Mexíkó

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Mexíkó þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskiptamál og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Fáni Mexíkó

Almennt

Mexíkó, eða Bandalag mexíkóskra ríkja eins og landið nefnist formlega, er sambandsríki með 31 fylki auk eins alríkissvæðis sem er höfuðborgin Mexíkóborg. Íbúar voru 103,6 milljónir árið 2003 og er íbúafjöldinn núna áætlaður rúmlega 104 milljónir. Landið er fjölmennasta spænskumælandi ríki heims og er spænska hið opinbera tungumál landsins. Að auki eru þó minnst 62 önnur tungumál töluð í landinu. Mikill meirihluti íbúanna er rómversk kaþólskur eða um 89% þjóðarinnar, þar á eftir koma mótmælendur sem eru um 6% og aðrir trúflokkar eru um 5%. Íbúar Mexíkó eiga flestir rætur sínar að rekja til innflytjenda frá Spáni og Evrópu, sem blandast hafa innfæddum ættbálkum. Landið er næst stærsta land Rómönsku Ameríku á eftir Brasilíu.

Lífskjör í Mexíkó eru bág. Um 20% landmanna búa við sára fátækt og er auðinum mjög misskipt, mest hagsæld er í norðurhluta landsins nálægt landamærunum við Bandaríkin. Menntun í Mexíkó er ókeypis fyrir alla á skólaskyldualdri, sem er frá 6 til 18 ára, en þrátt fyrir það hafa einungis rúmlega 70% íbúanna lokið grunnskólamenntun. Árið 2000 mældist ólæsi meðal 15 ára og eldri um 9,6%. Ríkisstjórn Mexíkó hefur þó verið að berjast gegn þessari þróun með ýmsum átaksverkefnum sem skilað hafa nokkrum árangri, þar á meðal með því að bæta við skólaskyldu á forskólastigi, hækkun fjárframlaga um 25% á síðasta áratug og nú er verið að færa stjórn menntamála frá alríkisstjórninni til fylkjanna í von um bættan árangur.

Meðalaldur í Mexíkó hefur hækkað á síðustu árum auk þess sem lífslíkur nýbura hafa aukist til muna. Þó er enn langt í land með að árangur teljist sambærilegar við það sem þekkist á vesturlöndum. Þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir ríkistjórnarinnar er vannæring enn vandamál í afskekktari byggðum landsins. Stjórnvöldum hefur þó tekist með bólusetningum að vinna bug á berklum, kíghósta og lömunarveiki. Hið opinbera heilbrigðiskerfi er fyrst og fremst ætlað fátækum og þeim sem greiða sérstaklega til velferðakerfisins. Flestir opinberir starfmenn eru í verkalýðsfélögum, sem sjá um sjúkratryggingu. Einkarekstur er mjög vaxandi í heilbrigðisgeiranum vegna óöruggrar þjónustu hins opinbera. Atvinnuleysisbætur eru engar og eftirlaunakerfið í höndum einkarekinna fyrirtækja.

Stjórnmál

Í Mexíkó eru framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald aðskilin og er framkvæmdavaldið, þ. e. forsetinn mjög valdamikill. Hann er kosinn í almennum kosningum til sex ára og má samkvæmt stjórnaskránni einungis sitja í eitt kjörtímabil. Forsetinn ber bæði titil þjóðhöfðingja og forsætisráðherra. Hann skipar sína eigin ríkisstjórn, yfirleitt með allt að 19 ráðherrum. Enginn varaforseti er í Mexíkó. Falli forsetinn frá eða fari frá völdum er nýr forseti skipaður af þinginu. Vicente Fox Quesada úr flokki Partido Acción Nacional (PAN) sigraði í forsetakosningunum í júlí 2000 og tók við völdum í desember sama ár. Kosningarnar eru taldar hafa verið þær óspilltustu í sögu Mexíkó enda var gott eftirlit með framkvæmd kosninganna og talningu atkvæða. Með sigri Fox lauk 71 árs samfelldri stjórn Partido Revolucionario Institucional (PRI). Fox hlaut 42,5% atkvæða, Fransisco Labastida Ochoa (PRI) 36,1%, Cuauhtémoc Cárdenas Solórzano (Alianza por México-Partido de la Revolución Democrática) 16,64% atkvæða, og aðrir frambjóðendur 4,74% atkvæða.

Þingið skiptist í öldungadeild og fulltrúadeild. Þingmenn líkt og forsetinn geta einungis setið eitt kjörtímabil í embætti. Öldungadeildin samanstendur af 128 öldungadeildarþingmönnum, 3 úr hverju fylki (96) og eru þeir kosnir í kjördæmum þar sem sá flokkur sem sigrar fær tvö sæti, en sá sem kemur næstur fær þriðja sætið. 32 öldungadeildarþingmenn eru svo kosnir hlutfallskosningu. Öldungadeildarþingmenn sitja í 6 ár og síðast var kosið til öldungadeildarinnar árið 2000. Í dag hefur PAN flokkur Fox forseta 46 þingmenn í öldungadeildinni og bandalagsflokkur hans Partido Verde Ecologista de México (PVEM) 5 þingmenn. PRI er helsti stjórnarandstöðuflokkurinn og hann hefur 60 þingsæti. Bandalag smærri flokka sem kallar sig Alianza por México hefur 17 þingmenn sem flestir koma úr röðum Partido de la Revolución Democrática (PRD), en einnig eiga Partido del Trabajo (PT) og Convergencia por la Democracia (CD) hvor sinn þingmanninn í því bandalagi. Í fulltrúadeildinni sitja 500 þingmenn, þar af eru 300 kosnir beint í einmenningskjördæmum, en 200 eru kosnir samkvæmt hlutfallskosningu í 5 stærri kjördæmum til þess að gefa smærri flokkum möguleika á þingsætum. Fulltrúardeildarþingmenn sitja í 3 ár og síðast var kosið til fulltrúadeildarinnar árið 2003. Í dag hefur PAN 151 þingsæti, PRI 224, PRD 97, PVEM 17, PT 6 og CD 5. Minni flokkar hafa verið að vaxa og áhrif þeirra að aukast á síðasta áratug í kjölfar breytinga á kosningalöggjöfinni.

Forseta Mexíkó, Vicente Fox, hefur ekki tekist að halda sig við upphaflega stefnu sína, þar sem hann hefur þurft að semja við aðra þingflokka um framkvæmd stefnunnar. Hægar efnahagsframfarir hafa einnig minnkað vinsældir forsetans. Hann hefur þó haldið sig við svipaða markaðsstefnu og fyrri ríkisstjórnir gerðu, en þar að auki lofað að einbeita sér að mannréttinda- og lýðræðismálum og bæta stöðu Mexíkó í utanríkisverslun. Nokkur stirðleiki var á milli Fox og PRI-flokksins í byrjun forsetaferils hans og var þingið tregt til að samþykkja lagatillögur forsetans óbreyttar. Þau samskipti fóru batnandi eftir 2001. Sem stendur snúast stjórnmál fyrst og fremst um það að undirbúa komandi kosningar til forseta, öldunga- og fulltrúadeildar árið 2006. Má því búast við því að engra róttækra breytinga verði að vænta uns kosningarnar eru yfirstaðnar. Í sveitarstjórnarkosningum árið 2004 styrkti PRI mjög stöðu sína og vann aftur sæti sem þeir höfðu áður tapað til PAN. Fylgi þeirra er því að aukast í aðdraganda komandi kosninga.

Dómskerfið er bæði á vegum ríkis og fylkja. Flest opinber mál fara fyrir alríkisrétt, samkvæmt stjórnarskránni. Þá ber að rétta og kveða upp dóm innan 12 mánaða frá handtöku vegna glæpa sem hafa lengri refsivist en 2 ár. Í raun er dómskerfið það óskilvirkt að það uppfyllir ekki þetta skilyrði. Flest dómsmál fara fyrir dómara en ekki kviðdóm, en réttur sakborninga er þó tryggður í lögum. Á síðustu árum hafa verið gerðar ýmsar endurbætur á dómsmálum landsins, s. s. á Hæstarétti, þar ber helst að nefna möguleika réttarins til að kveða úr um að ákveðin lög stangist á við stjórnarskrá.

Hin 32 fylki Mexíkó hafa öll þing sem kosinn eru til 3 ára í senn og ríkistjóra sem er kosinn til 6 ára. Alríkissvæðið Mexíkóborg er eina svæðið sem hefur borgarstjóra í stað ríkistjóra. Völd fylkjanna eru formlega nokkur, en í raun mjög takmörkuð. Ríkistjórar hafa þó talsverð áhrif hver í sínu fylki.

Utanríkismál

Tengsl Mexíkó við Bandaríkin eru mjög mikilvæg og vega þar viðskipti landanna mest. Fara um milljón manns löglega yfir landamæri ríkjanna á hverjum degi og býr meira en hálf milljón Bandaríkjamanna í Mexíkó. Talið er að 3000 manns fari daglega ólöglega frá Mexíkó inn til Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Mexíkó hafa verið að skoða þann möguleika að veita þessum og öðrum Mexíkönum búsettum erlendis kosningarétt. Réttindi löglegra og ólöglegra verkamann frá Mexíkó er mikilvægt mál í samskiptum Bandaríkjanna og Mexíkó. Bandaríkin hafa gælt við að veita tímabundin atvinnuleyfi til þessa hóps en það hefur en ekki komist gegnum Bandaríska þingið enn þá. Þar að auki er fjöldi bandarískra fyrirtækja starfræktur í landinu og eru Bandaríkin bæði stærsta inn- og útflutningsaðilinn. Mexíkó og Bandaríkin hafa einnig verið samstíga í utanríkismálum gegnum tíðina, en greinir þó í ýmsum atriðum, t. d. varðandi Kúbu og um afstöðuna til stríðsins í Írak. Mexíkó er hluti af fríverslunarbandalagi Norður Ameríku (NAFTA). Veitir það Mexíkó nokkuð forskot umfram önnur ríki Rómönsku Ameríku þegar kemur að viðskiptum við Bandaríkin og Kanada. Utanríkisstefna Mexíkó hefur undir núverandi ríkistjórn verið að breytast frá því að vera afskiptalítil í það að vera aðgerðasinnuð á sviði alþjóðamála. Mexíkó átti sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á árunum 2002-2003. Mexíkó tekur einnig virkan þátt í mörgum alþjóðasamtökum og fjölþjóðasamstarfi, s. s. Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna, (APEC, Asia-Pacific Economic Cooperation Forum), OECD (Mexíkó var fyrsta ríkið í Suður- og Mið-Ameríku til að ganga í samtökin) og var Mexíkó eitt af stofnríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 1996. Mexíkó var kosið í stjórn IAEA (International Atomic Energy Agency) árið 2003. Í desember árið 2004 olli Mexíkó nokkru uppnámi meðal meðlima Sambands ríkja í Ameríku (OAS), með tilnefningu Luis Ernesto Derbez til embættis framkvæmdastjóra samtakana þvert á vilja Bandaríkjanna. Mexíkó komst á síðasta ári á lista viðurkenndra ferðamannastaða Kínverja, því mun fylgja nokkur uppgangur í ferðamannaiðnaði.

Öryggis- og mannréttindamál

Mexíkó hefur um 225.000 menn undir vopnum, þar af er landherinn um 3/4 alls mannaflans. Flotinn er sjálfstæð eining og er því enginn sameiginlegur yfirmaður heraflans annar en forsetinn. Helstu hlutverk hersins eru: landvarnir, barátta gegn eiturlyfjum, borgaleg verkefni eins og vegagerð, björgunaraðgerðir og neyðarhjálp. Herinn hefur hin síðari ár háð baráttu gegn skæruliðunum Ejército Zapatista de Liberación Nacional (EZLN) í suðurhluta landsins, einkum í dreifbýli og fjarri stærri þéttbýliskjörnum. EZLN eru smá samtök og hafa ekki virst burðug til þess að stunda hryðjuverk. Það er því lítil hætta á að þau ógni pólitískum stöðugleika eða viðskiptahagsmunum. Skipulögð glæpastarfsemi er nokkur í norðurhluta landsins við landamærin að Bandaríkjunum. Að auki er nokkuð um ræktun marijúana í Guerrero- og Michoacánríkjum í suðurhluta landsins. Nokkuð er um mannrán, spillingu og ofbeldisglæpi í Mexíkó. Þó hafa útlendingar ekki sérstaklega orðið fyrir barðinu á þessu umfram aðra íbúa landsins.

Staða mannréttindamála í Mexíkó hefur verið að þróast í rétta átt. Enn eru þó málefni eins og staða götubarna og lögregluofbeldi vandamál. Ríkisstjórn Fox forseta hefur þó einsett sér að bæta ástandið. Fox hefur meðal annars leyst úr haldi umhverfisverndarsinna sem verið höfðu í fangelsi vegna pólitískra skoðana sinna frá því í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Efnahagsmál

Gengisfelling gjaldmiðils landsins, pesó, í lok ársins 1994 leiddi til slæmrar kreppu, en fjárhagur landsins hefur verið að ná sér á strik eftir það. Má það m. a. þakka aukinni neyslu landsmanna og styrkingu á pesónum. Var pesóinn 11,169 á móti Bandaríkjadal í febrúar 2005. Er efnahagurinn í Mexíkó mjög háður efnahag Bandaríkjanna og eru viðskipti við Bandaríkin, og þá helst útflutningur, ein af aðalstoðum hans. Hafa rúm 80% af útflutningi Mexíkó farið til Bandaríkjanna síðustu ár. Er þar mest um að ræða olíu, bíla og rafeindabúnað. Mikil innri viðskipti (intra-company trade) eru á milli fyrirtækja landanna. Eru bæði löndin aðilar að Fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku (NAFTA), ásamt Kanada, og hefur Mexíkó gert fríverslunarsamninga við ótal önnur ríki, s. s. Evrópusambandið og EFTA, svo eitthvað sé nefnt. Tekur Mexíkó virkan þátt í störfum WTO. Má einnig nefna, að viðskiptadeilur, sem koma upp á milli Mexíkó og Bandaríkjanna, eru oftast leystar innan WTO eða NAFTA og hafa ágreiningsefni oftast verið um vöruflutninga og landbúnaðarvörur. Eru stjórnvöld Mexíkó og mörg fyrirtæki þar í landi hlynnt hugmyndum Bandaríkjastjórnar um Fríverslunarbandalag Ameríkuríkja (Free Trade Association of the Americas).

Landbúnaður er ekki áhrifamikill í efnahagslífi Mexíkó og hefur einungis verið um 5% af GDP. Helsta landbúnaðarafurðin er maís, en einnig aðrar kornafurðir og baunir ýmiss konar, kaffi, bómull og tóbak, svo eitthvað sé nefnt. Þurrkar eru algengir og jarðvegur víða lélegur, og hefur það áhrif á landbúnaðarframleiðsluna. Hafa stjórnvöld landsins hvatt til frekari nútímavæðingar í landbúnaði, og er PROCAMPO-áætlunin, sem er stuðningsverkefni fyrir bændur, hluti af þeirri stefnu.

Mexíkó var fimmta stærsta olíuframleiðslulandið í heiminum árið 2000. Olíurisinn Pemex, sem er ríkisrekið fyrirtæki, einokar framleiðsluna samkvæmt lögum. Hefur rekstur þess verið gagnrýndur harðlega og fyrirtækið verið bendlað við spillingu. Aðrar náttúruauðlindir í landinu eru jarðgas, kol og ýmsir málmar s. s. gull og silfur. Tekjur Mexíkó vegna olíusölu hafa vaxið umtalsvert upp á síðkastið vegna hækkandi verðs olíu á heimsmarkaði.

Iðnaðarframleiðsla hefur verið um 30% af GDP, einkanlega vélar ýmiss konar, en einnig er hráefnisframleiðsla mikilvæg. Hráefni og vélahlutir eru fluttir til Mexíkó frá Bandaríkjunum, settir þar saman og fluttir aftur til baka sem fullgerðar iðnaðarvörur. Þar að auki er Mexíkó eitt fremsta bifvélaframleiðsluland í heiminum. Vöxtur iðnaðarframleiðslu minnkaði lítillega á síðasta ári, fjarskipta- og samgönguiðnaður voru þó helstu vaxtarbroddarnir. Þess má geta að Mexíkó hóf að einkavæða rekstur flugvalla árið 1998 og hefur hvatt erlend fyrirtæki til þátttöku í þeim rekstri.

Erlend fjárfesting er með mesta móti í Mexíkó, miðað við önnur lönd í Mið- og Suður-Ameríku, og eru öll stærstu fyrirtæki heims með starfsemi í landinu. Atvinnuleysi í Mexíkó mælist tæp 4% og hefur það verið að aukast meðal kvenna en minnka meðal karla. Helsta ástæða þess er samkeppni frá vefnaðarvöruiðnaði í Asíu. Verðbólga var um 5% á árinu 2004, þrátt fyrir að seðlabanki landsins hafði sett sér það markmið að halda verðbólgunni í kringum 3%.

Samskipti íslands og Mexíkó

Ólafur Jóhann Proppé var viðurkenndur sem kjörræðismaður Mexíkó í Reykjavík árið 1922. Áætlanir um að koma formlega á fót stjórnmálasambandi milli Íslands og Mexíkó höfðu verið frá lokum sjötta áratugarins, en formlegt stjórnmálasamband komst ekki á fyrr en þann 13. maí árið 1964, er Thor Thors sendiherra afhenti forseta Mexíkó, Adolfo Lopez Mateos, trúnaðarbréf sitt. Sendiráð Íslands í Washington D.C. hefur annast samskiptin við Mexíkó, en sendiráð Mexíkó í Ósló hefur annast samskiptin við Ísland. Ekki hefur unnist tími til þess að Helgi Ágústsson sendiherra í Washington geti afhent trúnaðarbréf sitt í Mexíkó, en vonir standa þó til að af því megi verða innan tíðar.

Ísland hefur aðalræðisskrifstofu í Mexíkóborg, en einnig eru ræðisskrifstofur í Campeche og Guyamas. Samkvæmt upplýsingum aðalræðismannsins í Mexíkóborg, Eduardo Rihan, búa um 17 Íslendingar í Mexíkó, þar af 7 í Mexíkóborg og 10 við Kyrrahafsströndina. Áhugi er fyrir hendi á að skapa ný samvinnuverkefni með Íslendingum og töluverður áhugi á Íslandi og íslenskum fyrirtækjum. Býður ræðismaður fram þjónustu sína og segir jafnframt þörf vera á upplýsingaefni á spænsku um Ísland og íslensk fyrirtæki til dreifingar í Mexíkó. Upplýsir ræðismaðurinn að tvö íslensk sjávarfyrirtæki séu með starfsemi á Kyrrahafsströndinni.

Samkvæmt ræðismanninum í Campeche, Rafael Ruiz Moreno, eru engir Íslendingar búsettir á hans umsjónarsvæði. Hann segir þó mikla viðskiptamöguleika, einkanlega á sviði nýtingar nýrra fiskistofna og fiskiræktar, veiðarfæra og vinnslutækja. Stjórnvöld í Mexíkó leggja mikla áherslu á að styðja þessar greinar atvinnulífsins. Leggur ræðismaður til að komið verði á fundi embættismanna frá sjávarútvegsráðuneytum landanna, einkanlega með það í huga, að alríkisstjórnin og fylkisstjórnin í Tamaulipas hafa sett af stað áætlun um að endurnýja sjávarútveg í Mexíkóflóa. Hann hefur áhuga á því að efla tengsl landanna í menningarmálum og ferðamennsku í Campeche og Yucatan. Mun ferðamálaráðherra Yucatan hafa verið í samband við íslensk stjórnvöld.

Í bréfi frá sendiráði Mexíkó í Danmörku til utanríkisráðherra, dags. 5. janúar 2004, kemur fram, að stjórnvöld í Mexíkó hafi mikinn áhuga að efla tengsl landanna. Var bréfið sent eftir fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og sendiherra Mexíkó í Danmörku, Hectors Vasconcelos Cruz, sem átti sér stað skömmu áður. Forseti Íslands heimsótti Mexíkóborg í apríl í einkaerindum og átti m. a. fund með Fox forseta.

Viðræður eru í gangi á milli landanna um loftferðarsamning og fjárfestingarsamning.

Hvað varðar námsmannaskipti, er Háskóli Íslands ekki með fastan samning við háskóla í Mexíkó enn sem komið er, en verið er að reyna að ná samningi við UNAM-háskólann í Mexíkóborg. Þrátt fyrir það hafa íslenskir nemendur farið til Mexíkó til eins árs dvalar, og þá sem óformlegir gestanemar.

Í sambandi við útgáfu bókar um jarðfræði, sem nefnist "Processes and Random Vibration", tók Júlíus Sólnes þátt í rannsóknarvinnu og hélt fyrirlestra við Ríkisháskólann í Mexíkóborg veturinn 1991-1992. Ellen Gunnarsdóttir sagnfræðingur vann verkefni árið 1999, sem hún nefndi "The Holy Women of Baroque Mexico", og sýnir verkefnið mikilvægt hlutverk kvenna í trúarlífi allra þjóðfélagshópa á nýlenduskeiðinu í Mexíkó.

Spænsk/rómanska menningarfélagið á Íslandi (Asociación Cultural Hispánica) stóð fyrir málþingi um mexíkanskar bókmenntir, bæði bókmenntasögu og samtímabókmenntir, 24. maí 2003.

Samkvæmt upplýsingum Björgvins Gestssonar hjá SIF hefur fyrirtækið staðið fyrir saltfisksútflutningi til Mexíkó í ein 4-5 ár og hefur þeim verið sinnt frá SIF Canada. Hafa þessi viðskipti farið stöðugt vaxandi og er þar um að ræða viðskipti við heildsala á neytendapakkningum, sem seldar eru í stórverslunum, s. s. Wal Mart, Soriana og Gigante. Viðskiptin hafa numið um 3-3,5 milljón Bandaríkjadala.

Fríverslunarsamningur var gerður milli EFTA-ríkjanna og Mexíkó í nóvember 2000 og tók gildi í júlí 2001. Hægt er að lesa nánar um samningsákvæði á heimasíðu utanríkisráðuneytisins á eftirfarandi vefslóðum:

http://www.utn.stjr.is/samningar/friverslunarsamningar

http://www.utn.stjr.is/samningar/friverslunarsamningar/Undir/nr/383

Viðskiptajöfnuður við Mexíkó hefur verið óhagstæður undanfarin ár. Bæði inn- og útflutningur minnkuðu á árinu 2002 og 2003, útflutningur jókst þó lítillega aftur árið 2004. Fór innflutningurinn úr 231,7 milljónir ISK árið 2001 í 181,1 milljónir ISK árið 2002 og niður í 161,62 milljónir árið 2003. Er aðallega um að ræða innflutning á drykkjarvörum, jarðefnavörum, húsgögnum, iðnaðarvörum og kaffi.

Árið 2003 fór útflutningur til Mexíkó niður í 8.661.392 en jókst aftur á síðasta ári í 23.867.767. Er þar mest um að ræða dýrafeiti, dýraolíur, garn og vefnaðarvöru.

Á þessari vef Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins - VUR eru töflur um viðskipti landanna og upplýsingar um inn- og útflutning eftir vörudeildum árið 2003:

http://vur.is/files/Mexico 2003.pdf

 

 Inspired by Iceland