Tónleikar í Havnar kirkju

Þriðjudaginn 27. júlí eru tónleikar í Havnar kirkju kl. 11.30. Einsöngvari er Gissur Páll Gissurarson og píanóleikari Anna Guðný Guðmundsdóttir.

ANNA GUÐNÝ GUÐMUNDSDÓTTIR er fædd í Reykjavík. Hún brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 og stundaði Post Graduate-nám við Guildhall School of Music and Drama í London með sérstaka áherslu á kammertónlist og meðleik með söng. Hún hefur starfað á Íslandi í rúma tvo áratugi og komið fram sem einleikari meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitarinnar um langt árabil; ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, meðal annars píanókonserta eftir Leif Þórarinsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson.   Samstarf hennar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, sópransöngkonu hefur staðið síðan á námsárunum í London.  Sumarið 2004 starfaði Anna sem píanóleikari við tónlistarakademíuna í Sion í Sviss. Hún hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík og leikur reglulega innan raðar TÍBRÁR-tónleikanna í Salnum í Kópavogi. Anna var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem flytjandi ársins. Hún kenndi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til 2005, en það haust var hún ráðin píanóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Hún fékk Íslensku Tónlistarverðlaunin 2009 fyrir flutning sinn á "Tuttugu tillit til Jesúbarnsins"eftir Olivier Messiaen í Langholtskirkju 6. september 2008. Þann 1. júlí síðastliðinn kom síðan út geisladiskur með leik hennar á þessu verki.   

Gissur Páll Gissurarson hóf nám sitt í Söngskólanum í Reykjavík veturinn 1997 undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Gissur Páll flutti til Ítalíu veturinn 2001 og hóf nám við Conservatorio G.B Martini í Bologna. Að loknu námi veturinn 2005 hóf Gissur Páll að sækja einkatíma hjá Kristjáni Jóhannsyni. Gissur Páll hefur sungið við ýmis tækifæri á Íslandi. Frumraun hans á sviði var þegar hann fór með aðalhlutverkið í Oliver Twist, þá aðeins ellefu ára. Eftir að hefðbundið söngnám hófst hefur hann sungið í Kór íslensku óperunar og komið fram sem einsöngvari við ýmis tilefni. Fljótlega eftir að Gissur Páll kom til Ítalíu fékk hann verkefni með stórum óháðum óperukór (Chorus Athestis) sem syngur víðsvegar um Evrópu. Hann hefur sungið einsöng með kór og hljómsveit sem starfa í Imola og flytja trúarleg verk eftir nútímatónskáld. Sumarið 2003 steig Gissur Páll sín fyrstu skref á ítölsku óperusviði í aukahlutverki í óperunni Il Trovatore e. G. Verdi, sem sett var upp í Ravenna og leikstýrð af Cristina Muti. Veturinn 2004 tók Gissur Páll þátt í uppfærslu á Così fan tutte, e. W. A. Mozart, undir stjórn Claudio Abbado sem var sýnd í Ferrara, Reggio Emilia og Modena. Sumarið 2005 söng Gissur Páll aðal-karlhlutverkið (Danilo) í Kátu Ekkjunni e. Franz Lehár í útileikhúsi við Gardavatnið á Ítalíu. Haustið 2005 hélt hann til Japan og kom þar fram á 11 tónleikum fyrir hönd Íslands á EXPO-sýningunni sem haldin var í Nagoya í Japan. Áætlaður gestafjöldi á tónleikum Gissurar var um 100.000 manns. Fyrir jól 2005 kom Gissur Páll fram á hátíðartónleikum óperuklúbbsins í Verona þar sem að hann fékk hreint frábæra ritdóma. Gissur tók þátt í alþjóða söngkeppni “concorso internazionale Flaviano Labò” í maí sl. Til leiks voru skráðir 123 keppendur og hafnaði hann í 3 sæti. Þess ber að geta að Gissur var eini karlsöngvarinn sem vann til verðlauna.Video Gallery

View more videos