Íslendingar í Frakklandi

Hér eru ýmsar upplýsingar um dvöl í Frakklandi.

Sendiráð Íslands í París leggur lið bæði þeim Íslendingum sem búsettir eru í umdæmislöndunum, námsmönnum og ferðamönnum. Aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna útgáfu neyðarvegabréfa, ökuskírteina o.þ.h.

Það skal tekið fram að sendiráðið veitir enga fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.

Gagnlegar upplýsingar um Frakkland má finna á vefsíðunni www.france.fr/en.html

1. Dvalarleyfi

Íslenskir ríkisborgarar þurfa ekki lengur dvalarleyfi. Nægir að framvísa vegabréfi gagnvart atvinnuveitendum og öðrum þeim sem óska eftir staðfestingu á leyfi til dvalar í landinu, sjá lagagrein.  

Sjá nánari útskýringar á opinberu upplýsingasíðunni service-public.fr - actifs (launþegar og atvinnurekendur) eða service-public.fr - inactifs (ellilífeyrisþegar, nemar og atvinnulausir).  Á sömu síðu má finna staðfestingu á að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssambandinu (espace économique européen).

Íslendingar geta eftir sem áður sótt um dvalarleyfi hjá sýslumanni (préfecture de police), sé þess óskað. Benda má á að almenningi er skylt að ganga með persónuskilríki á sér í Frakklandi og flokkast einungis vegabréf og dvalarleyfi sem gild persónuskilríki fyrir íslenska ríkisborgara.  

2. Stofnun bankareiknings

Til að stofna bankareikning í Frakklandi þarf viðkomandi að vera með:

 • Fast heimilisfang í Frakklandi
 • Vegabréf
 • Staðfesting á heimilisfangi (justificatif de domicile)

Og eftir atvikum:

 • Staðfesting á föstum tekjum (launaseðill, LÍN, skuldbinding foreldra...)

3. Húsnæði

Æskilegt er að ætla sér rúman tíma til að leita að húsnæði því framboð er lítið, sérstaklega í París. Best er að vera á staðnum en mælt er með því að kynna sér markaðinn fyrirfram, t.d. á netinu.

Beðið er um eftirfarandi skjöl við undirskrift leigusamnings:

 • Staðfesting á föstum tekjum
 • Staðfesting á bankareikningi (RIB)
 • Innbústrygging (hægt að fá í bönkum eða hjá tryggingarfélagi)
 • Greiða þarf í flestum tilvikum allt að þrjá mánuði fyrirfram
 • Oftast er beðið um ábyrgðarmenn
 • Námsmenn geta sótt um húsaleigubætur (sjá heimasíðu CAF)

Hjálagt eru nokkrar slóðir á fasteignasölur sem geta hjálpað til við leit að íbúð:

Fyrir stúdenta: Cnous (Crous)

4. Vegabréf

Smellið hér til að fá upplýsingar um útgáfu íslenskra vegabréfa í sendiráðinu í París

5. Ökuskírteini

Íslensk ökuskírteini:
Hægt er að sækja um nýtt ökuskírteini hjá sendiráði Íslands.
Viðkomandi kemur í sendiráðið í eigin persónu með eina passamynd og fyllir út umsóknareyðublað.  Sendiráðið sendir umsóknina til Ríkislögreglustjóra sem sendir svo skírteinið beint til viðkomandi.  Nýtt ökuskírteini kostar 49 evrur (14 evrur fyrir 65 ára og eldri).  Hægt er að láta þýða íslenska skírteinið á frönsku og kostar sú þýðing 20 evrur (uppfært í febrúar 2017).

Er íslenskt ökuskírteini gilt allsstaðar erlendis?

Frönsk ökuskírteini:
Íslendingar búsettir í Frakklandi geta skipt íslenskum ökuskírteinum sínum yfir í franskt ökuskírteini en ber ekki skylda til þess nema ef um brot á umferðalögum í Frakklandi er að ræða (sjá opinberar upplýsingar á frönsku hér). Sýslumannsembættin (préfecture) eða aðallögreglustöðin í París (Préfecture de police) annast afgreiðslu.

Ef upprunaland ökuskírteinis er utan E.E.S. ber að skipta því yfir í franskt ökuskírteini eigi síðar en einu ári eftir komudag. Nánar um afgreiðslu fransks ökuskírteinis: www.service-public.fr

6. Atvinnuleit og atvinnuleysisbætur

Íslendingar á atvinnuleysisbótum á Íslandi sem flytja til Frakklands eiga rétt á atvinnuleysisbótum í Frakklandi. Skilyrði er að framvísa eyðublaði E303 innan 7 daga frá komu til Frakklands hjá Pôle Emploi.

Hér má finna heimilisfang Pôle Emploi sem tilheyrir dvalarstað viðkomandi.

Pôle Emploi aðstoðar jafnframt atvinnulausa við leit að nýrri atvinnu.

7. Íslenski skólinn

Markmið skólans eru að gefa íslenskum börnum í París og nágrenni tækifæri til að eiga samskipti á íslensku, að læra að lesa og skrifa á íslensku með hliðsjón af grundvallaratriðum íslenskrar málfræði og að kynnast íslenskri sögu og menningu. Kennslan á sér stað nokkra laugardagsmorgna yfir vetrartímann. Tekið er á móti börnum frá 2 ára aldri. Kennslan fer fram í Sænska skólanum í 17. hverfi, sem er í sama húsi og sænska kirkjan. Vinsamlegast hafið samband við Ástu Sólveigu Georgsdóttur til að fá frekari upplýsingar.

8. Skráning íslenskra barna sem eru fædd í Frakklandi

Börn íslenska foreldra fædd í Frakklandi eða börn fædd í blönduðu hjónabandi þarf að skrá á næstu borgarskrifstofu (La Mairie) innan við 72 tíma eftir fæðingu. Ef barn fæðist á miðvikudegi, fimmtudegi eða á föstudegi, er síðasti skráningardagur mánudagur. Viðkomandi fær franskt fæðingarvottorð á fæðingarheimilinu og barninu er strax gefið nafn.

Upplýsingar um skráningu barns í íslenska þjóðskrá.

Athygli skal vakin á því að sækja þarf um ríkisborgararétt fyrir barn íslensks föður og erlendrar móður sem ekki eru í hjónabandi, á þar til gerðu eyðublaði hjá Útlendingastofnun. 

9. Gifting Íslendinga í Frakklandi

Íslendingar sem vilja gifta sig í Frakklandi þurfa:

 • Að hafa haft lögheimili í Frakklandi í að minnsta kosti 3 mánuði fyrir giftingu (hóteldvöl telst ekki gild)
 • Frumrit að fæðingarvottorði sem fæst hjá Þjóðskrá
 • Staðfesting á heimilisfangi (t.d. leigusamningur, síma- eða rafmagnsreikningur)
 • Staðfesting á að viðkomandi sé ógiftur - fæst hjá Þjóðskrá (certificat de célibat)
 • Staðfesting á að viðkomandi sé leyfilegt að gifta sig samkvæmt íslenskum lögum - fæst hjá sendiráðinu (certificat de coutume)
 • Gild skilríki (vegabréf)
 • Nöfn á vottum og öll ofangreind vottorð mega ekki vera eldri en 2ja mánaða.

10. EES

EES-samningurinn kveður á um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu. Samningurinn kveður einnig á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl. Sjá nánar: www.ees.is

11.  Flutningur til Íslands

Þegar fjölskylda eða einstaklingur flytur aftur til Íslands eftir að hafa búið erlendis þarf að huga að ýmsu.  Nánari upplýsingar má finna á vefsetrinu island.is.

12.  Nám í Frakklandi

Allar upplýsingar á heimasíðu Campus France og á app-inu Immersion France.

13.  Tenglar

Smellið hér til að færast á tenglasíðuna

Video Gallery

View more videos