Háskólinn í Bergen styrkir Stofnun Vigdísar

Vigdís Finnbogadóttir og Hadia Tajik menntamálaráðherra Noregs. Mynd eftir Kristján Logason

Háskólinn í Bergen hefur gefið vilyrði um styrk til alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar, sem mun starfa innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Framlag skólans mun nema rúmum 10 milljónum króna. Greint var frá þessari ákvörðun í heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Bergen þar sem hún var heiðursgestur við opnun Festspillene ásamt Hadiu Tajik, menningarmálaráðherra Noregs, og Jens Stoltenberg forsætisráðherra.

Í apríl sátu Vigdís Finnbogadóttir og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fyrsta fund samstarfsnets fulltrúa  Háskóla Íslands, Háskólans í Bergen, Tækniháskólans í Þrándheimi (NTNU),  Nýnorsku menningarmiðstöðvarinnar og fylkisstjórnar Hörðalands, en þessir aðilar hafa undirritað viljayfirlýsingu um rannsóknasamstarf. Yfirlýsingin byggist m.a. á Norrænu tungumálayfirlýsingunni frá 2006 og hefur það að markmiði að auka samvinnu um rannsóknir á vestnorrænum tungumálum og menningu. Efnt var til fundarins í tengslum við ráðstefnu, sem haldin var til að heiðra minningu Ivars Aasen, sem lagði grunninn að nýnorsku, en í ár eru liðnar tvær aldir frá fæðingu hans. Vigdís Finnbogadóttir hélt hátíðarræðu  á ráðstefnunni.

Í bréfi Sigmund Grønmo, rektors Háskólans í Bergen, til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur segir að í Háskólanum í Bergen sé fylgst af áhuga með undirbúningi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar og að mikill stuðningur sé við verkefnið.  Hann lætur í ljós von um að  tungumálamiðstöðin geti sem fyrst orðið að veruleika og árnar Stofnun Vigdísar allra heilla og færir fram óskir um  farsælt samstarf í framtíðinni.  

Auður Hauksdóttir segir að stórhugur Háskólans í Bergen beri vott um ríkan áhuga norskra fræðimanna  á samstarfi  við Stofnun Vigdísar og væntingar um að alþjóðlega tungumálamiðstöðin verði þróttmikil og öflug.

 

Frétt fengin af vef Háskóla Íslands. 

Video Gallery

View more videos