Þjónusta við Íslendinga

Útgáfa vegabréfa og ökuskírteina

Sendiráð Íslands í Helsinki tekur ekki við umsóknum um íslensk vegabréf. 

Hægt er að sækja um nýtt vegabréf í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló, Berlín, Lundúnum og Washington. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um útgáfu skilríkja erlendis.

Stokkhólmur: Afgreiðslutími er á opnunartíma sendiráðsins; 9-16 alla virka daga. Mælt er með því að umsækjendur hafi í huga að frágangur umsóknar og myndataka geti tekið nokkra stund og er þess vegna æskilegt, ef því verður við komið, að koma fyrir kl. 15. Vakin er athygli á því að ræðismenn geta ekki lengur tekið við umsóknum um vegabréf. Umsækjendur verða að koma í eigin persónu til sendiráðsins þar sem lífkennamynd er tekin af viðkomandi á staðnum. Þar með er óþarfi að koma með passamynd. Hraðafgreiðsla tekur að venju minnst 2 virka daga.

Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn undir 18 ára aldri skulu
báðir foreldrar eða forráðamenn undirrita þar til gert eyðublað. Börn sem fædd eru erlendis þurfa að vera komin með kennitöluskráningu í íslensku þjóðskránni.

Vegabréfin eru útbúin á Íslandi og póstsend til umsækjanda.

Vegabréfsáritanir

Íslendingar þurfa í sumum tilvikum vegabréfsáritanir til að geta ferðast til annarra ríkja. Frekari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn.

Skráning barna í íslensku þjóðskrána

Mögulegt er að láta skrá börn sem fædd og búsett eru í Finnlandi en eru með íslenskan ríkisborgararétt í Þjóðskrá á Íslandi og fá þau þá úthlutað íslenskri kennitölu. Gefa þarf upp fullt nafn barns og fæðingardag. Beiðninni þarf einnig að fylgja virkatodistus/ämbetsbevis frá finnska maistraatti/magistrat eða finnsku kirkjunni. Hægt er að hafa samband beint við þjóðskrá en sendiráðið kemur gögnunum til skila sé þess óskað.

Skráning í þjóðskrá í Finnlandi

Við flutning til Finnlands þarf ekki lengur að fylla út samnorrænt flutningsvottorð á Íslandi. Það sem þarf að gera er að fara til finnska maistraatit/magistraterna á þeim stað sem viðkomandi mun búa á og tilkynna um flutning þar. Þeir sjá svo um að tilkynna Þjóðskrá á Íslandi um flutninginn. Flutningarnir gerast með öðrum orðum rafrænt sem á að stytta allan skráningartíma.

Íslendingafélag

Í Finnlandi er starfandi Félag Íslendinga í Finnlandi og skipuleggur félagið m.a. jólafagnað, þorrablót og viðburði fyrir íslensk börn. Félagið stendur fyrir íslenskuskóla í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Félagið er einnig með síðu á fésbókinni og er hægt er að skrá sig og fylgjast með og kynnast starfsemi félagsins. 

Íslenski skólinn í Finnlandi  

Í Esbo er starfræktur íslenskuskóli fyrir öll börn á skólaaldri. Kennslan fer fram annan hvern sunnudag í bókasafni í verslunarmiðstöðinni Sello kl. 12.00-14.00. Lögð er áhersla á íslenskukunnáttu, einstaklingsmiðaða kennslu og er námsefnið frá Námsgagnastofnun Íslands. Skólagjöld er 40 evrur fyrir önn og eru þar innifalin kennsla og námsefni. 

Nánari upplýsingar um skólann veitir Þórunn Ella Hauksdóttir í síma 0442800864. Hún tekur einnig á móti skráningum í skólann. 

Námsmenn

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SINE) veitir allar nánari upplýsingar.

Halló Norðurlönd

Ýmsar hagnýtar upplýsingar sem gott er að vita og hafa í huga þegar þú flytur til Finnlands varðandi skólamál, atvinnu og fleira

Neyðaraðstoð

Samkvæmt norrænum samningum eiga Íslendingar rétt á neyðaraðstoð frá finnska ríkinu. Hafið samband við neyðarþjónustuna í síma (09) 310 44 222 eða 020 696 006. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.hel.fi/hki/sote/en/Emergency+services.

Neyðarsími utanríkisráðuneytisins eftir lokun er +354 545 9900.

Íslendingar geta fengið peninga senda að heiman með Western Union og sótt þá í Forex.Inspired by Iceland