Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE)

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í þátttökuríkjunum. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi svæðisskrifstofa í þátttökuríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi. ÖSE er stærsta svæðisbundna stofnun heims sem vinnur að öryggi þátttökuríkja í víðu samhengi. Þátttökuríkin vinna saman að heildaröryggi á breiðum grundvelli og eiga skoðanaskipti um margvísleg málefni í viku hverri í Vín.

Upphaf stofnunarinnar má rekja til kalda stríðsins og þeirrar hernaðarlegu spennu sem það skapaði. Þörfin jókst á umræðuvettvangi, Sovétríkin lögðu til ráðstefnu um öryggismál og Finnland tók af skarið og boðaði til ráðstefnunnar. Frá árinu 1972 til ársins 1975 voru síðan haldnir rúmlega 2400 fundir þar sem 4660 tillögur voru ræddar áður en Helsinki lokaskjalið (Helsinki Final Act) var undirritað árið 1975. Skjalið inniheldur tíu atriði sem þátttökuríkin skuldbundu sig að virða í samstarfi sínu. Þar á meðal er áhersla á mannréttindi, lýðræðisþróun og friðhelgi landsvæðis. Samþykkt var að skuldbindingar stofnunarinnar (ráðstefnunnar á þeim tíma) væru pólitískt bindandi en ekki lagalega. Nokkrum vikum eftir fall Berlínarmúrsins hélt ÖSE leiðtogafund í París þar sem lýst var yfir lokum kalda stríðsins og að Evrópa yrði endurreist undir merkjum lýðræðis, mannréttinda og mannfrelsis, efnahagsfrelsis og öryggis fyrir öll ríki. Á leiðtogafundi árið 1994 var samþykkt að breyta ráðstefnunni í stofnun (úr CSCE í OSCE). Stofnunin hefur síðan verið að þróast í það form sem hún er komin í núna en starfið grundvallast enn á Helsinki lokaskjalinu. 

ÖSE teygir anga sína yfir norðurhvel jarðar frá Vladivostok í Rússlandi til Vancouver í Kanada og nær yfir þrjár heimsálfur; Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Auk þátttökuríkjanna 57 eiga ellefu ríki áheyrnaraðild[1]. Auk þess vinnur ÖSE náið með öðrum stofnunum, m.a. Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Evrópuráðinu og NATO. Hvert ár situr eitt þátttökuríki í formennsku, leggur til áherslumál og ber ábyrgð á starfseminni það árið. Formaður stofnunarinnar er utanríkisráðherra formennskuríkis, honum til aðstoðar eru fyrrum formaður og verðandi og saman mynda þeir þríeyki (troika). Framkvæmdastjóri er skipaður af ráðherrafundi til þriggja ára. Æðsta vald hefur leiðtogafundur þar sem þjóðhöfðingjar hittast en sjö slíkir fundir hafa verið haldnir frá upphafi. Ráðherrafundur er haldinn árlega þar sem utanríkisráðherrar þátttökuríkja hittast, taka ákvarðanir og flytja sameiginlegar yfirlýsingar. Flestar ákvarðanir eru hins vegar samþykktar hjá fastaráði ÖSE í Vínarborg en þar hittast fastafulltrúar vikulega. Öll þátttökuríki ÖSE starfrækja fastanefnd í Vínarborg.

Málefnum stofnunarinnar er skipt upp í þrjár víddir. Fyrsta víddin fjallar um öryggis-, afvopnunar- og varnarmál. Þau málefni sem víddin spannar eru meðal annars aðgerðir gegn hryðjuverkum, lögreglusamvinna, stjórnun landamæra, eyðing jarðsprengja, takmörkun vopnaeignar og hernaðarumbætur. Þessi mál eru til umræðu í öryggismálanefnd ÖSE sem framsendir drög að ákvörðunum til fastaráðsins.

Önnur vídd fjallar meðal annars um örugga viðskiptahætti, góða stjórnarhætti, baráttu gegn spillingu, peningaþvætti, þátttöku borgaralegs samfélags, orkuöryggi, loftslagsbreytingar, förgun hættulegs úrgangs og vatnsstjórnun.

Efling og verndun mannréttinda eru málefni þriðju víddar ÖSE. Meðal annars tjáningarfrelsi, frelsi fjölmiðla og verndun fjölmiðlamanna; frelsi til hugsana, samvisku, trúar eða sannfæringar; frelsi til að koma saman með friðsömum hætti og félagafrelsi; ferðafrelsi; lýðræði,  lýðræðisstofnanir og stjórnmálaleg réttindi; réttarríkið þ.m.t. lýðræðisleg lagasetning, sjálfstæði dómstóla og réttlát málsmeðferð; lýðræðislegar kosningar og kosningaeftirlit; störf ODIHR; forvarnir og viðbrögð við hatursglæpum á ÖSE svæðinu; jafnréttismál og hvernig koma megi í veg fyrir ofbeldi gegn konum og börnum; aðgerðir gegn mansali o.fl.

Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt sérstaka áherslu á vernd mannréttinda, framkvæmd lýðræðislegra kosninga, baráttuna gegn mansali og útbreiðslu gereyðingarvopna og smá- og léttvopna auk aðgerða stofnunarinnar til að stemma stigu við hryðjuverkum. Ísland hefur lagt ríka áherslu á framkvæmd skuldbindinga þátttökuríkja á sviði mannréttinda með sérstaka áherslu á jafnréttismál og afnám ofbeldis gegn konum.
 
Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti þann 27. ágúst 2013 Lamberto Zannier, framkvæmdastjóra Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vínarborg, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis-og samvinnustofnun Evrópu.
Auðunn Atlason og Lamberto Zannier takast í hendur.

Video Gallery

View more videos