Trúnaðarbréf afhent í Slóvakíu 21. júlí sl.

Auðunn Atlason afhenti í gær, 21. júlí 2014 Andrej Kiska, nýjum forseta Slóvakíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni að viðstöddum slóvakískum embættismönnum og Otto Halás kjörræðismanni Íslands í Bratislava. Í samtali á eftir var meðal annars rætt um reynslu Íslands af alþjóðafjármálakreppunni, um góða samvinnu Íslands og Slóvakíu á alþjóðavettvangi og um tvíhliða samskipti. Rætt var um mögulega aukið samstarf um nýtingu jarðhita þar sem bæði ríki hafa reynslu og þekkingu. Sömuleiðis bar á góma samvinna á sviði menntamála en hátt í hundrað íslenskir námsmenn leggja nú stund á læknisfræði í bænum Martin í Slóvakíu.
Slóvakía, sem varð sjálfstætt ríki árið 1993, gekk í NATO árið 2004 og varð aðili að Evrópusambandinu sama ár. Slóvakía hefur tekið þátt í Schengen-samstarfinu frá 2007 og tók upp evruna árið 2009. Slóvakía tók hinn 1. júlí við formennsku til eins árs í Visegrad-samstarfi Slóvakíu, Tékklands, Ungverjalands og Póllands.  
Sendiráð Íslands í Vín fer með fyrirsvar gagnvart Slóvakíu og öðrum nágrannaríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga.  Sendiráðið er einnig fastanefnd gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg,  Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni og undirbúningsnefnd samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO).

Video Gallery

View more videos