30.05.2013

Karlakórinn Stefnir í Færeyjum

Karlakórinn Stefnir var stofnaður þann 15. janúar 1940 og var fyrsta söngskemmtun haldin 7. febrúar það ár í Brúarlandi í Mosfellssveit. Stofnfélagar voru 20, en virkir söngfélagar eru nú um 40. Karlakórinn Stefnir fékk nafnbótina bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2000.

 

Kórinn hefur gefið út tvo geisladiska og farið í tónleikaferðir, bæði innanlands og utan, m.a. til Kanada, Danmerkur og Noregs. Til Austurríkis og Ungverjalands fór hann 1997 þar sem flutt var Sálumessa eftir Frans Liszt í fæðingarborg tónskáldsins, Búdapest, og einnig í Vínarborg. Í júlí 2002 fór Stefnir til Llangollen í Wales þar sem kórinn tók þátt í árlegu kóramóti. Í lok maí 2007 fór kórinn í ferð til St. Pétursborgar í Rússlandi þar sem hann tók  þátt í norrænni tónlistarhátíð en einnig var sungið í Helsinki í Finnlandi.

 

Nú er ferðinni hald til frænda okkar í Færeyjum. Lagt verður í ferðalagið með Norrænu miðvikudaginn 5. júní og komið til baka 11. júní. Föstudaginn 7. júní ætlum við að ferðast um eyjarnar, skoða okkur um og syngja. Aðaltónleikar okkar verða síðan í Vesturkirkjunni í Þórshöfn laugardaginn 8. júní kl. 17:00.  Með okkur í för verður hjartaknúsarinn Jógvan Hansen sem allir Færeyjingar þekka og mun hann syngja með okkur nokkur lög ásamt Kristínu R Sigurðardóttur sópran.

Efnisskráin verður mjög fjölbreytt, skemmtileg blanda af Íslenskum karlakóraperlum, Ítölskum óperukórum, Bandarískum söngleikjalögum auk Færeyskra laga.

 

Stjórnandi er Julian M. Hewlett  og meðleikari Guðríður Steinunn Sigurðardóttir.Inspired by Iceland