Virðing fyrir alþjóðalögum grundvöllur í samskiptum ríkja

Þann 30 september síðastliðinn hélt Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ræðu sína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hann fór yfir áherslur Íslands í utanríkismálum.

Gunnar Bragi kom víða við í ræðu sinni og fordæmdi m.a. hryðjuverk sem nýlega voru framin í Kenýa, Írak og Pakistan. Hann fordæmdi einnig beitingu efnavopna í Sýrlandi, þar sem alþjóðalög voru brotin og lagði áherslu á að þeir sem stæðu á bak við árásina yrðu dregnir til ábyrgðar hjá Alþjóðlega glæpadómstólnum. Hann sagði virðingu fyrir alþjóðalögum grundvöll samskipta ríkja og að ávallt skuli leita lausna með friðsamlegum hætti.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á þróunarmál og mikilvægi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í utanríkisstefnu Íslands. Hann sagði Ísland hafa mikið fram að færa á sviði landgræðslu, endurnýjanlegrar orku, sjálfbærra fiskveiða og kynjajafnréttis.

Gunnar Bragi lýsti ánægju sinni með friðarviðræður Ísraels og Palestínu og hrósaði John Kerry fyrir framgöngu sína í málinu. “Við verðum að virða rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunarréttar, en jafnframt rétt Ísraelsríkis til að lifa í sátt og samlyndi við nágrannaríki sín."

Í lok ræðu sinnar ræddi Gunnar Bragi um verndun hafsins og Norðurslóðir. “Við sem búum á þessum hluta jarðarinnar vitum vel hve mikilvægt það er að huga að framtíðinni. Það þarf að vernda umhverfið og þróa efnahagsleg tækifæri á svæðinu á sama tíma og þarfir íbúa Norðurslóða eru virtar."

Nánar um ræðu Gunnars Braga má sjá á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Video Gallery

View more videos