Færeyskt-íslenskt viðskiptaráð stofnað

Stofnfundur Færeyska-íslenska viðskiptaráðsins var haldinn síðastliðinn laugardag (10. nóvember 2012) í Þórshöfn í Færeyjum.  Um 40 fyrirtæki gerðust stofnaðilar.  Ráðinu er ætlað að styrkja enn frekar samskipti þjóðanna á sviði verslunar og viðskipta, vera vettvangur til að stofna til nýrra kynna og tækifæra sem og almennra skoðanaskipta.   

 

Fulltrúar samtaka atvinnulífsins í Færeyjum og Viðskiptaráðs Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að standa að stofnun ráðsins þann 9. júní sl.  Síðan þá hefur staðið yfir undirbúningur að stofnun þess með þátttöku aðalræðisskrifstofunnar.

  

Á fundinn sl. laugardag mættu tæplega 40 manns en þá voru 19 færeysk og 20 íslensk fyrirtæki þegar búin að skrá sig til leiks.  Á fundinum voru kosin í stjórn ráðsins, frá Færeyjum þau Marita Rasmussen, félagi atvinnurekenda,  Debes Petersen, Kemilux, Eyðun Joensen, P/F Poul Hansen, Jóhanna á Bergi, Faroe Ship og Hendrik Egholm, Magn, og frá Íslandi Gísli Gíslason, Faxaflóahafnir, Hjálmar Waag Árnason, Keilir, Ingvar Már Gíslason, Norðlenska, og Þorgeir Baldursson, Kvos/Oddi.  Formaður ráðsins var kosinn Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna en framkvæmdastjóri ráðsins er Kristín S. Hjálmtýsdóttir (sími 510-7111), sem veitir allar nánari upplýsingar um ráðið.

 

Upplýst var á fundinum um úrslit í samkeppni um hönnun á merki ráðsins og var færeyski arkitektinn Eyðun Eliasen hlutskarpastur og hlaut í verðlaun ferð til Íslands og skerpukjöt á færeyska vísu.  Merkið sem er í fánalitum landanna táknar öldur hafsins sem tengir löndin tvö saman.

 

Í lok formlegs fundar flutti Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum ávarp ásamt Kjartani Kristiansen, fyrrv. framkvæmdastjóra útflutningsráðs Færeyja.  

Video Gallery

View more videos