Almennt um samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (UN Convention against Corruption, UNCAC) var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 2001. Samningurinn tók gildi í desember árið 2005 og hafa 170 ríki fullgilt hann (janúar 2014). Ísland lauk sínu fullgildingarferli seint á árinu 2010 og tók samningurinn gildi gagnvart Íslandi í mars árið 2011.

Markmiðið með samningnum er þrenns konar. Í fyrsta lagi að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti. Í öðru lagi að stuðla að og styðja við alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð í tengslum við baráttu gegn spillingu, og í þriðja lagi að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna.

Samningurinn inniheldur fimm megináherslusvið; forvarnarráðstafanir, refsivæðingu og framkvæmd laga, alþjóðlegt samstarf, endurheimtingu eigna og tæknilega aðstoð og upplýsingaskipti. Aðildarríki samningsins annast sjálf eftirlit með framkvæmd hans. Tvö ríki eru dregin úr potti og hafa eftirlit með þriðja ríkinu í ákveðinn tíma, með virkri þátttöku ríkisins sem er undir eftirliti. Þessi tvö ríki skila síðan skýrslu um eftirlitið til sérfræðinga sem fara yfir framkvæmd ríkisins á samningnum með eigin eftirliti, byggðu á skýrslunni. Sérfræðingarnir skrifa því næst landaeftirlitsskýrslu um framkvæmd viðkomandi ríkis á samningnum. Því næst fer skýrslan á dagskrá hóps um framkvæmd samningsins sem fundar einu sinni til þrisvar á ári og hefur yfirumsjón með framkvæmd eftirlitsferlisins undir samningnum. Þessi hópur leggur til úrbætur ef þörf er á til ríkjaráðstefna samningsins, sem fundar á eins til tveggja ára fresti. Ísland er undir eftirliti sem hófst í júní árið 2013. Noregur og Madagaskar annast eftirlitið. Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa SÞ (UNODC) í Vín stuðlar að framkvæmd samningsins en aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er vörsluaðili samningsins.

Video Gallery

View more videos