Síle

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Síle þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskiptamál og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Fáni Síle

Almennt

Í Síle búa um 15,6 milljónir manna og þar af tæpar 6 milljónir í höfuðborginni Santiago. Eiga flestir ættir sínar að rekja til Spánar, en einnig fluttust margir Írar, Bretar og Þjóðverjar til landsins. Þeir, sem teljast til Indjána, eru einungis um 3% af íbúum landsins og býr meirihluti þeirra í suðurhluta Síle. Rómversk-kaþólsk trú er ráðandi og eru 89% þjóðarinnar þeirrar trúar. Skyldumenntun er í samtals 12 ár, frá sex eða sjö ára aldri og er ókeypis fyrstu 8 árin. Ólæsi er um 4%. Heilbrigðis- og félagsþjónusta er bæði á vegum ríkis og einkarekin, og er þjónusta fyrir þungaðar konur, börn undir sex ára aldri og þurfandi einstaklinga ókeypis. Er ellilaunakerfið einkarekið síðan árið 1981. Síle er lýðveldi og skiptist í 13 héruð og höfuðborgina Santiago. Framkvæmdavald er í höndum forseta og ríkisstjórnar. Forsetinn er kosinn til 6 ára, má hann einungis sitja í eitt tímabil, og fer hann með bæði titil þjóðhöfðingja, forsætisráðherra og yfirhershöfðingja. Starfar hann í samvinnu við Þjóðaröryggisráðið (Council of National Security), sem samanstendur af 8 háttsettum aðilum innan hers og stjórnarinnar, auk fulltrúa frá Hæstarétti. Er starfsskipting þeirra skráð í stjórnarskrá landsins, sem var samþykkt í september 1980 og tók gildi hinn 11. mars 1981. Þjóðþingið starfar í tveimur deildum, öldungadeild og neðri þingdeild. Öldungadeildarþingmennirnir eru 48 talsins, þar af eru 38 kosnir og 10 skipaðir, og sitja þeir í átta ár. Þingmenn í neðri deildinni eru 120 talsins og eru kosnir til fjögurra ára. Dómskerfið er óháð stjórninni og skiptist í hæstarétt, 16 héraðsdómstóla og svo dómstóla á neðri stigum. Helstu stjórnmálaflokkarnir í Síle eru Concertación de Partidos por la Democracia (CPD) og Alianza por Síle. CPD er bandalag á miðju og vinstri væng stjórnmálanna. Aðalstjórnarandstöðubandalagið er Alianza por Síle, sem samanstendur af Unión Demócrata Independiente (UDI) og Renovación Nacional (RN), og er bandalagið á hægri væng stjórnmálanna. Sveitastjórnarkosningar verða í október næstkomandi.

Stjórnmál

Ricardo Lagos Escobar (CPD) var skipaður forseti hinn 11. mars 2000 eftir að hann hlaut 51,32% atkvæða í forsetakosningunum í janúar 2000. Helsti andstæðingur hans, Joaquín Lavín Infante, sem er leiðtogi UDI-flokksins og borgarstjóri Santiago, hlaut 48,68% atkvæða. Í forkosningunum, sem voru haldnar í desember 1999, hlaut Ricardo Lagos Escobar 48,0% atkvæða, Joaquín Lavín Infante 47,5% atkvæða, Gladys Marín Millie 3,2% atkvæða, Tomás Hirsch Goldschmidt 0,5% atkvæða, Sara Larraín Ruiz-Tagie 0,4% atkvæða og Arturo Frei Bolivar einnig 0,4% atkvæða.

Síðustu þingkosningar voru í desember 2001. Var kosningaþátttakan dræm, þrátt fyrir að þátttaka sé skyldubundin, og hafa verið gerðar tillögur um endurbætur á kosningakerfinu. Höfðu síðustu kosningar áhrif á flokk Lagosar, CPD, sem hafði haft meirihluta sæta í öldungadeildinni en deilir nú sætafjöldanum, 24 - 24, með stjórnarandstöðunni, Alianza por Síle. Fækkaði sætum CPD-flokksins í neðri deildinni einnig og hafa þeir 58 sæti af 120, og stjórnarandstaðan, Allianza por Síle, 51 sæti. Kommúnistaflokkurinn hlaut engin sæti á þinginu í kosningunum. Eru 11 þingmenn óháðir (Parlamentario Independentes). Skiptist sjálfur CPD-miðflokkurinn í hægri og vinstri væng og hefur hann hallast æ meir til hægri. Virðist sem samstaðan hafi þó aukist meðal flokksmanna það sem er af árinu 2004. Mun Lagos að öllum líkindum þurfa að tileinka sér ívið meiri miðjustefnu í stjórnmálum og efla nánari samvinnu við stjórnarandstöðuna. Innan stjórnarandstöðunnar er stirt samband milli RN og UDI og eru útlit fyrir að svo verði áfram. Hafa menn áhyggjur af því að þetta muni hafa áhrif á ímynd flokksins og einnig hafa áhrif á næstu þingkosningar í desember 2005. Síðustu þingkosningar höfðu töluverð umskipti í för með sér í sætaskipan ríkisstjórnarinnar í janúar 2002, þó svo að hinn svokallaði frjálslyndi efnahagsmálahópur ráði áfram ferðinni. Í lok desember 2001 hafði Lagos gefið til kynna að í stefnuskrá hans fyrir árið 2002 yrði lögð áhersla á umbætur í heilbrigðiskerfinu og frjálsari stefnu í markaðsmálum innanlands. Hefur þróunin í alþjóðastjórnmálum og efnahagsmálum haft áhrif á upprunalegu stefnu Lagosar, frá því hann tók við völdum og til ársins 2002, í bæði stjórnmálum og efnahagsmálum. Ekki síst hafði efnahagssamdráttur í Bandaríkjunum bein áhrif, þar sem útflutningur til N-Ameríku er um 1/4 af  þjóðarframleiðslu (GDP) Síle. Óstöðugleiki á olíumarkaðinum hafði og áhrif. Efnahagsvandi Argentínu árið 2001 hafði einnig slæm áhrif, en Síle hefur efnahagsítök þar í landi, s. s. í raforkuframleiðslu. Hafa samskipti þessara tveggja landa verið með kyrrum kjörum undanfarið og er búist að svo verði áfram.  Ágreiningur hefur verið milli Síle og Bólivíu um lögsögu á hafi úti og mun það hugsanlega tefja fyrir gerð fríverslunarsamnings. Samband Síle og Perú hefur róast varðandi sama ágreiningsefni og eru áform um að efla viðskiptasamband landanna.

Í Síle er fjölmiðlamarkaðurinn stór, þar sem gefin eru út 7 dagblöð og eru um 300 útvarpsstöðvar, þrjár stórar sjónvarpsstöðvar og fjöldi einkastöðva.

Efnahagsmál

Efnahagur Síle er með þeim þróaðri í Suður-Ameríku og gegna útflutningsviðskipti stóru hlutverki, en einnig nýting náttúruauðlinda og útflutningur á þeim. Má þar helst nefna nýtingu á kopar, trjávið, járni, nítrötum og eðalsteinum, en einnig nýtingu vatnsorku. Landbúnaður ýmiss konar og fiskveiðar eru þar að auki mjög mikilvægar greinar og er úflutningur á landbúnaðarvörum og fiskafurðum töluverður. Helstu landbúnaðarafurðir Síle eru hveiti, maís, vínber, baunir, ávextir og skiptir vínframleiðsla miklu máli. Útflutningurinn er mikilvægur fyrir efnahag landsins, og var 27% af GDP árið 2002. Er mesti útflutningurinn til Bandaríkjanna en Japan er í næsta sæti þar á eftir. Innflutningur til Síle er aðallega vélar og neytendavörur ýmiss konar, og er mest flutt inn frá Argentínu.

Hægur efnahagsbati hefur verið frá árinu 2000, eftir samdráttinn árið 1999.  Traust stefna stjórnvalda í efnahagsmálum hefur þó verið ríkjandi í þrjá áratugi og hefur færst í síauknum mæli frá ríkisafskiptum. Ríkið starfrækir þó enn koparframleiðslurisann Codelco, sem er stærsti kolaframleiðandinn í heiminum, og fáein önnur fyrirtæki. Stjórnvöld Síle leggja mikla áherslu á frjáls viðskipti og áherslu á að laða til sín erlenda fjárfesta. Eru áform um að færa fjárhaginn í nútímalegra horf og nær staðli iðnvæddu OECD-ríkjanna. Aukinn sparnaður einkaaðila í Síle hjálpaði til við að knýja efnahag landsins áfram á tíunda áratugnum og hafði einkavæðing á ellilífeyriskerfinu þar góð áhrif. Atvinnuleysi hefur að jafnaði verið frekar hátt í Síle, á bilinu 8-10% seinustu árin, og býr um 21% þjóðarinnar undir fátækramörkum. Á hinn bóginn eru lífskjör orðin betri.  Verðbólga í landinu hefur ekki farið yfir 5% síðan 1998. Hefur seðlabankinn, Banco Central de Síle, sem varð óháður árið 1989, á stefnuskrá sinni að halda verðbólgustiginu milli 2% og 4%. Var verðbólgan 2,6% árið 2001 og hækkaði í 2,8% árið 2002. Var búist við 3% verðbólgu 2003, en lækkun á verðbólgu árið 2004. Erlendar skuldir Síle eru lægri en annarra Suður-Ameríkuríkja.

Efta-ríkin gerðu fríverslunarsamning við Síle í lok júní 2003. Hefur Síle einnig gert fríverslunarsamning við Kanada, Mexíkó og Mið-Ameríkuríki. Samkomulag (association agreement) við Mercosur-löndin hefur verið í gildi frá 1996. Fríverslunarsamningur við Bandaríkin tók gildi 1. janúar síðastliðinn. Stefnir Síle að þátttöku í hinum fyrirhuguðu fríverslunarsamtökum Ameríkuríkja (Free Trade Area of the Americas, FTAA) árið 2005. Vonast er til að hægt verði að gera slíkan samning við Kína, Indland og Japan í framtíðinni.

Árið 2002 var GDP í Síle 10.100.- USD á mann.  Gjaldmiðill landsins, pesóinn, eða CLP, var 689 á móti Bandaríkjadal árið 2002. Var gengi hans í desember sl. 599/1USD. 

Samskipti Íslands og Síle

Ísland hefur aðalræðismannsskrifstofu í Santiago.  Samkvæmt upplýsingum ræðismannsins Wilfred Hintze, búa um 12 Íslendingar í Síle í umdæmi hans. Meðfylgjandi er skýrlsa ræðismanns.

Í september 2002 var gerður tvíhliða samningur Íslands og Síle um stjórn fiskveiða og fiskveiðirannsóknir. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í heimsókn sinni til Síle. Unnið er að gerð loftferðasamnings á milli landanna og standa vonir til að hægt verði að ljúka honum innan tíðar. Einnig er unnið að tvísköttunarsamningi á milli ríkjanna.

Leitast hefur verið við að gera samning á milli landanna varðandi námsmannaskipti. Samkvæmt Hólmfríði Garðarsdóttur, lektor í spænsku við Háskóla Íslands, voru gerðar ítrekaðar tilraunir á síðasta ári til að koma á námsmannaskiptum, en það hefur ekki tekist enn. Á síðustu árum hafa tvær vísindarannsóknir verið unnar í samvinnu við Sílemenn, annars vegar af Júlíusi Sólnes árið 1992 og hins vegar af Gunnlaugi Björnssyni árið1998.  Rannsókn Júlíusar var gerð í sambandi við útgáfu bókar um jarðeðlisfræði og kallaðist verkefnið “Processes and Random Vibration”.  Hélt Júlíus einnig fyrirlestra við háskólann í Santiago í tengslum við þetta. Rannsókn Gunnlaugs kallaðist “Sýnilegir glampar frá uppsprettum gammablossa” á íslensku og var hún gerð m. a. í samvinnu við danska aðila í Síle.

Viðskipti Íslands og Síle

Á sama tíma og fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Síle var undirritaður í júní 2003, var undirritaður fjárfestingarsamningur milli Íslands og Síle. Tryggir sá samningur fjárfestingarrétt Íslands þar í landi, sem ekki er tryggður í fríverslunarsamningnum. Einnig hefur verið gerður landbúnaðarsamningur á milli ríkjanna. Síle er áhugaverður markaður fyrir íslensk fyrirtæki.

Grandi hf. á hluta í úgerðarfyrirtækinu Pesquera Friosur í Puerto Chacabuco í suðurhluta Síle. Á chílenska fyrirtækið Derco stærsta hlutann í fyrirtækinu. Eru afurðirnar seldar aðallega til Spánar, Ástralíu og Bandaríkjanna. Friosur hefur fengið mikla tækniráðgjöf frá starfsmönnum Granda.

Viðskiptajöfnuður Íslands við Síle er hagstæður.  Innflutningur frá Síle hefur verið sveiflukenndur. Árið 2002 var hann 163,11 millj. ISK. Hefur innflutningur verið mestur á fiskafurðum, grænmeti, ávöxtum og drykkjarvörum, en einnig gúmmívörum og ýmsum iðnaðar- og vélbúnaðarvörum.

Útflutningur til Síle jókst jafnt og þétt fram til til ársins 2001 og var 345,4 millj. ISK það ár. Fór útflutningurinn síðan minnkandi og var 208,73 millj. ISK árið 2002. Hafa helstu útflutningsvörur frá Íslandi til Síle verið spunagarn, skepnufóður, vélbúnaður og unnar málmvörur, svo eitthvað sé nefnt.Inspired by Iceland