Sögulegt yfirlit

Ræðismenn Íslands

Ísland hefur jafnan átt góðum fulltrúum á að skipa í Færeyjum. Fyrsti ræðismaður Íslands í Færeyjum var athafnamaðurinn Páll Ólafsson. Hann var skipaður ræðismaður 3. september 1947. Skipunarbréf hans hangir á vegg í aðalræðisskrifstofunni í Fútastovu, undirritað af Sveini Björnssyni forseta Íslands og Bjarna Benediktssyni , utanríkisráðherra. Bréfið er gjöf til aðalræðisskrifstofunnar frá dóttur hans, frú Ólöfu Pálsdóttur, myndhöggvara.

Páll var fæddur að Lundi í Lundareykjadal 30. ágúst 1887. Hann var umsvifamikill í viðskiptum og útgerð fyrst á Íslandi en síðar í Danmörku. Frá Danmörku fluttist hann til Færeyja 1939 og dvaldist þar fram yfir stríðslok er hann flutti aftur til Danmerkur og þaðan síðar til Íslands. Eiginkona Páls var Hildur Stefánsdóttir. Meðal barna þeirra voru sem fyrr segir Ólöf, síðar eigin eiginkona Sigurðar Bjarnasonar ritstjóra og sendiherra og Ingibjörg kona Péturs Eggerz sendiherra.

Páll Ólafsson var ræðismaður Íslands fram til ársins 1956, þá tók við ræðismannsstarfinu Trygvi Samuelsen, sem gegndi því í 29 ár. Trygvi var lögfræðingur og áhrifamaður í stjórnmálum í Færeyjum. Hann átti lengi sæti á Lögþinginu fyrir Sambandsflokkinn. Hann tók fyrst sæti á þingi 1943 til 1946. Síðan var hann þingmaður óslitið frá 1949 til 1974. Hann sat í bæjarstjórn í Tórshavn 1936 til 1964.

Árið 1985 var Poul Mohr skipaður ræðismaður Íslands í Færeyjum. Hann lét af störfum 1.apríl 2007 er opnuð var aðalræðisskrifstofa með útsendum starfsmanni. Poul Mohr var eins og fyrirrennarar hans afar farsæll í starfi kjörræðismanns Íslands í Færeyjum og stendur utanríkisþjónustan í mikilli þakkarskuld við hann og eiginkonu hans, Frú Önnu Mohr. Poul,sem er fæddur 1929, var um langt árabil forstjóri Skipasmiðjunnar í Tórshavn. Áttu margar íslenskar útgerðir viðskipti við hann. Poul er mikill Íslandsvinur, fer oft til Íslands þar sem hann á vinafjöld. Hann er gjörkunnugur mönnum og málefnum á Íslandi og vel að sér um menn og málefni á Íslandi, ekki síst íslenskar bókmenntir.

Að neðan er yfirlit yfir útsenda starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem hafa gegnt stöðu aðalræðismanns.

Kjörræðismenn

1947-56: Páll Ólafsson

1956-85: Trygvi Samuelsen

1985-2007: Poul Mohr

Aðalræðismenn (útsendir)

2007-09: Eiður S. Guðnason

2009-11: Albert Jónsson

2012-16: Þórður Bjarni Guðjónsson

2016 til dagsins í dag: Pétur Thorsteinsson

Video Gallery

View more videos