Argentína

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Argentínu þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Fáni Argentína

AlmenntÍbúar Argentínu eru um 38,7 milljón talsins og eiga margir rætur sínar að rekja til Spánar og Ítalíu. Lifa um 15 milljónir manna undir fátækramörkum, þar af 4 milljónir manna við mikla fátækt. Rómversk-kaþólsk trú er ráðandi á meðal Argentínumanna og eru um 92% þeirrar trúar. Mótmælendur eru 2% og Gyðingar einnig 2%, en það er stærsta hlutfall Gyðinga í Suður-Ameríku. Hvað menntun varðar, er opinbert skyldunám frá 6 til 15 ára aldurs. Argentína er með eitt hæsta hlutfall í lestrar- og skriftarkunnáttu á meðal landa í Suður-Ameríku. Heilbrigðiskerfinu var breytt árið 2001 í þá veru að nú geta Argentínumenn valið á milli opinberrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Argentínu er skipt í 23 umdæmi með eitt sjálfstjórnarsvæði, sem er höfuðborgin Buenos Aires. Stjórnarfarið byggir á þrískiptu ríkisvaldi og svipar til stjórnarfars Bandaríkjanna. Framvæmdarvaldið er í höndum forsetans, sem kosinn er til 6 ára og má sitja í tvö tímabil. Er seinna kjörtímabilið 4 ár. Forsetinn hefur bæði titil þjóðhöfðingja og forsætisráðherra. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, sem starfar í tveimur deildum: Annars vegar öldungadeild (Senate) með 72 þingmenn, sem eru kosnir í beinum kosningum, 1/3 þeirra annað hvert ár, og hins vegar fulltrúadeild (Chamber of Deputies) með 257 þingmönnum, sem kosnir eru til fjögurra ára í almennum kosningum. Helmingur þeirra er kosinn annað hvert ár. Dómsvaldið er óháð stjórninni og starfar Hæstiréttur bæði á vegum ríkisins (national) svo og á landsbyggðinni (provincial). Helsti stjórnmálaflokkurinn í Argentínu er Partido Justicialista (PJ), eða Perónistaflokkurinn, eins og hann er einnig kallaður. Hann hefur nú meirihluta á þingi. Stjórnarandstöðuflokkurinn er Unión Cívica Radical (UCR).

Stjórnmál

Forsetaskipti hafa verið tíð í Argentínu undanfarin ár. Carlos Saul Menem var forseti landsins frá 1989-1999. Frjálsa markaðsstefnan hans í efnahagsmálum hafði erfiðar afleiðingar í för með sér og leiddi til mikillar efnahagskreppu. Fernando De La Rua tók við embættinu af honum, en sagði af sér í desember 2001 eftir uppþot, sem kostaði 25 manns lífið. Í framhaldi af því var Adolfo Rodriguez Saa skipaður sem tímabundinn forseti landsins, en hann naut þess titils aðeins í um eina viku. Í janúar 2002 kaus þingið Eduardo Duhalde sem bráðabirgðaforseta. Efnahagur landsins fór síversnandi undir hans stjórn.

Í forsetakosningunum í maí 2003 sigraði Néstor Kirchner með naumindum, en hann hlaut 22% atkvæða. Kirchner var í framboði fyrir Perónistaflokkinn og tók við embætti 25. maí 2003. Aðrir frambjóðendur voru Carlos Saul Menem, sem hlaut 24,3% atkvæða. Menem dró framboð sitt til baka á kosningakvöldi, og er ein ástæðan talin vera sú, að skoðanakannanir höfðu gefið í skyn yfirburðarsigur Kirchners. Næstur kom Ricardo Lopez Murphy sem hlaut 16,4% atkvæða; Adolfo Rodriguez Saa sem hlaut 14,4% atkvæða; Elisa Carrio sem hlaut 14,2% atkvæða. Aðrir frambjóðendur fengu samtals 8,7% atkvæða. Varaforseti Argentínu er Daniel Scioli.

Þótt Kirchner hafi ekki setið lengi í forsetastóli hafa vinsældir hans aukist til muna á þessum stutta tíma. Mun ein af aðalástæðunum vera ýmsar róttækar aðgerðir hans, s. s. brottrekstur háttsettra aðila innan bæði hers og lögreglu, en einnig skipun nýs forseta Hæstaréttar. Hafa stofnanir verið yfirfarnar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og jafnframt til að stemma stigu við spillingu stjórnmálamanna. Einnig eru áætlaðar róttækar breytingar á PAMI ellilífeyriskerfinu (Programa de Atención Médica Integral). Mun Kirchner einnig ætla að að hverfa frá þeirri frjálsu markaðsstefnu, sem var ríkjandi á tíunda áratugnum og bæta tengslin við hópa á miðju og vinstri væng stjórnmálanna, sem ekki hafa verið hlynntir Perónistum.

Þrátt fyrir kraftmikið upphaf á forsetaferli Kirchners, á hann enn eftir að fást við mikil vandamál. Má þar nefna erlendar skuldir, en Alþjóðabankinn (World Bank) neitaði að veita landinu frekari lán eftir að stjórn Duhaldes innti ekki af hendi 800 milljóna dollara afborgun. Kirchner lauk samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) 28. janúar síðastliðinn. Þar lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína yfir efnahagsáætlun hans, í samræmi við þriggja ára reglubundið lán frá sjóðnum, sem samþykkt var í september 2003. Búist er við, að þessi árangur muni auka vinsældir Kirchners forseta, einkum þar eð samþykkt IMF kvað ekki á um hertari kröfur til Argentínu, þrátt fyrir að hagvöxtur hefði verið meiri en reiknað hafði verið með. Hafði EIU (The Economist Intelligence Unit) spáð í ágúst 2003 um hægan bata í efnahagsmálum það sem af var árinu 2003. Til viðbótar er áætlað að auka félagslega aðstoð í þeim tilgangi að sporna gegn fátækt. Einnig hafa tillögur um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn skattsvikum verið lagðar fyrir þingið.

Önnur þraut, sem Kirchner þurfti að takast á við voru þingkosningar haustið 2003, þar sem flokkur hans, PJ, átti undir högg að sækja. Urðu þær kosningar PJ-flokknum í hag og hefur hann nú í meirihluta í báðum deildum þingsins. Hefur það ekki áður gerst að einn flokkur væri með meirihluta á argentínska þinginu frá endurheimt lýðræðis í landinu árið 1983. Er Perónistaflokkurinn einnig með 3/4 landsstjóraembætta. Er Kirchner tók við embætti hafði hann ekki mikinn stuðning á bak við sig, miðað við forvera sinn Eduardo Duhalde. Hafði Duhalde einkanlega mikinn stuðning í Buenos Aires.

Argentína er fremst á meðal Suður-Ameríkuríkjanna í fjölmiðlamarkaðinum. Þar eru hundruð útvarpsstöðva, 12 innlendar sjónvarpsstöðvar og gefin út meira en 150 dagblöð. Þótt fréttamenn hafi starfað frjálst síðan lýðræði var komið aftur á árið 1983, hafa verið nokkur morðtilfelli og hótanir í garð þeirra.

Efnahagsmál

Hagkerfi Argentínu grundvallast á hinum mörgu náttúruauðlindum landsins, s. s olíu, gasi og kolum, en einnig útflutningi á landbúnaðarvörum. Landið er eitt af helstu framleiðsluríkjum á soyaafurðum, nautakjöti og hveiti. Einnig er iðnaður og framleiðsla ýmiss konar (t.d. hreinsuð olía) mikilvæg. Þar að auki hefur fjármálaþjónusta og ferðamannaiðnaður farið vaxandi á undanförnum áratug. Þrátt fyrir þetta hefur efnahagur landsins þjáðst af verðbólgu, auknum erlendum skuldum og fjárlagahalla. Varð landið illa fyrir barðinu á efnahagskreppunni í lok tíunda áratugarins. Efnahagslegt hrun varð óumflýjanlegt í Argentínu í desember 2001, eftir að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tilkynnti að ekkert yrði af fjárhagsaðstoð til landsins eins og áætlað hafði verið. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar hættu einnig Alþjóðabankinn (World Bank) og Þróunarbanki Ameríkuríkja (Inter-American Development Bank, IDB) við greiðslur til Argentínu. Eftir það hafa Argentínumenn mátt þola samdrátt á fjármálamarkaðinum í töluverðan tíma, og hafa erlendir fjárfestar hætt við mörg verkefni og tekið inneign sína úr argentínskum bönkum. Meira en helmingur íbúa Argentínu lifði undir fátækramörkum eftir þessi áföll. Einnig má nefna sveiflur í gengi argentíska gjaldmiðlisins, pesósins. Stjórnin reyndi að halda honum í hlutfallinu einn á móti einum gagnvart Bandaríkjadollara. Það hafði gríðarleg áhrif á bankastarfsemi landsins og var því hætt í janúar 2002. Í janúar 2004 voru 3,3 pesóar á móti Bandaríkjadollara.

Árið 2003 fór efnahagurinn batnandi með auknum útflutningi, en einnig vegna lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í september sama ár. Minnkaði atvinnuleysið og verðbólgan fór lækkandi. Árið 2002 var GDP í Argentínu 10.500,- USD á mann.

Utanríkisviðskipti hafa mikla þýðingu fyrir efnahag Argentínu. Stjórn Kirchners hyggst styrkja samvinnuna við Mercosur-löndin (Mercado Común del Sur), sem eru Brasilía, Argentína, Úrúgvæ og Paragvæ, til að styrkja stöðuna í samningaviðræðum við Bandaríkin um Fríverslunarbandalag Ameríkuríkja (Free-Trade Area of the Americas, FTAA).

Samskipti Íslands og Argentínu

Ísland hefur aðalræðismannsskrifstofu í Buenos Aires. Samkvæmt upplýsingum ræðismannsins, Walter Koltonskis, er honum ekki kunnugt um að Íslendingar séu búsettir í Buenos Aires eða að íslensk fyrirtæki séu starfrækt í Argentínu. Nokkur af fremstu tæknifyrirtækjum Íslands eru þó þekkt í landinu. Telur Koltonski vera fyrir hendi marga samvinnumöguleika á viðskiptasviðinu, mf. sbr. stöðuskýrslu hans 8. f. m á mnr.:WAS02110027. Unnið er að gerð loftferðasamnings milli ríkjanna.

Hins vegar má nefna að náið samstarf er á milli Háskóla Íslands og einkarekins háskóla þar í landi, sem nefnist Universidad del Salvador. Eru regluleg námsmannaskipti á milli þessara tveggja skóla, en þar sem framfærslukostnaður er lægri í Argentínu en á Íslandi koma fleiri Íslendingar til Argentínu en öfugt. Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor í spænsku við Háskóla Íslands, hefur unnið að þessum námsmannasamskiptum. Hún hefur einnig verið virk í menningarsamskiptum landanna eftir nokkurra mánaða dvöl í Argentínu á seinasta ári. Skipulagði hún tvær vel heppnaðar íslenskar kvikmyndahátíðir í Argentínu í lok síðasta árs. Var sú fyrri haldin í Buenos Aires í nóvember og sú síðari í borginni Rosario í byrjun desember, og voru þar íslensku kvikmyndirnar "Nói Albínói", "101 Reykjavík", "Á köldum klaka" og "Börn náttúrunnar" til sýninga. Hátíðin í Rosarioborg var haldin í samvinnu við Universidad Nacional de Rosario. Þar að auki var Hólmfríður á þessum tíma í rannsóknarleyfi í Argentínu við gerð bókar sinnar um argentískar samtímabókmenntir, sem mun koma út á næstunni.

Í undirbúningi er argentísk kvikmyndahátíð á Íslandi, sem mun verða í maí næstkomandi, og eru áætlanir um að fá kennara frá Buenos Aires til að halda fyrirlestra um það leyti. Sérstakur áhugamaður um norræna og íslenska menningu og þjóðlíf er dr. Enrique del Acebo Ibanez, þjóðfélagsfræðingur og háskólakennari við Universidad del Salvador. Einn íslenskur nemandi er við nám í Universidad del Salvador eins og stendur.

Viðskipti Íslands og Argentínu

Viðskiptajöfnuður Íslands við Argentínu er nú hagstæður. Innflutningur frá Argentínu til Íslands jókst töluvert til ársins 2000, þegar verðmæti hans nam 36.2 miljónum króna. Eftir það minnkaði hann í 20.6 milljónir árið 2001. En árið 2002 var innflutningurinn kominn í 26.71 milljón króna og var þar mest um að ræða grænmeti, ávexti, drykkjarvörur, viðarvörur og leðurvörur, en einnig ýmsar iðnaðarvörur.

Útflutningur til Argentínu hefur aukist frá árinu 2000. Er þar fyrst og fremst um að ræða spunagarn og vefnaðarvörur, auk véla- og tæknibúnaðar. Var útflutningurinn 14.8 millj. króna 2000; 61.3 millj. króna 2001 og 71.1 millj. króna 2002.

Á vefsetri VUR eru töflur um viðskipti landanna og upplýsingar um inn- og útflutning eftir vörudeildum árið 2002.Inspired by Iceland