Menningartengsl

Samfara alþjóðavæðingunni hafa menningarsamskipti á milli þjóða aukist til muna. Að sama skapi hefur mikilvægi menningar aukist, því vart er til betri leið til að læra að meta eigin menningu en að kynnast menningu annarra þjóða.

Í þessu samhengi er mjög ánægjulegt hve menningarsamskipti á milli Íslands og Japans hafa vaxið hröðum skrefum undanfarin ár.

Þar ber fyrst að nefna tungumálakennslu, annars vegar íslenskukennslu við Waseda háskóla í Tókýó og hins vegar japönskukennslu við Háskóla Íslands. Nemendur beggja háskóla hafa tekið þessari nýbreytni vel og hefur aðsókn verið mjög góð. Aðrir háskólar í Japan hafa einnig gert tvíhliða samninga við íslenska háskóla á hinum ýmsu fræðisviðum

Önnur menningarsamskipti hafa einnig blómstrað á undanförnum árum og hafa þónokkrir íslenskir tónlistarmenn, ýmist á sviði klassískrar- popp-, rokk- eða raftónlistar heimsótt Japan til tónleikahalds.  Vaxandi áhugi er á íslenskri tónlist í Japan og eru Björk og Sigur Rós vel þekkt og vinsæl.  Hinn víðfrægi hljómsveitarstjóri Vladimír Ashkenazy, sem er íslenskur ríkisborgari af rússneskum ættum, gegnir nú starfi hljómsveitarstjóra hjá ,,NHK Symphonic Orchestra" í Japan.  Á liðnum árum hafa sífellt fleiri íslenskar kvikmyndir verið sýndar í japönskum kvikmyndahúsum.

Video Gallery

View more videos