Gallery

View more videos