Þjónusta við Íslendinga

Útgáfa vegabréfa 

Sendiráð Íslands í Helsinki tekur ekki við umsóknum um íslensk vegabréf. Hins vegar gefur sendiráðið út neyðarvegabréf, sjá upplýsingar á heimasíðu þjóðskrár.  

Hægt er að sækja um nýtt almennt vegabréf í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló, Berlín, Lundúnum og Washington. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um útgáfu skilríkja erlendis.

Upplýsingar um umsóknarferlið í Stokkhólmi er að finna á heimasíðu sendiráðsins þar. Athugið að panta þarf tíma fyrirfram, tekið er við umsóknum milli kl. 10 og 14 á virkum dögum (sími: +48 (0) 8 442 8300, netfang: icemb.stock(a)utn.stjr.is). 

Athugið: Eftir 24. nóvember 2015 er ekki hægt að ábyrgjast hvernig litið verður á framlengt vegabréf við landamæraeftirlit erlendis og er það alfarið á ábyrgð einstaklings að ferðast með slíkt vegabréf.

Neyðarvegabréf eru ekki véllesanleg en eru heimil samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) enda skulu þau gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð einna helst til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa. 
 
Í ljósi samkomulags um norrænt vegabréfafrelsi, má líta sem svo á að vegabréf séu ekki nauðsynleg í ferðum milli Norðurlandanna og því ættu önnur persónuskilríki og gögn að duga samkvæmt því. Ökuskírteini með mynd gildir sem ferðaskilríki milli Norðurlandanna. Hins vegar er öllum ríkjum heimilt að krefjast vegabréfa, ef sérstakar aðstæður kalla á aukið öryggiseftirlit.
 

Útgáfa ökuskírteina

Hægt er að sækja um endurnýjun á íslensku ökuskírteini í sendiráðinu í Helsinki. Umsókninni þarf að fylgja svokallað kennispjald, sem útvega þarf frá Ríkislögreglustjóra. Nauðsynlegt er að hringja í sendiráðið fyrirfram, gefa upp nafn og íslenska kennitölu og biðja sendiráðið að útvega kennispjaldið. Fylla þarf út umsókn í sendiráðinu, en henni þarf að fylgja ein nýleg mynd af umsækjenda. Sé umsækjandi með meirapróf, þarf viðkomandi að sækja sér læknisvottorð áður en komið er í sendiráðið að sækja um nýtt ökuskírteini. Ekki er þó hægt að endurnýja 2ja ára reynsluskírteini sem ökumenn fá þegar þeir taka bílpróf í fyrsta sinn. Lögum samkvæmt þurfa þeir að fara til Íslands til að endurnýja slík skírteini.  

Bent er á að ætlast er til að Íslendingar sem eru með fasta búsetu erlendis, þ.e.a.s. búnir að búa í meira en 6 mánuði í landinu, leggi inn íslenska ökuskírteinið og fái útgefið skírteini í búsetulandi. Það eru lögregluyfirvöld í viðkomandi landi sem óska eftir þessu. Ökuskírteinið er því lagt inn hjá embættinu sem gefur út nýtt skírteini og sér það embætti um að senda ökuskírteinið til Íslands. 

Vegabréfsáritanir

Íslendingar þurfa í sumum tilvikum vegabréfsáritanir til að geta ferðast til annarra ríkja. Frekari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn.

Skráning barna í íslensku þjóðskrána

Mögulegt er að láta skrá börn sem fædd og búsett eru í Finnlandi en eru með íslenskan ríkisborgararétt í Þjóðskrá á Íslandi og fá þau þá úthlutað íslenskri kennitölu. Gefa þarf upp fullt nafn barns og fæðingardag. Beiðninni þarf einnig að fylgja virkatodistus/ämbetsbevis frá finnska maistraatti/magistrat eða finnsku kirkjunni. Hægt er að hafa samband beint við þjóðskrá en sendiráðið kemur gögnunum til skila sé þess óskað.

Fylla þarf út eyðublað sem er að finna á heimasíðu þjóðskrár: www.skra.is/eydublod#Skráning barns (A-170, Íslenskur ríkisborgari fæddur erlendis).

Að flytja til Finnlands

Ýmsar hagnýtar upplýsingar sem gott er að vita og hafa í huga þegar þú flytur til Finnlands varðandi skólamál, atvinnu og fleira.

Helstu upplýsingar um Finnland má finna á http://www.finland.fi.

Við flutning til Finnlands þarf ekki lengur að fylla út samnorrænt flutningsvottorð á Íslandi. Það sem þarf að gera er að fara til finnska maistraatit/magistraterna á þeim stað sem viðkomandi mun búa á og tilkynna um flutning þar. Þeir sjá svo um að tilkynna Þjóðskrá á Íslandi um flutninginn. Flutningarnir gerast með öðrum orðum rafrænt sem á að stytta allan skráningartíma.

Íslendingafélag

Í Finnlandi er starfandi Félag Íslendinga í Finnlandi og skipuleggur félagið m.a. jólafagnað, þorrablót og viðburði fyrir íslensk börn. Félagið stendur fyrir íslenskuskóla í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Félagið er einnig með síðu á fésbókinni og er hægt er að skrá sig og fylgjast með og kynnast starfsemi félagsins. 

Námsmenn og próftaka í sendiráði

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SINE) veitir allar nánari upplýsingar um nám erlendis

Próftaka í sendiráði

Íslenskum námsmönnum er heimilt að taka próf frá íslenskum menntastofnunum í sendiráðinu á virkum dögum. Menntastofnun skal senda beiðni um próftöku á netfang sendiráðsins emb.helsinki(a)mfa.is og gera grein fyrir nemanda, námsgrein og dagsetningu prófs. Beiðnin skal vera send með ekki minna en 10.daga fyrirvara. Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fást hjá sendiráðinu með því að senda póst á emb.helsinki(a)mfa.is

Neyðaraðstoð

Samkvæmt norrænum samningum eiga Íslendingar rétt á neyðaraðstoð frá finnska ríkinu. Hafið samband við neyðarþjónustuna í síma (09) 310 44 222 eða 020 696 006. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.hel.fi/hki/sote/en/Emergency+services.

Neyðarsími utanríkisráðuneytisins eftir lokun er +354 545 9900.

Íslendingar geta fengið peninga senda að heiman með Western Union og sótt þá í Forex. Það skal tekið fram að sendiráðið veitir ekki fjárhagsaðstoð af nokkru tagi.

Video Gallery

View more videos