El Salvador

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um El Salvador þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Fáni El Salvador

Almennt

El Salvador hlaut sjálfstæði frá Spáni árið 1821, en tilheyrði síðar sambandi sem nefndist "the United Provinces of Central America" fram til ársins 1838. Eins og algengt er í sögu Mið- og Suður-Ameríku voru tíðar byltingar í El Salvador. Borgarastríð var á árunum 1980 til 1992, er skæruliðahópurinn FMLN (Frente Farabundo Martí para la Liberación Nacional) gerði uppreisn gegn stjórn landsins, sem var hægri stjórn og studd af Bandaríkjastjórn. Friðarviðræður hófust 1989 og komst formlegt vopnahlé á árið 1992 með aðstoð Sameinuðu þjóðanna. Um 75 þúsund manns týndu lífinu í því stríði. Íbúar El Salvador eru um 6,4 milljón talsins og nefnist höfuðborgin San Salvador. Býr um 42% íbúa á landsbyggðinni. Er meirihluti íbúa landsins, eða rúm 90%, s.k. mestísar, þ.e. blandaðir afkomendur Evrópubúa og Indíána, en flestallar hinna fornu Indíánahefða hafa fallið í gleymskunnar dá. Um 70% landsmanna aðhyllast kaþólska trú og er fylgi mótmælendatrúar stöðugt að aukast. Staða menntunarmála í landinu er slæm og ólæsi mikið, þrátt fyrir að grunnskólamenntun sé ókeypis. Um helmingur íbúa lifir undir fátækramörkum og um 20% við gífurlega örbirgð. Rannsókn, sem gerð var árið 1997 sýndi fram á að El Salvador væri með hæstu morðtíðni heims á þeim tíma, en glæpatíðni hefur aukist síðan þá. Atvinnuleysi er hátt og var um 7,5% árið 2001. Margir íbúar El Salvador lifa á peningasendingum frá ættingjum, sem búa erlendis. Heilbrigðiskerfinu var breytt árið 1998 með nýjum lögum og er að hluta til einkarekið. Félagslega kerfi El Salvador gefur íbúum landsins rétt á bótum vegna vinnuslysa, rétt á veikindafríi og einnig fæðingarorlofi. El Salvador er lýðveldi og skiptist landið í 14 sýslur (departamentos), sem lúta eigin landstjóra og eigin sveitastjórn. Eftir að stjórnarskrá landsins var breytt árið 1983, byggir stjórnarfar landsins á þrískiptu ríkisvaldi. Forsetinn fer með framkvæmdarvaldið og er hann kosinn til 5 ára í senn og má einungis sitja sem forseti í eitt tímabil. Forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og forsætisráðherra og nýtur hann aðstoðar varaforseta og ríkisstjórnar. Löggjafarvald er í höndum þings, sem starfar í einni deild. Þingmenn eru 84 talsins og eru kosnir til þriggja ára. Hefur þingið rétt á að skipa forseta landsins ef að enginn frambjóðandi fær meirihluta atkvæða. Dómskerfið er sjálfstætt og voru gerðar endurbætur á því árið 1993. Nokkrir af helstu stjórnmálaflokkum landsins eru FMLN, ARENA (Alianza Republicana Nacionalista), PCN (Partido de Conciliación Nacional), PDC (Partido Demócrata Cristiano), CDU (Centro Democratico Unido), PMR (Movimiento Renovador) og PPR (Partido Popular Republicano).

Stjórnmál

Síðustu þingkosningar í El Salvador voru í mars 2003 og luku með sigri FMLN. Skipting sæta á þingi El Salvadors urðu þá eins og hér segir: FMLN 31 sæti, ARENA 27 sæti, PCN 16 sæti, PDC 5 sæti og CDU 5 sæti. FMLN, sem er fyrrum skæruliðahópur, varð viðurkenndur sem stjórnmálaflokkur árið 1994, eftir að friðarsamkomulag komst á árið 1992. FMLN er á vinstri væng stjórnmálanna. Flokkurinn ARENA, sem er á hægri væng stjórnmálanna, hafði verið í meirihluta á þingi frá 1989, en fór að missa fylgi í lok tíunda áratugarins. Hafði ARENA verið í bandalagi með PCN flokknum, en sá flokkur yfirgaf bandalagið um mitt árið 2003. Er nú hvorki FMLN né ARENA í meirihluta á þinginu og verður samsteypustjórn, þ. e. milli flokkanna FMLN, ARENA, PCN, PDC og CDU, við völd þar til nýjar kosningar verða árið 2006. Francisco Flores (ARENA) var kosinn forseti landsins 1999 og hét hann því m. a. að opna greiðari leið fyrir El Salvador á alþjóðamarkaði og minnka glæpi í landinu. Varð raunin önnur og vinsældir ARENA og Flores fóru minnkandi. Ný efnahagsstefna gekk í gildi í janúar 2001, sem takmarkaði frjálsa markaðsstefnu. Létu stjórnvöld landsins fjárhagsleg völd í hendur seðlabanka Bandaríkjanna, er Bandaríkjadollari varð að gjaldeyrir El Salvadors. Sú ákvörðun varð til þess að vextir lækkuðu og verðbólga fór minnkandi.

Síðustu forsetakosningar í El Salvador voru í mars á þessu ári. Forsetaframbjóðendur og úrslit voru eftirfarandi: Antonio Elías "Tony" Saca (ARENA) hlaut 57,7% atkvæða, Schafik Jorge Handal (FMLN) hlaut 35,6% atkvæða, Héctor Silva Argüello (CDU/PDC) hlaut 3,9% atkvæða og José Rafael Machuca Zelaya (PCN) hlaut 2,7% atkvæða. Antonio Saca er úr röð miðstéttar El Salvadors, en hefur sterk ítök í viðskiptaheiminum þar í landi. Áherslur Saca í kosningarbaráttunni voru að öryggismál í landinu yrðu undir stjórn forsetans, að barist yrði gegn kommúnisma og frjáls markaðsstefna innleidd. Handal lagði hins vegar áherslu á að staða fátækra í landinu yrði bætt, bæta tengslin við Kúbu og að herlið landsins yrði dregið til baka úr stríðinu í Írak. Nýtti Saca sér sögu FMLN og borgarastríðsins í kosningabaráttunni og hélt því fram að landið ætti ekki bjarta framtíð fyrir sér ef FMLN kæmist til valda.

Efnahagsmál

Miklir erfiðleikar hafa hrjáð El Salvador eftir mannskæðan jarðskjálfta, sem átti sér stað í janúar 2001 og sem var 7,6 á Richter. Um 1500 manns létu lífið og rúm milljón manns slösuðust. Mánuði seinna varð annar jarðskjálfti, 6,6 á Richter, sem jafnaði nærrum því þrjár borgir við jörðu. Misstu rúm milljón manns heimili sín. Vatns- og hreinlætisaðstaða, sem var í slæmu ástandi fyrir hörmungarnar, varð enn verri og leiddi til þess að sjúkdómar s. s. malaría, breiddust hratt út. Mörg börn hættu skólagöngu til að aðstoða heima fyrir og glæpatíðni jókst mikið eftir náttúruhamfarirnar. Efnahagur El Salvadors hafði beðið hnekki stuttu áður, eða árið 1998 er fellibylurinn Mitch reið yfir landið. Þessir atburðir, svo og slæm efnahagsstaða á alheimsvísu árið 2001 er jarðskjálftarnir áttu sér stað, veiktu efnahag El Salvadors enn frekar. Má einnig nefna að El Salvador er með lélegt skattakerfi og hátt frítekjumark, sem skilar ekki miklu í þjóðarbúið.

Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein í El Salvador þó mikilvægi hans hafi farið ögn minnkandi síðustu ár, með tilkomu aukinnar áherslu á viðskiptalíf borga þar í landi. Hefur landbúnaður verið um 12% af vergri þjóðarframleiðslu. Helstu landbúnaðarafurðir El Salvadors eru kaffi, sykur, ávextir, maís, baunir, pappír og bómull. Aðrar viðskiptavörur eru t.d. sjávarafurðir, vefnaðarvörur og lyf. Er útflutningur á kaffi um 60% af heildarútflutningi landsins, en útflutningur á rækjum, hnetum, ávöxtum og hunangi hefur aukist. Iðnaður er um 28% af vergri þjóðarframleiðslu og er algengt að ýmsir vöru- og vélahlutir séu sendir til El Salvadors til samsetningar og sendir svo aftur til upprunalandsins, s. k. "maquila". Eru maquila-viðskipti meira en helmingur af útflutningi El Salvadors og eru þau mest við Bandaríkin. Útflutningur til Bandaríkjanna er um 2/3 af heildarútflutningi landsins. Rafmagn í El Salvador er fengið frá fjórum vatnsorkuverum og einni jarðvarmastöð og er eitthvað selt af rafmagni til annarra landa. Mikið hefur verið höggvið af trjám í hitabeltisskógum í El Salvador og er einungis um 1,5% eftir af hitabeltisskóglendinu. Námuvinnsla er lítil, eða um 0,1 af vergri þjóðarframleiðslu, og er þar aðallega um að ræða gull, silfur og kalkstein. Engar nýtilegar olíubirgðir eru í El Salvador.

Verg þjóðarframleiðsla á mann í El Salvador var 2.272 Bandaríkjadalir árið 2003. Verðbólga sama ár var að meðaltali 2,1%. El Salvador, ásamt löndunum Gvatemala, Níkaragúa og Hondúras, gerðu fríverslunarsamkomulag (Central American Free Trade Agreement, CAFTA) við Bandaríkin í desember 2003 eftir eins árs viðræður.

Samskipti Íslands og El Salvador

Ísland hefur ræðisskrifstofu í höfuðborg landsins, San Salvador og er Augda Beatriz Zarco de Sveinsson ræðismaður þar.

Viðskipti Íslands og El Salvador

Viðskiptajöfnuður Íslands við El Salvador er óhagstæður þar sem að útflutningur frá Íslandi er enginn. Innflutningur frá El Salvador hefur verið lítill, miðað við innflutning frá öðrum löndum í Mið- og Suður-Ameríku, og var hann um 750 þúsund íslenskra króna árið 2002, en fór í um 600 þúsund íslenskra króna árið 2003. Mestur innflutningur hefur verið á kaffi, kakó, te, kryddi og húsgögnum.Inspired by Iceland