Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission)

Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission) var stofnuð 1996 með höfuðstöðvar í Vín og var Ísland meðal stofnaðila. Undirbúningsnefndin er samráðsvettvangur milli aðildarríkja og starfar til bráðabirgða þar til samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBT) gengur í gildi. Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn kveður á um algjört bann við hvers kyns tilraunasprengingum sem tengjast þróun kjarnavopna. CTBT er þannig meðal lykilsamninga á alþjóðavettvangi til þess að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og stuðla að afvopnun.

Meginverkefni undirbúningsnefndarinnar er að reka alþjóðlegt eftirlitskerfi með kjarnavopnatilraunum. Alls er um að ræða net 337 eftirlitsstöðva sem staðsettar eru víðsvegar um heiminn en slíkt eftirlitskerfi þarf að vera til staðar þegar samningurinn tekur gildi. Eftirlitskerfið mælir sveiflur í andrúmslofti, jörðu og í sjó, auk þess að mæla geislavirk efni í andrúmslofti og því á ekki að vera hægt að brjóta gegn samningnum í leyni. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir að stofnunin geti, þegar samningurinn hefur tekið gildi, sent eftirlitsmenn til ríkja ef tilefni þykir til.

Tvær stöðvar CTBTO eru á Íslandi – jarðskjálftamælingar í Borgarnesi í samstarfi við Veðurstofuna og geislamælingar í Reykjavík í samstarfi við Geislavarnir ríkisins.

Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti þann 2. ágúst 2013 Lassina Zerbo, framkvæmdastjóra CTBTO, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá undirbúningsnefndinni.

Auðunn Atlason og Lassina Zerbo takast í hendur.

Video Gallery

View more videos