Alþjóðakjarnorku-málastofnunin (IAEA)

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) var stofnuð árið 1957 sem sjálfstæð alþjóðastofnun til að stuðla að friðsamlegri nýtingu kjarnorku. Á þeim tíma óttuðust menn áhrifamátt hinnar nýju tækni og var í mun að koma í veg fyrir misnotkun hennar. Markmið IAEA er að auka öryggi og eftirlit með nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna í aðildarríkjunum sem eru 160 talsins. Margvíslegt tæknilegt og vísindalegt þróunarsamstarf sem tengist notkun kjarnorku fer einnig fram á vettvangi stofnunarinnar. Árið 2005 hlutu IAEA og framkvæmdastjóri hennar friðarverðlaun Nóbels, ekki síst vegna þess eftirlitshlutverks sem lýtur að því að kjarnefni séu ekki notuð til vopnaframleiðslu.

IAEA fjallar um gerð og þróun lagalega bindandi alþjóðasamninga um öryggi og eftirlit vegna friðsamlegrar nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna. Þeir samningar eru bæði á sviði öryggis við nýtingu kjarnorku sem orkugjafa og geislavirkra efna við rannsóknir, og lúta einnig að hefðbundnu þjóðaröryggi. Stofnunin vinnur að fjölþættum aðgerðum gegn smygli og þjófnaði á geislavirkum efnum og úrgangi, auk þess sem framkvæmd eftirlits með kjarnorkuáætlunum ríkja Mið-Austurlanda og Norður Kóreu er ofarlega á dagskrá stofnunarinnar.

Annað meginverkefni IAEA er að efla tækniþekkingu og kunnáttu í þróunarríkjum, m.a. á notkun geislunar í læknisfræði, landbúnaðarframleiðslu og iðnaði. Stofnunin myndar auk þess ramma utan um alþjóðlegt samstarf til að takast á við geislavá, líkt og eftir kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011.
 
Aðalfundur IAEA er haldinn í september ár hvert en þess á milli stýrir stjórnarnefnd starfi stofnunarinnar. Árlega skipuleggur IAEA einnig tugi funda, námskeiða og æfinga, bæði í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vínarborg og í aðildarríkjunum. IAEA starfar á grundvelli eigin stofnskrár og gefur skýrslur til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins.
 
Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti þann 19. ágúst 2013 Yukiya Amano, framkvæmdastjóra IAEA í Vínarborg, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni.
Auðunn Atlason og Yukiya Amano takast í hendur.

Video Gallery

View more videos