Fíkniefnasamningar UNODC

Eftirfarandi alþjóðasamningar eru þrír mikilvægustu samningarnir um eftirlit með útbreiðslu fíkniefna í heiminum. Markmið þeirra er að samræma alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum og samhliða að tryggja framboð efna til lækninga og rannsókna. Ásamt UNTOC og UNCAC eru þessir þrír samningar þeir sem liggja til grundvallar starfsemi UNODC í fíkniefnamálum. Allir þessir samningar eru mikilvægur hluti af æskilegum lagaramma sem þarf að vera fyrir hendi í aðildarríkjum og styrkir þau í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum.

Almennt um alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni.

Skrifað var undir alþjóðasamning um ávana- og fíkniefni (Single Convention on Narcotic Drugs) árið 1961 og tók hann gildi í ágúst árið 1975. Hann kveður á um baráttu gegn misnotkun fíkniefna með samræmdum alþjóðlegum aðgerðum. Samningurinn miðar að því að takmarka alla útbreiðslu og framleiðslu á fíkniefnum, nema með sérstöku leyfi til framleiðslu efna sem ætluð eru til lækninga eða rannsókna. 184 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Almennt um alþjóðasamninginn um skynvilluefni.

Alþjóðasamningur um skynvilluefni (Convention on Psychotropic Substances) er eins konar viðbótarsamningur við alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni, þar sem sá samningur náði ekki yfir nýlega uppgötuð skynvilluefni á þessum tíma. Skrifað var undir samninginn árið 1971 og hann tók gildi í ágúst árið 1976. Líkt og samningurinn um ávana- og fíkniefni miðar þessi samningur að takmörkun útbreiðslu á ólöglegum fíkniefnum og kveður á um samræmt alþjóðlegt samstarf. 183 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Almennt um samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni.

Skrifað var undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni (United Nations Convention Against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic Substances) árið 1988 og tók hann gildi í nóvember árið 1990. Samningurinn kveður á um auknar ráðstafanir í baráttu gegn ólöglegri fíkniefnasölu, en í honum eru ákvæði um peningaþvætti og forefni ávana- og fíkniefna. Einnig er kveðið á um alþjóðlegt samstarf um framsal fíkniefnasala, afhendingarmáta og málsmeðferð þeirra. Þessi samningur táknaði ákveðna stigmögnun í baráttunni gegn fíkniefnum. Í formála hans er bent á að undangengnar aðgerðir hafi ekki dugað til að koma böndum á fíkniefnaneyslu og varað er við stöðugri aukningu ólöglegrar verslunar með fíkniefni. 188 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Video Gallery

View more videos