Almennt um samninginn um opna lofthelgi

Samningurinn um opna lofthelgi (Treaty on Open Skies, OST) er ein af þremur meginstoðum í því eftirlits- og afvopnunarkerfi sem varð til eftir lok kalda stríðsins til að stuðla að stöðugleika og samvinnu á sviði öryggismála[1]. Meginmarkmið samningsins er að heimila óvopnað eftirlit úr lofti með hergögnum og -mannvirkjum í aðildarríkjum samningsins og stuðla þannig að gagnsæi, auka gagnkvæman skilning og traust milli þeirra.

Hugmyndin um óvopnað eftirlit úr lofti á rætur sínar að rekja til vígbúnaðarkapphlaups stórveldanna og til Dwight D. Eisenhower þáverandi Bandaríkjaforseta. Hugmyndin varð að veruleika eftir að kalda stríðinu lauk en þá komu 26 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins saman á vettvangi Öryggis- og samvinnuráðstefnu Evrópu (Conference on Security and Co-operation in Europe, CSCE, síðar Organisation for Security and Co-operation in Europe, OSCE) og skrifuðu undir samninginn um opna lofthelgi.

Samningurinn var undirritaður í mars 1992 og tók gildi í janúar 2002, þá með 34 aðildarríki innanborðs. Meðal aðildarríkja eru Bandaríkin, Rússland, Kanada, helstu Evrópuríki og öll Norðurlöndin þ. á m. Ísland.[2] Frá gildistöku samningsins til ágúst 2013 hafa samtals verið flogin 1000 eftirlitsflug í lofthelgi aðildarríkja samningsins sem þannig hefur byggt upp samvinnu og traust milli þeirra. Ekki hefur komið til þess að eftirlitsflug hafi fara fram á Íslandi en flugvöllurinn í Keflavík hefur verið notaður til að taka eldsneyti.

Samráðsnefnd samningsins um opna lofthelgi (Open Skies Consultative Commission, OSCC) sér um framkvæmd samningsins. Í henni sitja fulltrúar frá hverju aðildarríki og fundir fara fram í höfuðstöðvum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín í Austurríki. Aðildarríkin skiptast á að sinna formennsku í samráðsnefndinni til fjögurra mánaða í senn. Undir samráðsnefndinni starfa einnig óformlegir vinnuhópar um tæknileg mál, meðal annars um skynjara, vottun loftfara, kvótaúthlutun o.fl.

Meginhlutverk samráðsnefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Taka til athugunar mál sem upp kunna að koma varðandi samningsákvæði.
  • Leitast við að leysa úr ágreiningi um túlkun á framkvæmd samningsins.
  • Íhuga og taka ákvarðanir um aðildarumsóknir.
  • Endurskoða árlega dreifingu eftirlitskvóta.


[1] Hinar tvær eru samningurinn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu (Conventional Armed Forces in Europe, CFE) og Vínarskjalið frá 2011 um traustvekjandi aðgerðir (Vienna Document on Confidence and Security Building Measures).

[2] Ríki sem eiga aðild að samningnum eru Hvíta-Rússland, Belgía, Bosnía-Hersegóvína, Búlgaría, Kanada, Króatía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn,  Svíþjóð, Tyrkland, Bretland, Úkraína og Bandaríkin.

 

Video Gallery

View more videos