Þjónusta við Íslendinga

Aðstoð í neyð eða vanda

Samkvæmt norrænum samningum eiga Íslendingar búsettir í Finnlandi rétt á neyðaraðstoð frá finnska ríkinu. Hafið samband við neyðarþjónustuna í síma (09) 310 44 222 eða 020 696 006. Nánari upplýsingar er að finna hér

Ferðamönnum í vanda er bent á að hafa í fyrstu samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma +354 545 9900.

Íslendingar geta fengið peninga senda að heiman í gegnum Western Union og sótt þá í Forex. Það skal tekið fram að sendiráðið veitir ekki fjárhagsaðstoð af nokkru tagi. 

Þarf vegabréf til að ferðast á milli Norðurlandanna

Ísland er aðili að Schengen samkomulaginu og norræna vegabréfaeftirlitssamningnum um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna en kjarni beggja er m.a að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna. Þess er hins vegar krafist að þeir sem þar ferðast hafi meðferðis gild persónuskilríki til að þeir geti sannað á sér deili. Þá geta flugfélög krafist þess að farþegar sýni vegabréf við innskráningu og einstök ríki geta hert reglur um vegabréfaeftirlit tímabundið. Því er ekki hægt að tryggja að ferðalangar komist á leiðarenda nema með gild vegabréf og er ferðalöngum eindregið ráðið frá því að treysta á önnur skilríki en vegabréf þegar farið er á milli landa. Ökuskírteini sýnir t.d ekki fram á íslenskt ríkisfang.

Íslenskir ríkisborgarar skulu ávallt hafa vegabréf meðferðis þegar ferðast er til og frá Íslandi þar sem vegabréf eru einu gildu íslensku ferðaskilríkin. Athugið að framlengd vegabréf teljast ekki lengur gild ferðaskilríki.

Upplýsingar um vegabréf fyrir börn og/eða ferðalög innan Norðurlanda:

Utanríkisráðuneytið: Gátlisti fyrir ferðalög (kafli 3: Vegabréf) http://www.utanrikisraduneyti.is/borgarathjonusta/ferdalagid/

Icelandair: http://www.icelandair.is/information/before-you-go/

Neyðarvegabréf

Af gefnu tilefni er eftirfarandi ítrekað: “Í ársbyrjun 2009 voru hertar reglur um útgáfu neyðarvegabréfa. Nú er ekki lengur næg ástæða að hafa gleymt vegabréfinu heima eða gleymt að endurnýja það. Þeim sem eru á leið í utanlandsferð er vinsamlegast bent á að endurnýja vegabréf sín tímanlega fyrir brottför, geyma þau á vísum stað og ganga úr skugga um að þau séu meðferðis áður en lagt er af stað heiman frá.

Sendiráðið getur gefið út neyðarvegabréf til allt að eins árs. Neyðarvegabréf eru ekki véllesanleg en eru heimil samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) enda skulu þau gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð einna helst til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa.

Athugið að sum ríki taka neyðarvegabréf ekki gild sem ferðaskilríki og ber ávallt að kanna málið hjá því ríki sem ferðast er til áður en lagt er af stað.  

Æskilegt er að umsækjendur hringi á undan sér.

Gjaldskrá 

18-66 ára:

Almennt gjald: 52 evrur

Aðrir:

Fyrir neyðarvegabréf: 23 evrur

Almenn vegabréf

Sendiráð Íslands í Helsinki tekur ekki við umsóknum um íslensk vegabréf. Hins vegar gefur sendiráðið út neyðarvegabréf, sjá upplýsingar á heimasíðu þjóðskrár.

Hægt er að sækja um nýtt almennt vegabréf í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló, Berlín, Lundúnum og Washington. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um útgáfu skilríkja erlendis.

Upplýsingar um umsóknarferlið í Stokkhólmi er að finna á heimasíðu sendiráðsins þar. Athugið að panta þarf tíma fyrirfram, tekið er við umsóknum milli kl. 10 og 14 á virkum dögum (sími: +48 (0) 8 442 8300, netfang: icemb.stock(a)utn.stjr.is). 

Athugið: Eftir 24. nóvember 2015 eru framlengd vegabréf ekki í gildi.

Ökuskírteini

Skv. upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er íslenskum sendiskrifstofum nú óheimilt að taka á móti umsóknum um íslensk ökuskírteini ef viðkomandi Íslendingur er með fasta búsetu erlendis. Föst búseta miðast við að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári í viðkomandi landi. Undanskildir eru aðilar sem dvelja erlendis vegna tímabundinna verkefna eða náms (12. gr. tilsk. nr. 2006/126/EBE).

Þetta stafar af því að umferðalögunum var breytt í lok febrúar 2016. Inn í lögin kom ákvæði sem tiltekur að "föst búseta á Íslandi" sé meðal þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla til að geta fengið útgefið íslenskt ökuskírteini. Íslendingar með fasta búsetu erlendis verða því að sækja um ökuskírteini í því landi sem þeir teljast hafa fasta búsetu í.

Exchanging a foreign driving licence for a Finnish licence

Skráning barna í íslensku þjóðskrána

Mögulegt er að láta skrá börn sem fædd og búsett eru í Finnlandi en eru með íslenskan ríkisborgararétt í Þjóðskrá á Íslandi og fá þau þá úthlutað íslenskri kennitölu. Gefa þarf upp fullt nafn barns og fæðingardag. Beiðninni þarf einnig að fylgja virkatodistus/ämbetsbevis frá finnska maistraatti/magistrat eða finnsku kirkjunni. Hægt er að hafa samband beint við þjóðskrá en sendiráðið kemur gögnunum til skila sé þess óskað.

Fylla þarf út eyðublað sem er að finna á heimasíðu þjóðskrár: www.skra.is/eydublod#Skráning barns (A-170, Íslenskur ríkisborgari fæddur erlendis).

Skráning barns sem á íslenskan föður en foreldrar voru ógiftir við fæðingu þess: www.utl.is/index.php/tilkynning-um-islenskan-rikisborgararett-fyrir-barn-faett-erlendis

Að flytja til Finnlands

Helstu upplýsingar um Finnland má finna á Finland.fi.

Eftir komu til Finnlands þarf að fara til finnska maistraatit/magistraterna á þeim stað sem viðkomandi mun búa á og tilkynna um flutning til Finnlands. Þeir sjá svo um að tilkynna Þjóðskrá á Íslandi um breytt lögheimili. Tilkynning um búferlaflutninga fer því fram rafrænt sem stytta ætti allan skráningartíma.

Íslendingafélag

Í Finnlandi er starfandi Félag Íslendinga í Finnlandi og skipuleggur félagið m.a. jólafagnað, þorrablót og viðburði fyrir íslensk börn. Félagið stendur fyrir íslenskuskóla í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Félagið er einnig með síðu á facebook og er hægt er að skrá sig þar, fylgjast með og kynnast starfsemi félagsins. 

Námsmenn og próftaka í sendiráði

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SINE) veitir allar nánari upplýsingar um nám erlendis

Próftaka í sendiráði

Íslenskum námsmönnum er heimilt að taka próf frá íslenskum menntastofnunum í sendiráðinu á virkum dögum. Menntastofnun skal senda beiðni um próftöku á netfang sendiráðsins emb.helsinki(a)mfa.is og gera grein fyrir nemanda, námsgrein og dagsetningu prófs. Beiðnin skal vera send með ekki minna en 10 daga fyrirvara. Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fást hjá sendiráðinu með því að senda póst á emb.helsinki(a)mfa.is

Vegabréfsáritanir

Íslendingar þurfa í sumum tilvikum vegabréfsáritanir til að geta ferðast til annarra ríkja. Frekari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn.

 

 

Video Gallery

View more videos