Gvatemala

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Gvatemala, þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskiptamál og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Fáni Guatemala

Almennt

Gvatemala öðlaðist sjálfstæði frá Spáni árið 1821, en tilheyrði tímabundið Mexíkó og var síðan tímabundið í bandalagi, sem nefndist "United Provinces of Central America". Frá þeim tíma sem landið öðlaðist sjálfstæði og til ársins 1944 var landið nær eingöngu undir einræðisstjórn. Var gerð tilraun til að koma lýðræði og nútímaháttum á í landinu í valdatíð José Arévalo og Jacobo Arbenz, á árunum 1944 til 1954. Var mikil andstaða gegn þessari þróun af hálfu valdamikilla landeigenda. Var Arbenz steypt af stóli í valdaráni með stuðningi Bandaríkjastjórnar. Mestallan síðari hluta tuttugustu aldarinnar var landið ýmist undir herstjórn eða einræðisstjórn og voru valdarán tíð. Skæruliðar börðust gegn stjórninni allt frá fjórða áratug og samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar (Truth Commission), sem kom út í febrúar 1999, áttu sér stað um 42 þúsund mannréttindabrot á þessum tíma. Talið er að 200 þúsund Maya-indíánar hafi þá verið drepnir.

Það var ekki fyrr en árið 1996 að ófriðnum lauk, er nýr forseti tók við stjórnartaumunum, Alvaro Arzú, sem undirritaði friðarsamkomulag við skæruliða sama ár. Var samkomulaginu komið á fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna á milli stjórnarflokksins PAN (Partido de Avanzade Nacional) og skæruliðahreyfingarinnar URNG (Unidad Revolucionaria Nacional Guatemalteca). URNG var myndað árið 1982, þegar þrír skæruliðahópar sameinuðust. Þrátt fyrir friðarsamkomulagið eru mannréttindabrot, spilling, svo og skipulögð glæpastarfsemi (bankarán, mansal, peningaþvottur o. fl.) ennþá algeng og endurbætur á lögum landsins, í samræmi við friðartillögur, hafa ekki enn verið undirritaðar af yfirvöldum. Íbúar landsins eru um 13,9 milljónir talsins og er meira en helmingur þeirra afkomendur Maya-indíána. Þeir samanstanda af 22 mismunandi hópum og eru margir þeirra með eigið tungumál og trúarbrögð. Fátækt er gífurleg í landinu, þar sem að 80% þjóðarinnar lifir við örbirgð og eru skil milli fátækra og ríkra einnig mikil. Trúfrelsi ríkir í Gvatemala samkvæmt stjórnarskránni, og er rómversk kaþólsk trú ríkjandi. Önnur trúarbrögð eru mótmælendatrú og ýmis Maya-trúarbrögð. Höfuðborg Gvatemala er Guatemala City og eru fólksflutningar frá sveitum til borga landsins sífellt að aukast. Menntunarástand er afar lélegt og er ólæsi með mesta móti í Gvatemala, eða um 45%, mest í sveitum. Skyldunám er í 6 ár og hafa stjórnvöld reynt að draga úr miðstýringu menntunarmála, en einnig heilbrigðismála. Fjárframlög hins opinberra til þessara málefna hafa ekki verið næg og er staða þeirra með þeim verstu í þessum heimshluta. Atvinnuleysi hefur verið milli 7 til 8%.

Gvatemala er lýðveldi og skiptist í 22 héruð, sem eru undir stjórn ríkisstjóra. Frá því að ný stjórnarskrá tók gildi árið 1986 hefur framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvald verið aðskilin. Forsetinn og varaforsetinn eru kosnir í beinum kosningum og mega sitja í eitt tímabil. Forsetinn, sem er bæði þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og yfirhershöfðingi, er kosinn til 4 ára og skipar sína eigin ríkisstjórn. Má varaforsetinn bjóða sig fram til forseta 4 árum eftir að hann hefur lokið störfum. Löggjafarþingið, sem starfar í einni málstofu, samanstendur af 158 meðlimum sem kosnir eru í beinum kosningum. Helstu stjórnmálaflokkar Gvatemala eru Gran Alianza Nacional (GANA), sem hefur meirihluta á þingi, Frente Republicano Guatemalteco (FRG), Unidad Nacional de la Esperanza (UNE), Partido de Avanzade Nacional (PAN) og Partido Unionista (PU).

Stjórnmál

Forsetakosningar og þingkosningar fóru fram 9. nóvember á síðasta ári. Síðari umferð forsetakosninganna var þ. 28. desember þar á eftir. Í seinni umferðinni í forsetakosningunum sigraði Óscar Berger Perdomo (GANA) og hlaut hann 54,1% atkvæða á móti Álvaro Colom Caballeros (UNE), sem hlaut 45,9% atkvæða. Aðrir frambjóðendur í fyrri umferðinni voru: Effraín Ríos Montt (stofnandi FRG), sem braust til valda í landinu á níunda áratugnum, en hans forsetatíð var sú blóðugasta í skæruliðastríðinu, Leonel Lopez Rodas (PAN), Fritz García-G (PU), Rodrigo Asturais (URNG), Eduardo Sager (DIA), José Angel Lee (DSP) og Jacobo Arbenz (DCG). Hvað varðar sætaskipan á þinginu, er GANA með 49 sæti, FRG með 41, UNE með 33, PAN með 17, PU með 7, ANN (Alianza Nueva Nación) með 7, URNG með 2 og aðrir með 5 sæti.

Eins og áður sagði hefur landið mátt þola harðindi á hinum ýmsu sviðum. Hafði stjórn Alfonso Portillo Cabrera (PRG), sem lét af völdum eftir kosningarnar í fyrra, reynt að stemma stigu við vandamálunum. Árangur náðist í viðræðum um fríverslunarsamninga við Mexíkó, El Salvador og Hondúras, sem tóku gildi árið 2001. Einnig voru hermál landsins endurskipulögð. Þar á móti mistókst stjórn Portillos að betrumbæta dómskerfi landsins, þar sem spilling hefur verið tíð, sem og innan stjórnarinnar. Þar að auki fóru samskipti Gvatemala og Bandaríkjanna versnandi sakir spillingar og peningaþvotts, ásamt því að stjórn landsins gerði viðræður um Fríverslunarbandalag Mið-Ameríkuríkja (Central American Free-Trade Agreement, CAFTA) erfiða viðfangs. Einnig hefur efnahagur landsins verið lélegur og bilið á milli fátækra og ríkra verið gífurlegt. Þrátt fyrir þetta stóð ríkið í skilum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), en var aftur á móti enn á svörtum lista hjá OECD vegna peningaþvotts. Fóru vinsældir Portillos og stjórnar hans sífellt minnkandi. Hin nýja stjórn Perdomos, sem tók við 14. janúar á þessu ári, mun þurfa að takast á við að auka ríkistekjur, semja um frekari aðstoð frá erlendum styrktaraðilum, betrumbæta viðskiptastjórnunina, bæði hjá hinu opinbera, einkareknum stofnunum og fyrirtækjum, svo og minnka óhagstæðan viðskiptajöfnuð.

Gvatemala hefur átt í útistöðum við Belize um landamæri. Var það ekki fyrr en á tíunda áratugnum, sem Gvatemala viðurkenndi sjálfstæði Belize undan yfirráðum Bretlands, en enn hafa ekki náðst fullkomnar sættir hvað landamærin varðar. Hafa Samtök Ameríkuríkja (Organisation of American States, OAS) reynt að miðla málum í þessari deilu. Þar að auki hefur verið spenna á landamærum milli Gvatemala og Mexíkó eftir að Mexíkó jók herafla og lögreglueftirlit við landamærin.

Efnahagsmál

Hagkerfi Gvatemala, sem er það stærsta í Mið-Ameríku, varð fyrir áföllum líkt og hagkerfi margra annarra landa árið 2001 þegar efnahagssamdráttur varð í heiminum. Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september höfðu einnig áhrif. Frjáls markaðsstefna hefur smám saman aukist í landinu og í dag leggur einkarekstur til 85% af vergri þjóðarframleiðslu og hefur hið opinbera lítil afskipti af viðskiptalífinu. Landbúnaður, mikilvægasta atvinnugreinin í Gvatemala, er um 23% af vergri þjóðarframleiðslu, en landbúnaðarvörur eru 75% af útflutningi landsins. Er þar helst um að ræða kaffi, sykur og banana. Aðrar landbúnaðarafurðir eru kardimomma, grænmeti, hrísgrjón, timbur og gúmmí. Seinustu árin hefur ferðaiðnaður og útflutningur á vefnaðarvörum aukist.

Mestu viðskiptin á Gvatemala við Bandaríkin, og er inn- og útflutningurinn um 30% af heildarviðskiptum landsins. Innflutningur frá Bandaríkjunum nemur 36% af heildarinnflutningi, og 30% af útflutningi Gvatemala fer til Bandaríkjanna. Samkomulag náðist um Fríverslunarbandalag Mið-Ameríkuríkja, CAFTA (Central American Free Trade Agreement) milli Gvatemala, Níkaragúa, El Salvador og Hondúras annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar um miðjan desember 2003. Þar að auki hefur Gvatemala fengið aðstoð frá Bandaríkjunum í gegnum USAID (U.S. Agency for International Development) frá því að friðarsamningar við skæruliða náðust árið 1996. Erlend fjárfesting hefur verið minni í Gvatemala en í öðrum Mið- og Suður-Ameríkuríkjum sakir spillingar í landinu.

Verðbólga jókst milli áranna 2001 og 2002 og varð 8,1%. Þjóðarframleiðsla á mann var 4.824 Bandaríkjadalir árið 2002, en eins og fyrr sagði eru skil milli fátækra og ríkra afar mikil í Gvatemala. Atvinnuleysi í Gvatemala hefur þó farið minnkandi og var 4,0% árið 2001.

Samskipti Íslands og Gvatemala

Ísland hefur ræðismannsskrifstofu í Guatemala City. Ræðismaðurinn er Rodrigo Montufar. Samkvæmt upplýsingum hans er aðeins vitað um einn Íslending, sem búsettur er í Gvatemala. Ræðismaðurinn er áhugasamur um að kynna Ísland og hélt hann fyrirlestur á ráðstefnu um Ísland í háskólanum Rafael Landivar í borginni Quetzaltenango í lok febrúar síðastliðinn. Samkvæmt ræðismanninum var ráðstefnan vel heppnuð og áhugaverð. Quetzaltenango hefur miklar jarðhitaauðlindir, og yfirvöld þar í borg hafa áhuga á samstarfi við Ísland hvað varðar þekkingu á nýtingu jarðhita, en einnig varðandi umhverfisverndarmál í landbúnaðarframleiðslu. Hefur Rodrigo Montufar einnig haldið fyrirlestra í Rótaríklúbbum um Ísland. Telur hann góða samvinnumöguleika milli landanna á sviði fiskveiða, ferðamannaiðnaðar, tölvutækni, byggingarverkfræði, orkuvera o.fl. Vill hann vekja athygli á alþjóðlegu kaupstefnunni "International Fair of Guatemala" á næsta ári. Ræðismaðurinn hefur einnig áhuga á að kynna íslenska tónlist og leiklist í menningarmiðstöðvum landsins, auk þess að koma á háskólasamvinnu milli landanna.

Viðskipti Íslands og Gvatemala

Enginn útflutningur er frá Íslandi til Gvatemala. Var síðast flutt út fyrir um 200 þúsund íslenskra króna árið 1993. Innflutningur frá Gvatemala hefur verið sveiflukenndur og 9,12 milljóna króna virði árið 2002, en fór niður í 8,2 milljónir króna árið 2003. Var þar helst um að ræða kaffi, kakó, te, krydd, grænmeti og ávexti.Inspired by Iceland