Brasilía

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Brasilíu þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Fáni Brasilía

Almennt

Formlegt heiti landsins er Sambandslýðveldið Brasilía. Sambandslýðveldið skiptist í 26 fylki og eitt alríkissvæði, sem er höfuðborgin Brasilía. Landið var undir stjórn Portúgals í þrjár aldir, en hlaut sjálfstæði árið 1822. Íbúar landsins eru um 180 milljónir og er það því fjölmennasta land Suður-Ameríku. Brasilía er einnig landfræðilega stærsta ríkið í sínum heimshluta. Meirihluti íbúanna býr í þéttbýli, eða sem svarar til um 80%. Íbúar landsins eru af ýmsum uppruna, þó einkum portúgölskum, afrískum og frá ýmsum Evrópulöndum. Brasilía er eina portúgölskumælandi landið í álfunni. Trúfrelsi ríkir í Brasilíu, rómversk-kaþólsk trú er þó algengust í landinu, um 80% íbúanna eru kaþólikkar. Brasilía er þar af leiðandi fjölmennasta kaþólska ríkið í heiminum. Fátækt er mikil í Brasilíu og búa nær 60% íbúa við mikla örbirgð. Landið hefur átt við mörg slæm félagsleg vandamál að stríða, s. s. atvinnuleysi, sem var 10,9% árið 2003. Skyldunám er frá 7 ára til 14 ára aldurs og er menntun ókeypis. Þrátt fyrir það er um einn fjórði Brasilíubúa án skólagöngu. Ónóg fjárframlög til menntunarmála er aðalorsök þess, en einnig stafar það af ójöfnum framlögum til menntamála eftir landshlutum. Þess ber þó að geta að Brasilía hefur mjög gott háskólakerfi sem býðst nemendum að kostnaðarlausu. Margir úr efri stéttum sækja þó frekar einkarekna háskóla. Heilbrigðismál eru í höndum stofnunarinnar INAMPS (Instituto Nacional de Previdência Médica da Previdência Social) sem er opinber stofnun. Ónógt fjármagn er til staðar til að anna sívaxandi álagi á heilbrigðis- og félagsþjónustu í landinu. Heilbrigðiskerfið er þekkt fyrir að vera afkastalítið og óöruggt.

Stjórnmál

Framkvæmdavaldið er í höndum forsetans, sem hefur bæði titil þjóðhöfðingja og forsætisráðherra. Hann er kosinn til 4 ára og má einungis sitja í tvö kjörtímabil. Hann skipar ríkisstjórn, ásamt því að skipa ýmsa aðra embættismenn. Löggjafarvald er í höndum þingsins, en það starfar í tveimur deildum. Öldungadeildin hefur 81 þingmann, sem kosnir eru til 8 ára í senn. Fulltrúadeildin hefur 513 þingmenn, sem kosnir eru til 4 ára. Í Hæstarétti sitja 11 dómarar skipaðir af forseta með samþykki þingsins, þeir sitja ævilangt í embætti. Í Brasilíu er einnig æðri herdómstóll með 15 dómurum

Helstu stjórnmálaflokkar í Brasilíu eru: Partido dos Trabalhadores (PT), Partido da Frente Liberal (PFL), Partido do Movimento Democrático Brasileiro (PMDB), Partido da Social Democracia Brasileira (PSDB), Partido Progressista Brasileiro (PPB), Partido Liberal (PL) og Partido Trabalhadores Brasileiro (PTB). Einnig er starfandi fjöldi smáflokka. Helstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru PFL, sem er íhaldsflokkur, og PSDB sem er sósíal-demókrataflokkur

Síðustu forseta- og þingkosningar í Brasilíu voru haldnar í október 2002. Að þeim loknum lét Henrique Cardoso (PSDB) af embætti forseta, en hann hafði setið tvö kjörtímabil, þ.e. frá árinu 1995. Sem forsætisráðherra og síðar forseti stuðlaði Cardoso að frjálsri markaðsstefnu sem kallaðist "Plan Real". Þá var m. a. nýjum gjaldmiðli hleypt af stokkunum, "real", árið 1994. Hagvöxtur ýtti undir velgengni Cardosos, og var hann kjörinn forseti í kosningunum í október 1994. Undir hans stjórn urðu alþjóðatengsl Brasilíu víðtækari og bætti það ímynd landsins út á við. Einnig bætti forsetinn stöðu menntamála í Brasilíu og hratt af stað ýmsum áætlunum, m. a. til að minnka ólæsi. Seinna tímabil Cardosos einkenndist hins vegar af hægum hagvexti, með auknum erlendum skuldum og slæmum áhrifum af kreppunum í Asíu og Rússlandi. Einnig komu nokkur spillingarmál hjá stjórnvöldum upp á yfirborðið og stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir hægagang í meðferð ýmissa mála.

Luiz Inácio Lula da Silva (PT) tók við störfum forseta í janúar 2003, eftir að hafa sigrað í seinni umferð forsetakosninganna, með 61,3% atkvæða á móti José Serra (PSDB), sem fékk 38,7% atkvæða. Aðrir forsetaframbjóðendur í fyrri umferð kosninganna voru Anthony Garotinho og Ciro Gomez. Með sigri Lula da Silva komst ríkisstjórn á vinstri væng stjórnmálanna í fyrsta skipti til valda í Brasilíu og er Lula da Silva fyrsti forsetinn sem kemur úr röð verkalýðsstéttar. Lula da Silva fer fyrir bandalagi flokkanna: PT, PL, PMN (Partido da Mobilizaão Nacional), PPS (Partido Popular Socialista) og PCdoB (Partido Comunista do Brazil), ásamt nokkrum minni flokkum. PSB sagði þó nýlega skilið við stjórnina. Eins og sjá má eru fjölmargir stjórnmálaflokkar í Brasilíu. PT er í minnihluta í báðum deildum þingsins, en nýtur stuðnings ýmissa flokka á miðju og vinstri væng stjórnmálanna. Erfitt hefur þó reynst að miðla málum milli þessara flokka, sérstaklega þar sem flokkshollusta þingmanna er lítil og því erfitt að mæla nákvæmlega þingfylgi ríkisstjórnarinnar hverju sinni.

Stefna Lula da Silva hefur verið að binda endi á matarskort í landinu, bæta hag fátækra og endurbæta ellilífeyriskerfi og skattalög landsins. Ótti við að hann myndi snúa landinu frá frjálsu markaðskerfi olli samdrætti og hækkun áhættumats landsins í aðdraganda þess að hann tók við embætti forseta. Hann hefur hins vegar haldið sig við hina frjálsu markaðsstefnu Cardosos og lýst því yfir að sú stefna hafi jákvæð áhrif á efnahag landsins. Lula da Silva hefur unnið ötullega að því að fylgja áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annað hvort staðið við áætlanir sem gerðar hafa verið eða bætt um betur. Lula da Silva hefur viljað taka á spillingu í stjórnmálum, auk þess að minnka verðbólgu. Þrátt fyrir þetta hefur orðið nokkur samdráttur í efnahagslífinu. Hagvöxtur á árinu 2003 var þó um 0.5%. Erfiðleikar í efnahagsmálum hafa enn sem komið er ekki haft alvarlegar afleiðingar á gífurlegt persónufylgi Lula da Silva. Hann er því talinn líklegur til að vinna endurkjör til embættis forseta í október árið 2006.

Fylkin hafa talverð völd í Brasilíu, einkum vegna þess að samkvæmt stjórnarskránni er miklu opinberu fjármagni ráðstafað af fylkjunum sjálfum. Vald fylkisstjóra yfir þingmanni úr sama fylki er umtalsvert og er einn af mörgum þáttum sem ræður lítilli flokkshollustu meðal þingmanna.

Utanríkis-, öryggis-, mannréttinda- og umhverfismál.

Sögulega hefur Brasilía beint sjónum sínum inn á við og ekki viljað vera áberandi á alþjóðavettvangi. Þessi afstaða breyttist þó í forsetatíð Cardoso og heldur áfram nú undir stjórn Lula da Silva. Í dag leggur Brasilía mikla áherslu á að fá fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Með það að leiðarljósi hefur landið bundist bandalagi við Suður-Afríku og Indland. Löndin hafa öll sama metnað og vinna því sameiginlega að stuðningi við setu í ráðinu. Brasilía hefur verið aðili að Mercosur og tollbandalagi Suður-Ameríku þjóða og hefur unnið ötullega að því að styrkja það samstarf. Brasilía hefur einnig verið áberandi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), en þar fer landið fyrir hópi 22 þróunarríkja (G22) sem berst fyrir frjálsari viðskiptum með landbúnaðarvörur og opnari mörkuðum á Vesturlöndum.

Brasilía hefur stærsta her álfunnar. Árið 2003 hafði landið 287.600 menn undir vopnum. Landherinn er stærstur með um 189.000 menn, en honum næst kemur flugherinn með um 50.000 menn og að lokum flotinn með um 48.600 menn. Vopnfærir menn með varaliði er um 1.1 milljón. Áhrif hersins í stjórnmálum hafa minnkað umtalsvert á síðari árum, en háttsettir herforingjar hafa þó enn nokkur pólitísk áhrif.

Innanlandsófriður er næstum enginn í Brasilíu og engin skipulögð skæruliðahreyfing er starfandi í landinu. Það þekkist þó að stórir landeigendur haldi einkaheri til að verjast ágangi landlausra farandverkamanna. Mótmæli og verkföll eru fátíð, en þó hafa átt sér stað nokkrar árásir á erlend fyrirtæki í sambandi við einkavæðingu eða tollamál. Glæpatíðni í Brasilíu er mjög há, einkum í stórborgunum Sao Paulo og Rio de Janeiro. Þjófnaðir í kringum gististaði eru algengir og hafa yfirvöld reynt að ráða bót á þessu með því að koma á fót sérstakri "ferðamannalögreglu". Mannrán eru einnig tíð, einkum meðal kaupsýslumanna og erlendra fjárfesta. "Leiftur mannrán" eru að verða mun algengari, þar sem einstaklingum er rænt og þeir látnir taka út fé í hraðbönkum og svo sleppt. Sökum alls þessa hafa þyrlur orðið vinsæll ferðmáti meðal efnafólks. Skipulögð glæpastarfsemi eru einkum í fátækrahverfum. Glæpasamtök stunda þó einnig þjóðvegarán á vöruflutningabílum. Yfirvöld í Brasilíu hafa nokkrar áhyggjur af því að ofbeldi sem fylgir fíkniefnaviðskiptum í Kólumbíu geti færst yfir landamærin til norðurhluta Brasilíu.

Ríkisstjórn Brasilíu hefur skuldbundið sig til að berjast fyrir bættum mannréttindum í landinu og hefur Lula da Silva forseti beitt sér mjög á þessu sviði. Það er þó víða pottur brotinn í þessum efnum, má þar meðal annars nefna: lögregluofbeldi, mannsal, barna- og þrælavinnuafl, spillingu og mismunun í garð innfæddra íbúa landsins.

Umhverfisvandamál Brasilíu hafa kallað á athygli víða að og þar er fyrst og fremst horft til gróðureyðingar í Amazon regnskóginum. Eyðing regnskóganna hefur ýmis vandamál í för með sér s.s. að ákveðnar dýrategundir hafa komist í útrýmingarhættu. Önnur vandamál eru þó einnig til staðar og þar má meðal annars nefna mikla loft- og vatnsmengun, einkum í stórborgum. Þessu fylgir enn frekari gróðureyðing og heilbrigðisvandamál fyrir borgarana.

Efnahagsmál

Brasilía hefur gengið í gegnum erfiðleika í efnahagsmálum hin síðari ár, og áttu þar hlut að máli efnahagskreppa í nánustu viðskiptalöndum og umhverfisaðstæður. Þurrkar geta set mark sitt á raforkuframleiðslu í Brasilíu þar sem 90% framleiðslunnar kemur frá vatnsaflsvirkjunum. Miklir þurrkar árið 2001 ollu því að skammta þurfti og spara rafmagn, sem varð til þess að iðnaðarframleiðsla minnkaði talsvert. Í samvinnu við Paragvæ rekur Brasilía nú stærstu vatnsorkuver heims. Gas er fengið með gasleiðslum frá Bólivíu og Argentínu. Landið stefnir að því að verða sjálfu sér nógt í olíuframleiðslu á þessu ári.

Efnahagur Brasilíu, sem er sá áttundi stærsti í heiminum, byggir mikið á viðskiptum við nágrannalandið Argentínu, en einnig á iðnaði, eins og framleiðslu flugvéla, vígbúnaðar og bifhjóla. Einnig hefur framleiðsla bifreiða aukist á síðustu árum. Margvíslegur iðnaður er í Brasilíu og er sá þróaðasti í Mið- og Suður-Ameríku. Leggur hann til um 29% af vergri þjóðarframleiðslu landsins og um 60% af útflutningi. Útflutningur er mikill á járni, stáli, ýmsum steintegundum og málmum. Er Brasilía sjöundi mesti gullframleiðandi heims og hefur einnig ótal demantanámur, en einnig er vinnsla á t. d. kopar, mangan og áli. Brasilía er nær sjálfri sér nóg í matvælaframleiðslu og er mesti kaffi- og sykurframleiðandi heims, ásamt því að vera helsti útflytjandi á kaffi. Aðrar landbúnaðarvörur, sem ræktaðar eru í Brasilíu, eru tóbak, kakó, soja, maís, bómull, og ávextir s. s. appelsínur. Framleiðsla á appelsínusafa er um 80% af heimsmarkaði. Árið 2001 var hagstætt ár fyrir landbúnaðinn, sem er um 8% af vergri þjóðarframleiðslu. Útflutningur hefur aukist á sojabaunum, mjöli, maís, olíu og kjötvörum frá því ári. Mikil viðarframleiðsla er í Brasilíu og hafa umhverfissinnar lýst yfir áhyggjum vegna eyðileggingar regnskóga á Amazon-svæðinu. Ferðamannaiðnaðurinn hefur farið vaxandi, en mikið er um að Brasilíumenn ferðist innanlands. Bandaríkin eru stærsta inn- og útflutningsþjóð Brasilíu, en þeim næst koma nágrannalöndin í Suður-Ameríku.

Brasilía hefur miklar erlendar skuldir, sem jukust mikið á seinnihelming tíunda áratugarins. Sú ákvörðun Cardoso-stjórnarinnar að einkavæða mörg fyrirtæki landsins hefur ekki flýtt fyrir niðurgreiðslum á þeim lánum. Gengi gjaldmiðils Brasilíu var fljótandi gagnvart Bandaríkjadal í lok tíunda áratugarins og varð verðbólgan í kjölfar þess minni en búist hafði verið við. Um svipað leyti, þ. e. árið 1999, var gert samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) um að láta ríkisskuldir standa í stað, en það gekk illa á seinna kjörtímabili Cardosos. Lula da Silva núverandi forseti hefur haldið í við þær áætlanir sem gerðar hafa verið um niðurgreiðslu skulda.

Verg þjóðarframleiðsla á mann var 2.500 Bandaríkjadalir árið 2002. Árið 2005 var gengi realsins 2.63 á móti Bandaríkjadal. Í Brasilíu eru verðbréfamarkaðir starfandi í São Paulo og Rio de Janeiro. Brasilía var einn af stofnendum verslunarsambandsins Mercosur árið 1991 ásamt Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ. Árið 1995 gerðu sömu lönd með sér tollbandalag. Önnur aðildarlönd, sem gengið hafa í bandalagið, eru Chíle og Bólivía. Hafa stjórnvöld Brasilíu haft efasemdir um kosti þess að ganga í FTAA (Free-Trade Area of the Americas) og standa viðræður milli Brasilíu og Bandaríkjanna um FTAA enn yfir.

Samskipti Íslands og Brasilíu

Ræðissamband milli Íslands og Brasilíu komst á árið 1923, er Pétur Á. Ólafsson var skipaður kjörræðismaður Brasilíu í Reykjavík. Ferðaðist Pétur m. a. til Brasilíu um svipað leyti til að kanna markaðsmöguleika þar í landi. Thor Thors varð fyrsti sendiherra Íslands í Brasilíu og afhenti hann Getulio D. Vargas forseta Brasilíu trúnaðarbréf sitt í apríl 1952. Sendiráð Íslands í Washington D.C. hefur annast samskiptin við Brasilíu. Sendiráð Brasilíu í Ósló hefur séð um samskiptin við Ísland frá því árið 1955.

Tvær íslenskar aðalræðisskrifstofur eru í Brasilíu, önnur í Rio de Janeiro og hin í São Paulo. Einnig hefur verið ræðisskrifstofa í Curitiba, en Maro R. Söndahl ræðismaður lést í byrjun þessa árs. Samkvæmt upplýsingum Tom Ringseth, aðalræðismanns í Rio de Janeiro, býr einn Íslendingur þar í borg.

SIF hefur nú hætt öllum rekstri í Brasilíu, en aðalræðismaðurinn í Rio annast fisksölu fyrir SIF Group. Íslenskur fiskur á undir högg að sækja vegna þess að norskur fiskur býðst á mun hagstæðara verði. Andri Laxdal er fulltrúi Marels í Brasilíu og hefur fyrirtækið selt tækjabúnað þangað.

Nú er verið að undirbúa þar norræna kvikmyndahátíð og hefur fremsta sjónvarpsstöð landsins, TV GLOBO, lýst yfir áhuga á að gera þátt um Ísland, sem yrði sýndur í þáttaröðinni Fantastico, sem er sendur út á besta áhorfstíma í Brasilíu. Margar fyrirspurnir varðandi Ísland berast til ræðismannaskrifstofunnar, m. a. um búsetu þar og atvinnu. Hefur ræðismaðurinn bent á nauðsyn þess að koma á laggirnar vefsíðu um Ísland á portúgölsku, sem gæti nýst skólanemendum.

Samkvæmt upplýsingum Arne Spjaer Arnesen, aðalræðismanns í São Paulo, búa fjórir Íslendingar í hans umdæmi. Samkvæmt upplýsingum hans hafa íslensk fyrirtæki og skólastarf verið kynnt í Brasilíu. Einnig eru dæmi um að íslensk skip hafi gert samninga við brasilísk sjávarútvegsfyrirtæki.

Maro R. Söndahl var ræðismaður Íslands í Curitiba. Hann taldi að um 400 manns í hans umdæmi ættu rætur sínar að rekja til Íslands. Eru það afkomendur innflytjenda, sem komu til Brasilíu í lok 19. aldar.

Viðskipti Íslands og Brasilíu

Viðskiptajöfnuður Íslands við Brasilíu er nú óhagstæður. Innflutningur hefur verið misjafn milli ára og minnkaði úr 460,6 milljónum króna árið 2001 í 185,8 milljónir króna árið 2002. Jókst hann töluvert árið 2003, er hann var 1.032,6 milljónir króna. Var um að ræða innflutning á ýmsum vörum, s. s. málmefnum, ávöxtum, grænmeti, vélbúnaði, kaffi, te, kakó, viðarvörum og fleiru.

Útflutningur til Brasilíu hefur farið minnkandi frá árinu 2001. Var hann þá 90,2 milljónir króna og fór í 83 milljónir króna árið 2002. Árið 2003 minnkaði útflutningurinn enn meir og var þá 36,6 milljónir króna. Var mest flutt út af sjávarafurðum, dýrafitu og -olíu, en einnig lyfjum og ýmsum iðnaðar- og tæknivörum.Inspired by Iceland