Almennt um samning SÞ gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (United Nations Convention against Transnational Organized Crime, UNTOC), hér eftir Palermó-samningurinn, var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 2000. Samningurinn tók gildi í september árið 2003 og hafa 179 ríki fullgilt hann (janúar 2014). Ísland undirritaði samninginn í desember árið 2000 og lauk sínu fullgildingarferli á árinu 2010. Samningurinn tók því gildi gagnvart Íslandi í maí árið 2010. Við Palermó-samninginn hafa verið gerðar þrjár bókanir sem fást við sértæka fleti og birtingarmyndir skipulagðar glæpastarfsemi. Ísland hefur undirritað þær allar og fullgilt eina þeirra. Hún fjallar um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna.

Megintilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu á milli ríkja með það að markmiði að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með skilvirkari hætti en áður hefur tíðkast. Til þess að því markmiði verði náð þarf annars vegar að draga úr mismun á réttarkerfum sem hefur torveldað samstarf ríkja og hins vegar að gera lágmarkskröfur til landsréttar aðildarríkjanna til þess að efla alþjóðlegt samstarf. Í þessu skyni miðar samningurinn meðal annars að því að samhæfa stefnumörkun aðildarríkjanna, lagalegar heimildir þeirra og aðferðir valdhafa gagnvart þeim sem skipuleggja fjölþjóðlega glæpi þannig að sameiginlegar aðgerðir ríkja til að koma böndum yfir þá verði árangursríkari. Samningurinn miðar einnig að bættri samvinnu aðildarríkja um málefni á borð við framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, meðferð sakamála og sameiginlega rannsókn þeirra, verndun vitna og fórnarlamba o.s.frv. Einnig skulu aðildarríki veita þróunarlöndum tækniaðstoð og auðvelda þeim að gera nauðsynlegar ráðstafanir og ná fram getu til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa SÞ (UNODC) í Vín er vörsluaðili samningsins.

Video Gallery

View more videos