Afhenti Finnlandsforseta trúnaðarbréf

Kristín A. Árnadóttir sendiherra afhenti í gær Sauli Niinisto forseta Finnlands trúnaðarbréf sittKristín A. Árnadóttir sendiherra afhenti í gær Sauli Niinisto forseta Finnlands trúnaðarbréf sitt. Á fundi með forsetanum í kjölfarið var aukin samvinna Norðurlandanna, einkum Íslands og Finnlands,  til umræðu.
 
Vísaði forsetinn sérstaklega til Norðurslóðasamvinnu þar sem framtíðarhagsmunir væru í húfi, og öryggis- og varnarmálasamvinnu þar sem loftrýmisgæsla undir yfirstjórn Nató, með þátttöku Finnlands og Svíþjóðar, sem fram færi í byrjun árs 2014, væri til marks um það að stigið væri yfir gamlar girðingar og ný skref tekin í mikilvægum málum.  Fram kom í máli forseta Finnlands að það hefði verið einstök upplifun að sitja nýverið fund forsætisráðherra Norðurlandanna með forseta Bandaríkjanna, Barack Obama í Stokkhólmi. Þar hefðu ríkisstjórnaleiðtogar Norðurlandanna fimm setið sömu megin borðs og talað einum rómi, án þess að neinn þeirra drægi taum eigin lands, og væri það til marks um að Norðurlöndin væru heild, deildu sömu grundvallarsýn og gildum.
 
Nokkrar umræður áttu sér stað um efnahagsástandið í Finnlandi og sagði forsetinn að hann teldi Finnland vera á uppleið eftir miklar efnahagslegar þrengingar, en framundan væri þó niðurskurður, skipulagsbreytingar og hagræðingaraðgerðir sem gætu reynst erfiðar fyrir ríkisstjórnina og finnskt samfélag en væru óhjákvæmilegar.  Forseti Finnlands sagði opinbera heimsókn til Íslands sl vor hafa verið bæði afar ánægjulega og upplýsandi, og hann teldi Íslendingum hafa tekist vel í enduruppbyggingu hagkerfisins á síðustu árum, og raunar væri sá árangur til fyrirmyndar fyrir önnur ríki. 
 

Video Gallery

View more videos