Almennt um samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu

Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu (Treaty on Conventional Armed Forces in Europe, CFE) var undirritaður árið 1990 af öllum aðildarríkjum og tók gildi í júlí árið 1992 hjá öllum aðildarríkjum[1]. Aðildarríki samningsins eru þrjátíu talsins. Hann var upphaflega gerður milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. CFE hefur verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði hefðbundinna vopna. Hann kveður m.a. á um hámarksfjölda hermanna og hergagna, upplýsingaskipti, tilkynningar, skoðun og eftirlit. Samráðsnefnd samningsins (JCG) samanstendur af fulltrúum aðildarríkja. Nefndin fundar með reglubundnum hætti í Vín og fjallar um framkvæmd samningsins.

Samningurinn var endurskoðaður árið 1999 í Istanbúl en breytingarnar tóku aldrei gildi vegna ágreinings um dvöl herliðs Rússa í Georgíu (m.a. Abkasíuhéraði) og Moldóvu (Transnistríu-héraði).  Rússar tilkynntu „frestun“ á framkvæmd hans í desember 2007 en Atlantshafsbandalagsríkin halda áfram að framkvæma ákvæði hans. Ísland styður áframhaldandi viðræður um að ná samkomulagi um framkvæmd CFE-samningsins.


[1] Fyrir utan Tékkland og Slóvakíu þar sem samningurinn tók gildi 1.janúar árið 1993 við gildistöku sjálfstæðis landanna tveggja eftir upplausn Tékkóslóvakíu.

 

Video Gallery

View more videos