Kynning á nýjustu skáldsögu "Jójó" Steinunnar Sigurðardóttur 2. júní 2014, kl. 19, í Hauptbücherei Wien

Steinunn Sigurðardóttir les á þýsku úr nýjustu skáldsögunni sinni "Jójó" (AD íslensku af Coletta Bürling , Rowohlt )
Kynning : Kristina Pfoser (ORF/Ö1)

Í nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Jójó, eru tvífarar á hverju strái. Aðalsöguhetjan , krabbameinslæknirinn þýski, Martin Montag (sem minnti þennan lesanda nokkuð á barnateiknimyndahetjuna Matta morgun sem tekur á sig nýja mynd á hverjum morgni þegar hann vaknar), á sér spegilmynd í franska útigangsmanninum Martin Martinetti, sjúklingi sem hann dregst að og vingast við. Petra kærasta aðalsöguhetjunnar er önnur Petran í lífi hans og sjálfur hefur hann áður tekið á sig mynd látins æskuvinar, Mikka, fyrir hina Petruna, og svona mætti lengi telja. Úr öllum þessum samböndum verður til mikill og allt að því gotneskur speglasalur.

Martin Montag fær einn daginn til sín sjúkling sem kallar fram þaggaða (en þó ekki gleymda) fortíð. Kunnuglegt göngulag sjúklingsins framkallar minningar, fortíðin bankar uppá í nútímanum í vel þekktu frásagnarmynstri og setur tilfinningalíf Martins úr skorðum. Skorðum sem hann hefur haft nokkuð fyrir að koma sér upp og eru viðkvæmar fyrir ytra áreiti eins og tilfinningaríkt samband hans við suma sjúklinga sína sannar. Fortíð hans geymir skelfilega trámatíska reynslu sem hann hefur þagað yfir lengi og ekki treyst þeim sem nú standa honum næstir fyrir. En þessi fortíð virðist þó stöðugt reyna að riðjast uppá yfirborðið því eins og tráma- og minniskenningar segja fyrir um er þetta reynsla sem hann hefur ekki losnað undan, atvikið sem er í raun ekki orðin að fortíð og minningu, en heldur endalaust áfram í núinu, sem honum hefur ekki tekist að ráða fram úr, að ‚klára‘. Þessi tilfinning er raungerð í textanum þegar hann endurtekur hvað eftir annað upphaf atviksins: „Ég er alltaf að koma úr skólanum.“

 

Steinunn Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 1950. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og BA prófi í sálarfræði og heimspeki frá University College í Dublin 1972. Steinunn gaf út fyrstu bók sína, ljóðabókina Sífellur, 19 ára gömul og vakti hún strax athygli. Árið 1995 fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað. Bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál og frönsk kvikmynd byggð á skáldsögunni Tímaþjófinum var frumsýnd árið 1999.
Steinunn var fréttamaður útvarps og fréttaritari með hléum frá 1970-1982. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður og þáttagerðarmaður við útvarp og sjónvarp. Steinunn hefur dvalist um lengri og skemmri tíma í ýmsum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og Japan.
Steinunn er nú búsett í París og á Selfossi. Hún á eina uppkomna dóttur.

Nánari upplýsingar eru að finna á vefsíðu:
http://www.buechereien.wien.at/de/programm/veranstaltungskalender/2733

Video Gallery

View more videos