Almennt um samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn

Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Test Ban Treaty, CTBT) kveður á um algjört bann við hvers kyns tilraunasprengingum sem tengjast þróun kjarnavopna. CTBT er þannig meðal lykilsamninga á alþjóðavettvangi til þess að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og stuðla að afvopnun.

Fyrstu hugmyndir um samninginn má rekja til upphafs kalda stríðsins. Formlegar samningaviðræður um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn hófust hins vegar ekki fyrr en árið 1993 og var samningurinn samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1996. Árið 2013 höfðu 183 ríki undirritað samninginn og 161 ríki fullgilt hann. Ísland undirritaði samninginn hinn 24. september árið 1996 um leið og hann var lagður fram til undirritunar, og var hann fullgiltur af Íslands hálfu hinn 26. júní árið 2000.

Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn  eða CTBT hefur ekki enn öðlast gildi þar sem 14. grein hans kveður  á um að það gerist ekki fyrr en 44 tilgreind ríki hafi fullgilt hann. Það eru ríki sem réðu  yfir kjarnavopnum eða rannsóknarkjarnakljúfum þegar samningurinn var lagður fram til undirritunar. Í september árið 2013 höfðu 36 þessara ríkja fullgilt samninginn. Þau  ríki sem ekki hafa stigið það skref eru: Bandaríkin, Egyptaland, Indland, Íran, Ísrael, Kína, Norður-Kórea og Pakistan. Svokölluð „14. greinar ráðstefna“ er haldin annað hvert ár í þeim tilgangi að stuðla að fullgildingu samningsins.

Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission) annast framkvæmd samningsins og er staðsett í Vín. Á Íslandi eru reknar tvær eftirlitsstöðvar í tengslum við samninginn, jarðskjálftamælingar í Borgarnesi á vegum Veðurstofunnar og geislamælingar í Reykjavík á vegum Geislavarna ríkisins.

Video Gallery

View more videos