Ekvador

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Ekvador og Íslands 11. desember 2003. Kjörræðismaður Íslands í Quito er Oswaldo Munoz.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Ekvador þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Almennt

Íbúar Ekvador eru 13 milljónir manns. Meirihluti landsmanna, eða um 65%, er blanda af innflytjendum frá Spáni og fólki af indjánaættbálkum og kallast mestizo, en um 25% eru af indjánaættum. Aðrir, eða um 10% íbúanna eru Spánverjar eða eiga rætur að rekja til annarra landa.

Spænska er opinbert tungumál Ekvador, en þó eru indjánatungumál enn víða töluð á meðal innfæddra, einkum Quechua. Um 95% íbúa tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni sem er þjóðkirkja landsins. Meðallífslíkur í Ekvador eru 76 ár.

Almennt læsi í Ekvador er á meðal þess sem best gerist í Rómönsku Ameríku, eða um 92,5%. Skyldunám er frá 5 til 14 ára aldurs. Flestir fara í ríkisskóla, en einkaskólar eru algengir á auðugari þéttbýlissvæðum.

Ekvador er tæplega þrisvar sinnum stærra en Ísland, eða 283,560 ferkílómetrar. Landið er rómað fyrir náttúrufegurð og þrátt fyrir smæð þess er landslagið þar mjög fjölbreytt, frá hrikalegum Andesfjöllum að fagurri strandlengju við Kyrrahafið og frá Amasonfrumskógi að hinum frægu Galapagos eyjum.

Höfuðborg landsins er Quito og íbúafjöldinn er rúm ein milljón manns.

Í Ekvador er fulltrúalýðræði og er stjórnarfar landsins byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins á milli framkvæmda-, dóms- og löggjafarvalds. Kosningaaldur í Ekvador er 18 ára og það er kosningaskylda fyrir læsa íbúa á aldrinum 18 til 65 ára sem eiga heima í landinu, nema þeir séu í herþjónustu.

Forseti lýðveldisins leiðir framkvæmdavaldið og er einnig þjóðhöfðingi landsins. Hann býður sig fram til fjögurra ára kjörtímabils, en má ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Forsetinn ákveður fjölda og hlutverk ráðuneyta og skipar ráðherra þeirra. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, en í því sitja 100 þingmenn í einni þingdeild. Þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára í senn, en þeir geta boðið sig fram til endurkjörs að þeim tíma liðnum. Síðustu kosningar voru í október 2002.

Elstu mannvistarleifar í Ekvador eru frá 10.000 f.Kr. Vitað er að vísar að þremur borgum höfðu myndast árið 500 f.Kr. og að íbúar þeirra versluðu meðal annars við Maya í Mexíkó. Þegar Inkar réðust inn í Ekvador árið 1460 undir stjórn Tupac-Yupanqui reyndust þrír ættbálkar nægilega sterkir til að verjast, en það voru Quito, Canari og Cara ættbálkarnir. Þegar sonur Tupac-Yupanqui, Huayna Capac, tók við völdum náðu Inkar yfirráðum yfir landinu og tungumál þeirra Quechua breiddist út.

Árið 1526 lést Huayna Capac og þá var ríki hans deilt á milli tveggja sona hans, en þeir börðust innbyrðis um völdin sem leiddi til þess að þegar Spánverjinn Francisco Pizarro kom á land í Ekvador árið 1532, ásamt 180 manna herliði sigraði hann Inkana, þrátt fyrir að þeir verðust vel. Í kjölfarið stjórnuðu Spánverjar landinu í 300 ár, þar til íbúar Ekvador, undir stjórn Simon Bolivar, sigruðu spænska herinn í bardaga við Pichincha árið 1822.

Bolivar sameinaði Ekvador, Kólumbíu og Venesúela í eitt ríki sem hann kallaði Stóru Kólumbíu eða Gran Colombia. Ætlunin var að með tímanum yrði öll Rómanska Ameríka sameinuð í þetta ríki, en átta árum síðar, árið 1830, gekk Ekvador úr ríkinu og Kólumbía og Venesúela klufu samvinnu sína sömuleiðis.

Ekvador öðlaðist sjálfstæði frá Spánverjum 24 maí 1822 og í kjölfarið fylgdu uppreisnir, valdarán og einræði. Á 131 ári hafði lýðveldið 48 forseta. Landamæradeilur við nágrannaríkið Perú hafa verið tíðar og það var ekki fyrr en 1999 sem ríkin tvö gerðu með sér friðarsamning og enduðu þannig nærri því sextíu ára landamæradeilur sínar.

Stjórnmál

Forsetaskipti hafa verið tíð í Ekvador á tímabilinu 1996 til 2003, þegar skipt var um forseta sex sinnum. Núverandi forseti, Lucio Gutiérrez, er fyrrverandi ofursti í hernum. Í janúar árið 2000 fékk hann þau fyrirmæli að brjóta á bak aftur kröfugöngu tugþúsunda innfæddra indjána í höfuðborginni Quito, sem mótmæltu spillingu í ríkisstjórninni og slæmri efnahagsstjórn. Í stað þess að fylgja fyrirmælunum leyfði Gutiérrez mótmælendum að ná þinginu á sitt vald og lét herinn sjá þeim fyrir matvælum. Í kjölfarið var sitjandi forseta Jamil Mahuad steypt af stóli og skammlíf ríkisstjórn tók völdin. Herforingjastjórn í landinu kom gömlu ríkisstjórninni til varnar og veitti varaforsetanum, Gustavo Noboa, völdin. Gutiérrez var dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar og var rekinn úr hernum.

Í forsetakosningum árið 2002 var Gutiérrez kjörinn forseti landsins og tók hann við völdum 15. janúar 2003. Varaforseti er Alfredo Palacio. Tíu stjórnmálaflokkar náðu að koma frambjóðendum á þing í þingkosningum og þeir stærstu eru PSC (Partido Social Cristiano), sem hefur 25 fulltrúa á þingi, ID (Izquierda Democrática, vinstri demókrataflokkur) sem hefur 16 þingmenn og PRE (Partido Roldosista Ecuatoriano) hefur 15 fulltrúa. PSC og PRE sitja í ríkisstjórn, ásamt PSP (Sociedad Patriótica 21 de enero) og óháðum.[1]

Næstu forsetakosningar eru áætlaðar árið 2006, en saga Ekvador sýnir að fáir forsetar ná að sitja út kjörtímabil sitt og síðasta áratuginn hefur engum tekist það. Ytri aðstæður eru forsetanum erfiðar, erlendar skuldir eru miklar, yfir 60% þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum og stjórnmálin eru óstöðug. Að auki er Gutiérrez óreyndur stjórnmálamaður, ýmis verkföll hafa skekið landið síðan hann tók við völdum, hann komst naumlega undan lögsókn vegna ákæru um embættisafglöp vegna meintrar misnotkunar á opinberu fé og umbótatilraunir hans hafa gert marga helstu stuðningsaðila hans fráhverfa honum.

Gutiérrez komst m.a. til valda vegna stuðnings innfæddra indjána, sem hafa frá árinu 1996 tekið virkan þátt í stjórnmálum landsins, í stað þess að sniðganga þau eins og þeir gerðu áður. Flokkur þeirra Pachakutik bauð þá fram í fyrsta sinn og náði 6 fulltrúum á þing. Flokkurinn studdi Gutiérrez í kosningunum 2002, en hætti stuðningi sínum við ríkisstjórnina árið 2003 m.a. vegna þess þeir töldu hana hafa svikið kosningaloforð sín.

Æðsta dómsvaldið í landinu er í höndum Hæstaréttar, sem hefur á að skipa 30 dómaraembættum sem skipt er á milli tíu deilda. Hæstaréttardómarar eru skipaðir af þinginu til lífstíðar. Það þótti því tíðindum sæta þegar Lucio Gutiérrez forseti myndaði meirihluta fyrir því á þingi í desember 2004 að reka 27 af 31 hæstaréttardómurum landsins og ráða aðra hliðhollari dómara í þeirra stað. Þessi ákvörðun þótti ólýðræðisleg og skýrt brot á stjórnarskrá landsins, en forsetinn lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um málið fljótlega, til að reyna að auka lögmæti ákvörðunarinnar.[2]

Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur forsetinn náð að koma æa einhverjum umbótum. Aðhald í efnahagsmálum hefur hjálpað til við að takmarka erlendar skuldir og olíuhagnaður hefur verið notaður til að greiða niður skuldir ríkisins. Verg landsframleiðsla hefur vaxið um 2,7 prósentustig í forsetatíð Gutiérrez, verðbólga hefur minnkað, erlend fjárfesting hefur aukist, svo og tekjur ríkisins. Helstu ástæður fyrir þessu eru hátt verð olíu á heimsmarkaði og lágt gengi Bandaríkjadals.

Efnahagsmál

Ekvador byggði afkomu sína á landbúnaði, þar til olía fannst í landinu á sjöunda áratugnum. Landið á talsverðar olíuauðlindir, sem hafa aflað um 40% af útflutningsverðmæti þess síðustu árin. Þar af leiðandi hefur verðflökt á heimsmarkaðsverði olíu mikil áhrif á efnahag landsins.

Í kjölfar verðfalls olíu og áhrifa vegna El Nino, skall mikil efnahagskreppa á Ekvador árið 1999. Verg landsframleiðsla dróst saman um 6%, fátækt jókst mikið, bankakerfið hrundi og ríkisstjórnin vanrækti að greiða af erlendum skuldum. Gengi gjaldmiðils landsins féll um 70% og 9. janúar 2000 tilkynnti ríkisstjórnin ákvörðun sína að taka upp Bandaríkjadal sem gjaldmiðil til að forðast óðaverðbólgu.[3] Þessi ákvörðun var meðal aðstæðna fyrir valdaráninu árið 2000, þegar Jamil Mahuad var velt af stóli. Gustavo Noboa sem tók þá við embætti hélt sig við ákvörðun fyrirrennara síns og tók upp Bandaríkjadal sem gjaldmiðil landsins.

Vegna verðbólgu og atvinnuleysis, á árunum 1995 til 2000, flutti mikill fjöldi íbúa úr landi. Fjármagni sem brottfluttir íbúar Ekvador senda árlega heim til fjölskyldna sinna nemur um 1,5 milljarða Bandaríkjadala, eða um 6% af vergri landsframleiðslu Ekvador.

Milliríkjamálefni

Straumur kólombískra flóttamanna að landamærum Ekvador hefur síaukist síðastliðin ár og árið 2003 sóttu 1.000 Kólombíumenn um hæli í landinu mánaðarlega. Að auki streyma kókaín og önnur ólögleg efni inn í landið frá nágrannaríkjunum Kólombíu og Perú. Ennfremur stunda kókaínbraskarar peningaþvott við landamærin, enda hafa stjórnvöld í Ekvador ekki náð að grípa til aðgerða til að stemma stigu við því.

Ekvador hefur átt þátt í undirbúningi að fríverslunarsamningi á milli tólf ríkja í Suður Ameríku, en ríkin eru ásamt Ekvador, Bólivía, Kólumbía, Perú, Venesúela,[4] Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ,[5] Chile, Guyana og Suriname. Á fundi í Cuzco í Perú 8. desember 2004 undirrituðu fulltrúar ríkjanna samning um stofnun SACN (South American Community of Nations, Comunidad Sudamericana de Naciones, CSN), sem á með tímanum (miðað er við árið 2019) að þróast og líkjast samvinnu ríkja í Evrópusambandinu. Ætlunin er m.a. að taka upp sameiginlega mynt, stjórnarskrá, löggjafarþing og vegabréf, en til að byrja með verður látið nægja að fella niður tolla.

Samvinnan byggir á sameiningu fríverslunarsamtakanna Mercosur og Andes bandalagsins (Andean Community, CAN) sem stefnt er að verði gengin í gegn árið 2007. Við það myndast 366 milljón manna markaður með rúmlega 2,6 milljarða dollara verga landsframleiðslu (GDP).

Þrátt fyrir að samstarf ríkja í CAN hafi hafist fyrir 35 árum hefur enn ekki tekist að komast að samstöðu um sameiginlega tolla fyrir aðildarríkin. Því má gera ráð fyrir að með fjölgun aðila að nýja samstarfinu verði enn erfiðara að komast að samkomulagi, sérstaklega þar sem mörg ríkjanna flytja út sömu vörutegundir. Framtíðin leiðir í ljós hvernig þessum nýja samstarfsvettvangi mun reiða af.

Viðskipti Íslands og Ekvador

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Ekvador og Íslands 11. desember 2003. Kjörræðismaður Íslands í Quito er Oswaldo Munoz.

Verðmæti innflutnings til Íslands frá Ekvador á tímabilinu janúar til nóvember 2003 nam 28,7 milljónum króna. Útflutningur frá Íslandi til Ekvador á sama tímabili nam 0,6 milljónum króna.


[1] Fjöldi þingmanna fyrir hvern flokk er eftirfarandi: PSC 25, PRE 15, ID 16, PRIAN 10, PSP 9, Pachakutik Movement 6, MPD 5, DP 4, PS-FA 3, óháðir 7.

[2] Samherjarnir eru CFP (Concentración de Fuerzas Populares) undir forystu Averroes Bucaram og PRIAN (National Action Institutional Renewal Party) sem leitt er af fyrrverandi forseta landsins Álvaro Noboa.

[3] Við upphaf árs 2002 var verðbólgan í landinu um 91%

[4] Aðilar að Andes bandalaginu (Andean Community, CAN).

[5] Aðilar að Mercosur bandalaginu.

Video Gallery

View more videos