Ljós og skuggar úr norðri - Caput í Kína 18.-24. maí

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagana 18.-24. maí verður Caput hópurinn á tónleikaferðalagi í Kína og heldur tónleika í þremur borgum, Beijing, Tianjin og Xi’an. Hópinn skipa 8 hljóðfæraleikarar undir stjórn Guðna Franzsonar.

Caput hefur verið boðið að leika á nútímatónlistarhátíðinni í Beijing 2013 en hátíðin er nú haldin í ellefta sinn. Heimili hátíðarinnar er í tónlistarháskólanum í Beijing og fara tónleikarnir fram í tónleikasal skólans þann 20. maí næstkomandi kl. 14:00. Frá Beijing heldur hópurinn til Tianjin til að leika á Maíhátíðinni þann 21. maí og þaðan er flogið til Xi’an. Þar heldur Caput tónleika í tónlistarháskólanum í Xi’an þann 23. maí.

Sérstök áhersla verður á tónverk norrænna höfunda á tónleikum Caput í Kína. Tvö íslensk tónverk voru pöntuð sérstaklega fyrir ferðina og verða frumflutt í Beijing 20. maí. Þetta eru verkin Ásýnd eftir Hauk Tómasson og / (安) eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Haukur og Anna hafa bæði hlotið hin virtu Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir tónsmíðar sínar ásamt þeim Kaiju Saariaho frá Finnlandi, Rolf Wallin frá Noregi og Bent Sørensen frá Danmörku sem einnig eiga verk á Kínaefnisskrá Caput hópsins. Jafnframt verða leikin einleiksverk og kammerverk eftir Jón Leifs. Til mótvægis við norrænu verkin verður frumflutt nýtt verk eftir ungan kínverskan höfund, Chen Danbu, sem einnig er skrifað fyrir Caput í tilefni tónleikanna og samstarfsins við Beijing Modern Music Festival.

Á tónleikunum í Beijing, Tianjin og Xi’an kemur fram með Caput ungur kínverskur fiðluleikari, Chen Xi. Hann er mjög vel þekktur og vinsæll í heimalandi sínu en hann sigraði í hinni alþjóðlegu Tchaikovsky fiðlukeppni 2002 aðeins 17 ára að aldri. Chen Xi mun leika einleiksverk eftir Toniu Ko og Veturinn eftir Astor Piazolla með Caput.

Caput nýtur styrks frá Norrænu menningargáttinni (Kulturkontakt Nord) til ferðarinnar. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Lin Yao Ji Music Foundation of China og Kínversk-íslenska menningarfélagið (KÍM) sem fagnar 60 ára afmæli á árinu 2013. Hægt verður að fylgjast með ferð hópsins á feisbókarsíðu KÍM https://www.facebook.com/Kinverskislenskamenningarfelagid?fref=ts

Caput hópurinn hefur einbeitt sér að flutningi samtímatónlistar síðan hann tók til starfa í janúar 1988. Caput fagnaði því nýverið 25 ára afmæli. Caput hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á þessum aldarfjórðungi, nú síðast verðlaun Norræna tónskáldaráðsins 2011 fyrir ómetanlegt framlag til Norrænnar tónlistar. Flutningur Caput hópsins er varðveittur á ótal hljóðritunum og útgáfum, m.a. BIS og ITM.

Nánari upplýsingar veita:

Kristín Mjöll Jakobsdóttir, fararstjóri, kmjoll@ismennt.is, +354-846-7816

Guðni Franzson, stjórnandi, gf@ismennt.is, +354-862-4913

 

 

Video Gallery

View more videos