Ísland og Færeyjar

Samskipti Íslands og Færeyja

Engin þjóð er Íslendingum skyldari en hin færeyska. Menning, saga og tunga Íslendinga og Færeyinga eru samtvinnuð og samskiptin hafa löngum verið náin á flestum sviðum, ein einkum á sviði menningar og viðskipta. Einstök og einlæg vinátta er milli þjóðanna, sem Íslendingar nutu síðast haustið 2008 þegar Færeyingar réttu þeim bróðurhönd á ögurstundu með láni á hagstæðum kjörum til að efla gjaldeyrisvarasjóð Íslands.

Viðskipti

Færeyjar hafa löngum verið mikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur og útflutningur þangað nam 3.4 milljörðum króna 2008. Talsverðir möguleikar virðast á auknum útflutningi á bæði vörum og þjónustu.

Í Færeyjum búa tæplega fimmtíu þúsund manns. Þar er því markaður sem er í senn áhugaverður og af hentugri stærð fyrir íslensk fyrirtæki. Samgöngur milli landanna eru með ágætum. Tíðar siglingar eru til helstu hafna á eyjunum á vegum Eimskipa og Samskipa. Áætlunarflug milli landanna er í samvinnu Flugfélags Íslands og Atlantic Airways og að það tekur farþegaþotur þeirra síðarnefndu einungis rúma klukkustund að fljúga milli Reykjavíkur og Færeyja.

Á undanförnum þremur árum hafa orðið tímamót í samskiptunum með gildistöku Hoyvíkursamningsins svonefnda um fríverslun og með opnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn og sendiskrifstofu Færeyja í Reykjavík.

Mörg ákvæði Hoyvíkursamningsins eiga sér beina fyrirmynd í EES-samningnum. Hoyvíkursamningurinn er víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Hann tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Inntak samningsins er gagnkvæmni og hann mælir fyrir um bann við mismunun. Í samningnum er kveðið á um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur og hefur Ísland ekki áður samið um slíkt. Færeyjar hafa um langa hríð verið mikilvægur markaður fyrir íslenskt lambakjöt. Þarlendir neytendur þekkja þannig vel gæði íslenskra búvara og eru vafalítið móttækilegir fyrir fjölbreyttara úrvali og meira framboði úr þeirri átt.

Útflutningur til Færeyja er umtalsverður og nam eins og fyrr segir 3,4 milljörðum króna 2008. Um fjórðungur var fiskur sem var landað í eyjunum til bræðslu. Uppistaðan í útflutningnum að öðru leyti er tækjabúnaður og aðrar vörur fyrir sjávarútveg, byggingarvörur og lambakjöt. Það vekur athygli að í verslunum eru að heita má engar íslenskar vörur að slepptu frosnu lambakjöti, nokkru af harðfiski og smávegis af ávaxtagrautum og sælgæti. Neysluvörumarkaðurinn í Færeyjum er því að mestu leyti óplægður akur fyrir íslenska útflytjendur.

Aðalræðismaður hefur sett sig í samband við íslensk fyrirtæki til að spyrja um áhuga á Færeyjamarkaði og forsendur þess að selja þangað. Áhugi er fyrir hendi og sum eru að kanna markaðinn og byrja að senda vörur á hann í tilraunaskyni.

Verði frumvarp um evrópsku matvælalöggjöfina að lögum á Íslandi greiðir það mjög fyrir útflutningi mjólkurvara og annarra búvara til Færeyja. Tilraun árið 2008 til að selja þangað skyr og aðrar mjólkuvörur fór út um þúfur vegna kostnaðar sem fylgdi því að koma vörunum til og frá landamærastöð og því að fá þær afgreiddar þar. Með evrópsku matvælalöggjöfinni hyrfi þessi kostnaður.

Þjónustuviðskipti milli Íslands og Færeyja eru enn fremur lítil, nema þjónusta við sjávarútveg.

Áhugi íslenskra verktaka á Færeyjum er vaxandi og eitthvað af sjálfstætt starfandi iðnaðarmönnum hefur komið þangað á undanförnum mánuðum til að vinna.

Önnur samvinna

Í Hoyvíkursamningnum er stefnt að því að auka og efla samstarf í menningarmálum, orkumálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum, fjarskiptum og ferðaþjónustu.

Rætt hefur verið um að gera sérstakan samning um samstarf í heilbrigðismálum. Færeysk heilbrigðisyfirvöld hafa áhuga á að færeyskir sjúklingar verði í mjög auknum mæli sendir til Íslands til meðferðar og að íslenskir læknar komi tímabundið til Færeyja til að gera aðgerðir sem annars fara fram í Danmörku. Þá má geta þess að Færeyingar fara töluvert á eigin vegum til Íslands til augnlækninga með leysitækni. Af Íslands hálfu er áhugi á að kaupa dreypilyf af Færeyingum.

Haustið 2007 var undirritaður samstarfssamningur milli Íslands, Færeyja og Grænlands um menningu, menntamál og rannsóknir. Í apríl 2009 var skrifað undir samstarfssamning milli Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja. Í samningum er m.a. stefnt að því að fjölga færeyskum stúdentum í H. Í.

Færeyskar ferðaskrifstofur selja ferðir til Íslands sem og flugfélagið Atlantic Airways og gengur ágætlega. Áhersla er nú meðal annars lögð á að lágt gengi íslensku krónunnar geri hagstætt fyrir Færeyinga að fara til Íslands, m.a. í innkaupaferðir. Ferðamannastraumur frá Færeyjum til Íslands hefur því aukist töluvert að undanförnu og miklir möguleikar hljóta að teljast vera á því að efla ferðamennsku milli landanna enn frekar.

Fiskveiðisamningur

Fiskveiðisamningur milli Íslands og Færeyja er endurnýjaður árlega. Samkvæmt núgildandi samningi fengu færeysk skip heimild til að veiða allt að 30 þúsund lestir af loðnu við Ísland á loðnuvertíðinni 2009/2010. Heimild Færeyinga til að veiða loðnu við Ísland á rætur að rekja til kreppunnar í Færeyjum í byrjun tíunda áratugarins og er endurgjaldslaus.

Færeysk skip mega árlega veiða 5.600 lestir af botnfiski samkvæmt núgildandi samningi. Íslensk skip hafa í staðinn heimild til að veiða 2.000 lestir af Hjaltlandssíld við Færeyjar og 1.300 lestir af makríl.

Loks er samkomulag er um að þjóðirnar fái að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu hvorrar annarrar.

Video Gallery

View more videos