Trúnaðarbréf afhent í Slóveníu 12. febrúar sl.

Auðunn Atlason, sendiherra, afhenti 12. febrúar sl. Borut Pahor, forseta Slóveníu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Slóveníu með aðsetur í Vínarborg. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Ljubljana.

Við þetta tækifæri átti Auðunn einnig fundi með slóvenskum embættismönnum þar sem meðal annars var rætt um efnahagsmál, Evrópumál og alþjóðlegt samstarf. Slóvenía og Ísland eiga víða málefnalega samleið á alþjóðavettvangi og hafa til að mynda verið í hópi ríkja sem þrýst hafa á um auknar aðgerðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, og þess að starfa saman innan NATO, SÞ og innan vébanda EES-samstarfsins. Ísland var fyrst Vestur-Evrópuríkja til að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu í byrjun árs 1992 þegar Júgóslavía liðaðist í sundur, og hafa stjórnmálaleg samskipti ríkjanna ætíð verið góð. Slóvenar telja um 2 milljónir manna og eru því eitt af smærri aðildarríkjum Evrópusambandsins. Slóvenía gekk í ESB árið 2004 og var fyrst ríkja Mið- og Austur-Evrópu til þess að taka upp evruna árið 2007.

 

Fastanefnd Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg, og gagnvart öðrum alþjóðastofnunum í Vín, gegnir jafnframt hlutverki sendiráðs gagnvart Austurríki. Slóvenía er umdæmisríki sendiráðsins, sem og Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Bosnía-Hersegovína og Makedónía.

Video Gallery

View more videos